„Það er engin ástæða til að rjúka til og fjárfesta í dýrum gönguskóm þó menn ætli að ganga í Heiðmörk, í Búrfellsgjá, á Mosfellið eða upp að steini í Esjunni. Í slíkum göngum dugar ágætlega að vera í öklaháum léttum skóm,“ segir þjóðagarðsvörðurinn, forseti Ferðafélags Íslands og göngugarpurin Ólafur Örn Haraldsson og bætir við að það sé miklu léttara fyrir eldra fólk að vera í léttum skóm en þungum gönguskóm.
Velja rétta stærð
Það er gríðarlega mikið úrval á gönguskóm í útivistarverslunum landsins. Þeir sem ætla að fjárfesta í einum slíkum ættu að íhuga vandlega áður en þeir fara út í slík kaup, hvað henti þeim og
til hvers þeir ætla að nota skóna. Það þarf líka að gefa sér góðan tíma í að velja réttu skóna. Það getur tekið nokkra daga að finna rétta parið. Eitt er þó sýnu mikilvægast og það er að kaupa rétta stærð af skóm. Veljið fyrst sokkana sem á að nota, og mátið svo. Sniðugt ráð er að setja hælinn upp að sléttum vegg, mæla frá enda hælsins og og setja litla putta fyrir framan stóru tána og mæla svo hversu margir sentimetrar þetta eru, og stærðin ætti að vera fundin. Fæturnir breyta um lögun þegar líður á daginn, þeir þrútna. Því er betra að máta gönguskó seinnipart dags en að morgni.
Hvers konar skó?
Nokkur atriði skal þó hafa í huga við val á gönguskóm. Ef á að fara í styttri ferðir eða nota skóna á göngustígum ætti fólk að velja sér létta gönguskó úr rússkinni eða leðri með góðri öndunarfilmu og slitsóla úr gúmmíi sem gefur góða spyrnu. Skór fyrir lengri gönguferðir ættu að vera úr góðu leðri með öklakrókum svo skórnir haldi vel að fætinum. Þeir þurfa að vera með öndunarfilmu og táhettu úr gúmmíi og góðum sóla sem grípur vel. Þegar fólk er að velja sér gönguskó, sama hvort þeir eru ætlaðir til
léttari ferða eða í erfiðari ferðir ætti fólk að skoða hvort leðrið í þeim er marg samansett eða ekki. Margsamsettir skór eiga það til að fara að leka fljótlega og saumarinir slitna. Sjálfsagt er að leita ráða hjá starfsfólki í útivistarbúðum því það lumar oft á góðum ráðum þegar kemur að skókaupum.
Hugsið vel um dýrgripina
Góðir gönguskór sem vel er hugsað um endast lengi. Þrífið skóna eftir notkun ef með þarf, því óhreinindi smjúga með tímanum inn í leðrið. Berið vatnsvörn á skóna, vax eða leðurfeiti. Hvernig skórnir eru vatnsvarðir fer eftir því hvort þeir eru úr leðri eða rússkinni. Þegar skórnir eru keyptir ætti fólk að fá góðar upplýsingar um hvernig eigi að verja þá.