Hefur áhuga á að heyra í félagsmönnum

Ingibjörg lærði snemma að taka til hendinni

Ingibjörg H. Sverrisdóttir nýr formaður Félags eldri borgara í Reykjavík er frekar lágvaxin kona, ljós á brún og brá og kvik í hreyfingum, enda vön að hafa nóg að gera. Hún byrjaði 11 ára að vinna fyrir launum, en þá átti hún heima í Vestmannaeyjum.  „Ég kom heim og vildi fá að fara að vinna í fiski en pabbi sagði „Nei.Þú ert ekki nema 11 ára og átt að vera úti að leika þér“.  En það var enginn til að leika við vegna þess að öll börnin voru komin niður í fiskvinnsluhús að slíta humar. Ég vildi fara að vinna eins og allir krakkarnir og það hafðist“, segir Ingibjörg.  Hún vandist því svo að vinna í sveitinni, en hún var alltaf í sveit á sumrin á Mófellsstöðum í Skorradal. Þar voru mörg sumarbörn.  „Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að vera í sveit. Maður lærði svo margt. Við vorum látin vinna en jafnframt var vel passað uppá öryggi okkar“, segir hún. Þegar Ingibjörg va 14 ára hætti hún að vera í sveit og fór að vinna í fiski á sumrin. Henni þótti það stórt stökk framá við á starfsferlinum, þegar hún fékk sumarvinnu í bókabúð 17 ára gömul.

Húsið var eins og járnbrautarstöð

Ingibjörg er fædd í Reykjavík og segist alin upp af börnum. Foreldrar hennar Ingibjörg Albertsdóttir og Sverrir Einarsson tannlæknir voru kornung þegar hún fæddist, faðir hennar var enn í menntaskóla og móðir hennar rétt orðin 17 ára. Síðar eignaðist hún tvo bræður. Fyrstu árin bjó litla fjölskyldan í einu herbergi hjá föðurömmu Ingibjargar, Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Guðrún átti sjö börn og bjó í stóru húsi á Freyjugötu 37 ásamt þeim og alls kyns fólki sem hún var að aðstoða.  „Amma var mikið í félagsmálum og afi líka. Það var alltaf rosalega mikið um að vera í kringum þau. Í minningunni var húsið eins og járnbrautarstöð“ rifjar hún upp. Amma Ingibjargar var viðloðandi bæjarpólitíkina í Reykjavík í rúman áratug, sem bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi „ Hún var mikið í nefndarstörfum, meðal annars í barnaverndarnefnd. Hún varð einn helsti verndari stúlknanna sem voru sendar á Kleppjárnsreyki fyrir að vera í ástandinu. Hún vildi ekki að þeim væri refsað og þær sendar í fangelsi uppi í sveit“.

Ingibjörg flutti til Vestmannaeyja með foreldrum sínum

Fluttu til Vestmannaeyja

Þegar Ingibjörg var að verða 10 ára flutti fjölskyldan til Vestmannaeyja og þar fæddust bræður hennar, sá eldri þegar hún var 12 ára og sá yngri þegar hún var 16 ára.  Ingibjörg segist ekki líta á sig sem Vestmannaeying, vegna þess að hún eigi ekki ættir að rekja þangað. Hún segist hins vegar  tengjast Eyjum vegna þess að þar gekk hún í skóla og tengdist skólasystkinum sínum. Hún fór snemma frá Eyjum og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar í Reykjavík. „ Ég var haldin mikilli útþrá og löngun til að læra tungumál og fór til Þýskalands 18 ára. Þar dvaldi ég á tveimur stöðum, vann og var einnig í skóla“, segir hún.  Heim komin fór hún að vinna í Búnaðarbankanum. Síðan lá leiðin til Danmerkur, þar bjó hún í þrjú ár og vann á skrifstofunni hjá Loftleiðum. Þar með má segja að teningunum hafi verð kastað í hennar lífi, því hún átti eftir að vinna við ferðamál alla sína ævi.

