Harmurinn undir niðri

Lengi var litið á glæpasögur sem annars flokks bókmenntir. Allir urðu þó að viðurkenna að þær voru misjafnar að gæðum rétt eins og skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og hvað annað sem menn skrifa. Nú hefur til allrar lukku opnast skilningur á að þessi tegund bókmennta reynir ekki síður á hugmyndauðgi, sköpunarkraft og vinnugleði höfunda. Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur ber alls þessa vitni þótt undir niðri leynist harmrænn þráður. Einhver sorg yfir því sem aldrei varð.

Sólveig skrifar karakter- og fléttudrifnar sakamálasögur en það þýðir að hún heldur athygli lesenda með góðri persónusköpun og forvitni um hvaða drifkraftar eða hvatar reka fólkið í sögunni til það gera það sem það gerir. Hún skapar flókna fléttu, leiðir lesandann stundum í öngstræti sem hann verður að þræða sig aftur út úr rétt eins og löggurnar í sögunni og svo smellur allt saman. Allt þetta nýtur sín einstaklega vel í nýju bókinni, Miðillinn.

Fullorðin kona finnst látin í Hólavallakirkjugarði og í ljós kemur að hún var á leið heim af miðilsfundi þegar hún dó. Konan reynist einnig hálfgerður einstæðingur, á fatlaða dóttur og hefur ekki talað við systur sína árum saman. Hörmulegt slys varð til þess að fjölskylduböndin slitnuðu og aldrei greri um heilt. Guðgeir má hafa sig allan við því eins og venjulega hefur hann ríka samúð með fólkinu sem á í hlut og mikla þörf fyrir að skilja hvaða öfl liggja að baki verknaðarins. Þetta er frábær spennusaga, ein af þeim sem verður til þess að maður leggur allt annað til hliðar og les og les til síðustu blaðsíðu.

 

Ritstjórn nóvember 1, 2023 11:47