Gluggagægir á barnsaldri

Sigrún Stefánsdóttir

Ég gerðist gluggagægir á barnsaldri. Ég var bara fjögura ára þegar ég lá á gluggunum í skóla Jennu og Hreiðars á Eyrinni á Akureyri. Eldri bróðir minn var byrjaður í lestrarnámi en ég var of ung. Ég vildi fá að vera með. Jenna varð leið á andlitinu á glugganum og tók mig inn. Þar opnaðist mér heimur bókaormsins. Ég lærði að lesa. Jenna kallaði mig inn á skrifstofu eftir lestrartímana og lánaði mér bækur sem ég átti að skila daginn eftir. Dísa ljósálfur, Græni hatturinn, Bláa kannan, Dimmalimm, Litla gula hænan og margt fleira uppbyggilegt. Hjá Jennu lærði ég að lesa strax og hratt. Tvö hundruð atkvæði á mínútu urðu svo lykill að besta bekk í barnaskóla. Það var ekki málið fyrir bókaorminn.

Sem betur fer hefur dregið úr vægi lestrarhraða við mat á hæfni nemenda í skóla, en ég sit enn uppi með þessa arfleið úr æsku. Ég hef alltaf verið mjög forvitin og endaði því sem fréttamaður seinna á lífsleiðinni. Þessi forvitni varð til þess að ég tileinkaði mér fljótlega sérkennilega lestrartækni sem felst í því  að skanna miðjuna á hverri blaðsíðu og komast þannig miklu fljótar að því hver drap hvern í bókarlok.

Í starfi mínu sem fréttamaður var þetta auðvitað góður hæfileiki en nú velti ég þessum lestrarmáta fyrir mér. Hann er ekki gallalaus. Ég þarf ekki lengur að flýta mér en ég geri það samt. Ég hef dvalið á Spáni síðustu mánuði. Ég keypti mér átta bækur áður en ég fór og bætti um betur þegar ég skrapp til Danmerkur á dögunum. Núna stefnir í ófremdarástand þar sem  ég á bara eina bók ólesna og heill mánuður framundan. Ég horfi á Kiljuna á netinu og fyllist þrá eftir bókabúðunum þegar nýju bækurnar eru kynntar. Þvílík veisla og ég á Spáni !

En í þessum hremmingum mínum hef ég fundið nýtt ráð. Núna les ég bækurnar tvisvar. Fyrst les ég þær eins og venjulega, miðjuna úr. Svo les ég þær aftur og uppgötva þá allt það sem ég missti af í hraðferðinni. Í seinni umferðinni nýt ég betur ritstílsins, smáatriðanna og þess sem er óskrifað milli línanna. Ég vildi óska að ég hefði tileinkað mér þessa aðferð fyrr en betra er seint en aldrei. Nú bíða mín heilu bókahillurnar í stofunni heima sem flestar þola seinni umferð, að ógleymdum öllum nýju jólabókunum, sem verða að sjálfsögðu lesnar tvisvar. Ég er strax farin að hlakka til.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir desember 16, 2019 09:16