Hún byrjað snemma vð starfa í ferðaþjónustunni

Þá hringdi síminn

Ingibjörg vann einna lengst á Keflavíkurflugvelli, fyrst hjá Loftleiðum og síðan Flugleiðum eftir sameininguna 1973. Hún var í ýmsu, flugumsjón, farþegaþjónustu og á söluskrifstofu. En eftir 12 ára starf þar ákvað hún að hætta. „Mér fannst þetta ofboðslega gaman og mjög erfitt að hætta, en mig langaði að fara í hjúkrun“, segir hún. Hugmynd hennar var að byrja að vinna sem gangastúlka á spítala þarna um haustið, en hefja hjúkrunarnámið um vorið. „Þegar ég var á leiðinni út úr dyrunum til að verða mér úti um slíka vinnu, þá hringdi síminn. Það var fulltrúi frá ferðaskrifstofu sem hringi og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í viðtal hjá þeim, það vantaði starfsmann eins og mig. Mér fannst allt í lagi að fara í viðtalið. Mér þótti  þetta mjög spennandi, þannig að ég sló til og frestaði  hjúkruninni“ segir Ingibjörg. Hún segist alveg geta viðurkennt að hún sjái eftir því að hafa ekki farið í hjúkrun, en hún hefur haft nóg að gera alla tíð og líkaði vel að vinna í vaktavinnu eins og var í Keflavík. „Mér þótti gott að vinna í skorpum og eiga góð frí á milli“, segir hún.

Ekkert mál að leggja gangstéttarhellur

Ingibjörg endaði sinn starfsferil hjá Flugfélaginu Air Atlanta. Síðan hefur hún verið í tveimur kvenfélögum. Kvenfélaginu Heimaey, sem er félag kvenna sem ýmist eru brottfluttar frá Vestmannaeyjum eða tengjast Eyjum, eru til að mynda giftar Vestmanneyingum. Hún er líka virk í starfi Kvenfélagsins Hringsins. Ingibjörg er ógift, sjálfstæð kona og vílar ekki fyrir sér að bora í vegg, negla eða leggja gangstéttarhellur.  Þegar hún var 59 ára var henni boðið á fyrirlestur um starfslok hjá Íslandsbanka. „Þá fór ég að skoða mín fjármál og gaf verulega í til að greiða niður öll lánin mín, með það að markmiði að vera skuldlaus þegar ég yrði 67 ára. Það gekk ótrúlega vel, ég sá lánin lækka þegar ég borgaði inná nafnverðið og ég hvet fólk til að gera allt sem það getur til að vera skuldlaust við starfslok“.

Með félögum í Gráa hernum. Frá vinstri á myndinni Wilhelm Wessman, Þorbjörn Guðmundsson, Finnur Birgisson, Stefanía Magnúsdóttir og Ingibjörg

Fór að sjá hvað kerfið er óréttlátt

Eins og margir aðrir fór hún að huga að réttindamálum eldra fólks, þegar hún hætti störfum á vinnumarkaði. „Lífeyrissjóðurinn minn er ekki burðugur, þó ég hafi greitt í hann frá 1970. Ef ég hefði ekki borgað upp lánin, hefði ég ekki jafn mikið á milli handanna og ég hef í dag. Svo fór ég að sjá hvernig þetta kemur út hjá fólki og hvað þetta er óréttlátt kerfi. Ég heyrði af Gráa hernum og þegar kallað var eftir sjálfboðaliðum ákvað ég að bjóða mig fram, þannig fór þetta smátt og smátt af stað. Ég var alveg tilbúin að höfða mál gegn skerðingunum í mínu nafni, fyrir hönd Gráa hersins. Kona sem vill búa við frelsi og vera sjálfstæð, hún er rígbundin og hefur ekki fjárhagslegt frelsi í þessu kerfi“ segir Ingibjörg og telur fráleitt að eldra fólk eigi að búa við allt annan veruleika í skattamálum en þeir sem eru yngri.

