Gott skipulag í svefnherberginu bætir svefninn

Svefnherbergi eru hvíldarstaðir. Þangað á að vera hægt að sækja ró og frið. Margir velja þess vegna hlýja liti á veggina, gluggatjöld í stíl og falleg rúmteppi. Litrík rúmföt lífga einnig upp á og púðar, plöntur og myndir. Það verður hins vegar að gæta þess að óreiðan verði ekki of mikil og best að halda svefnherberginu eins vel skipulögðu og hægt er.

Fallega skipulagt svefnherbergi

Hlutir hafa lag á að safnast upp. Oft er eins og að einn hlutur kalli á annan og þegar búið er að koma einhverju fyrir er öðru iðulega bætt við. Ljósmyndir af ástvinum, bækur, tímarit og skrautmunir fylla oft gluggakistur, hillur og náttborð fyrr en varir. Til að forðast að ofhlæði er ágætt að setja sér reglur, t.d. að aldrei megi vera fleiri en tvær bækur á náttborðinu, aldrei tölvur í svefnherbergi og ljósmyndir má hengja á einn vegg og búa þannig til stað fyrir minningar og njóta þess að hafa sína nánustu nærri þegar gengið er til náða.

Margir kjósa að skipta skrautmunum reglulega út. Einhverjir þrír til fjórir hlutir skreyta þá gluggakistur eða hillur en er pakkað í kassa eftir árstíðum og eitthvað annað sett upp í staðinn. Það getur líka verið skemmtilegt að færa til. Taka muni úr stofunni og setja inn í svefnherbergi og öfugt. Það er hins vegar alltaf gott að takmarka hve margir hlutir mega vera á hverjum stað. Til að fá frekari tilbreytingu er auðvelt að skipta út gluggatjöldum, rúmteppum og púðum. Eldra fólk ætti að varast að setja föt, mottur eða annað á gólfið í svefnherberginu. Gott er að hafa stól til að leggja fötin á eða koma fyrir snögum á bak við hurðina. Sumir hafa fataprest í svefnherberginu. Það getur beinlínis verið hættulegt að stíga á sokk á gólfinu og renna til þegar fara þarf á klósett á næturna eða ef lausar mottur renna undan fæti þegar gengið er um á daginn.

Fataskápurinn

Í mörgum svefnherbergjum eru fataskápar. Á mörgum heimilum eru þeir yfirfullir og þess vegna erfitt að hafa yfirsýn yfir fötin sem í þeim eru. Það er gott að fara reglulega yfir alla skápa og fara með í endurvinnslu það sem ekki passar eða þú notar sjaldan. Þá er best að taka út öll fötin og sortera í nokkrar hrúgur. Sú fyrsta ætti að vera allar þínar uppáhaldsflíkur, sú næsta það sem ekki passar og sú þriðja það sem sjaldan er notað en er þó nauðsynlegt að eiga. Þegar búið er að raða þessu svona upp er auðvelt að taka það sem út af stendur og skipta því upp í ónýtt, má henda og það sem ætti að fara í Rauða kross gáminn. Ef eitthvað af þessu fellur í flokkinn, get ekki gert upp við mig hvort ég á að eiga eða ekki, fáðu þá góðan vin í lið með þér og biddu hann að segja þér hreinskilnislega hvort þetta á heima í skápnum eður ei. Ef þú átt einhverjar hönnunarflíkur sem þér finnst þú ekki geta gefið frá þér, endilega reyndu að selja þær.

Fataskápa þarf að þrífa reglulega til að forðast skápalykt og leyfa þeim að standa tómum og opnum í einn dag. Þá er komið að raða inn og best að flokka fötin, t.d. buxur, toppar, peysur, skyrtur, pils, kjólar og svo framvegis. Sumir raða eftir litum eða hvað passar saman, síðan eru fötin brotin saman eða hengd upp eftir atvikum. Þetta hefur þann kost að eigandinn veit hvað er í hvaða skúffu og á slánni. Það er einnig augljóst þegar skápurinn er opnaður. Eftir að svona gott skipulag er komið á er fínt að fylgja reglunni, einn inn, annar út þ.e. ef keypt er flík verður að rýma fyrir henni með því að taka eitthvað annað úr skápnum og henda eða fara með í endurvinnslu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.