Fékk mikla hvatningu til að bjóða sig fram

En hvers vegna bauð Ingibjörg sig fram til formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni? „Ég fékk mikla hvatningu til að bjóða mig fram í formanninn. Það tók mig langan tíma að hugsa það mál. Ég skoðaði það vel fram og til baka. Svo ákvað ég að slá til, var tilbúin í slaginn og til að horfast í augu við niðurstöðuna, hver svo sem hún yrði. Ég var náttúrulega í verkalýðsbaráttu hér á árum áður, í VR. Var í samninganefnd fyrir deild vaktavinnufólks og síðan fyrir VR.  Það þurfti að berjast hressilega þá. Launataflan var þannig á áttunda áratugnum að karlarnir voru á miklu hærri launum en við konurnar. Við vorum mjög óhressar með það og neituðum að semja fyrr en við næðum því fram að karlar og konur í sömu störfum fengju sömu laun“.

Félagsheimili eldri borgara í Stangarhyl

Skoða hvort hægt er að mæta óskum félagsmanna

Þegar rætt var við Ingibjörgu var hún á sínum fyrsta virka degi sem formaður FEB. „Ég ætla að byrja á því að kynna mér alls kyns mál sem eru í gangi hjá félaginu, síðan hef ég hugsað mér að heyra í fólki. Hlusta á félagsmenn og reyna að koma til móts við þá. Þetta er þeirra félag og ég vil sjá hvernig og hvort það er hægt  að mæta óskum þeirra. En það er samt þannig, að það er ekki alltaf hægt að fá allar óskir uppfylltar.  Ingibjörg hyggst  koma á föstum viðtalstíma hja formanni. Þannig að fólk geti bókað viðtöl á skrifstofunni eða óskað eftir að formaðurinn hringi í það.

Af hverju ekki að byggja líka ódýrar íbúðir fyrir eldra fólk?

Ingibjörg gaf það út í kosningabaráttunni að henni væru húsnæðismál eldri borgara hugleikin, bæði íbúðamál og hjúkrunarheimili. Henni finnast þeir kostir sem standa eldra fólki til boða í húsnæðismálum  óheyrilega dýrir og nefnir sem dæmi að í tengslum við nýja hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi hafi verið byggðar leiguíbúðir og þar sé leigan fyrir litla íbúð, 230 þúsund krónur á mánuði, fyrir utan hita og rafmagn. „Það er allt of mikill íburður í íbúðum fyrir eldri borgara. Af hverju er hægt að byggja ódýrt fyrir námsmenn en ekki fyrir eldri borgara? spyr Ingibjörg.  Hún segist líka hafa áhuga á að skoða kjaramálin. „Þó við séum í málaferlum er ýmislegt annað í kjaramálunum sem þarf að huga að og þá í samstarfi við Landssambandið“.

Senda námskeiðin út í gegnum ZOOM

„Ég vil endilega efla félagsstarfið og reyna að virkja fólk“, segir Ingibjörg. „Ég saknaði þess núna að ekki væru fleiri konur í framboði. Konur þurfa að vera duglegri að bjóða sig fram. Það eru fleiri konur í félaginu en karlar. Þess vegna finnst mér að þær mættu sýna því meiri  áhuga að taka að sér verkefni í félaginu. Ég var að skoða hvernig ýmsum málum er háttað  í Danmörku. Þeir eru með ýmiss konar námskeið til að hvetja fólk til þáttöku í félagsstarfi. Kvenréttindafélag Íslands hefur líka verið með námskeið fyrir konur sem taka að sér nefndarstörf. Mér finnst upplagt að hafa námskeið í því hjá félaginu. Fyrir þá sem vilja koma að einhverju félagsstarfi.  Síðan finnst mér áhugavert að nota tæknina til að gera fleirum kleift að njóta námskeiða hjá félaginu.  Ef  það eru félagsmenn sem hafa ekki tök á að mæta upp í Stangarhyl á námskeið, hef ég áhuga á að skoða hvort ekki er hægt að senda námskeiðin í gegnum Zoom. Þannig getur fólk notið þessara námskeiða í gegnum spjaldtölvu eða tölvu og það gildir líka um þá sem búa í útlöndum hluta úr árinu.  Það er efst á listanum hjá mér að  þjóna fólki, og að fleiri fái að njóta þess sem félagið býður upp á“, segir Ingibjörg að lokum.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 19, 2020 07:39