Það vakti athygli þegar veitingastaðurinn Á næstu grösum var opnaður í Reykjavík árið 1978. Þetta var í fyrsta sinn sem grænmetisveitingastaður var opnaður hér á landi, ef frá er talinn staðurinn sem Náttúrulækningafélag Íslands hafði rekið.
Brautryðjandi í rekstri grænmetisstaða
Helga Mogensen sem nú selur heilsurétti sína Úr eldhúsi Helgu Mogensen í mörgum verslunum á höfuðborgarsvæðnu,var ein þeirra sem stóð að nýja grænmetisstaðnum. „Þetta var alger nýjung“ segir hún. „Ég var í þessu með Þórunni Sveinsdóttur og Tómasi Jónssyni, Heiðrúnu Kristjánsdóttur, Gunnhildi Emils og svo var Patricia B líka með okkur“. Helga segir að á þessum árum hafi orðið miklar breytingar á samfélaginu og vitundarvakning í sambandi við heilsu og hollustu. „Menn sáu að það var hægt að lifa á grænmetisfæði“, segir hún. „Þetta var alþjóðleg hreyfing og við vorum hluti af henni“.
Ungt fólk vill grænmetisrétti
Helga segist ekki vera alger grænmetisæta í dag, en um 75% af því sem hún borði sé grænmetifæði. Hún segir að fólk í dag leiti sér að góðum heilnæmum mat, „Nú snýst þetta meira um aukaefni í matnum , umhverfisáhrif og hvort matvælin séu erfðabreytt“. Hún segir að ungt fólk sæki í auknu mæli í grænmetisréttina sína og þeir seljist vel í verslunum sem séu nálægt menntaskólum. „Þetta eru góðar fréttir“, segir Helga og bætir við að viðskiptavinirnir séu á öllum aldri enda séu réttirnir í handhægum umbúðum og auðvelt að stinga þeim í tösku og hita upp heima, annað hvort á pönnu eða í örbylgjuofni.
Heilsuréttirnir í kælinum
Helga býður uppá sex heilsurétti. Einn lambakjötsrétt, þrjá grænmetisrétti, gríska gulrótarsúpu og grænmetis-lasagne. Fleiri réttir eru svo væntanlegir á markaðinn á næstunni . Réttirnir kosta á bilinu 900-1500 krónur. Helga segir að salan hafi vaxið jafnt og þétt í hverjum mánuði. Hún segist hafa haft meðbyr frá upphafi og fengið flottar móttökur frá verslunareigendum. „Þeir eru alveg meðvitaðir um hvað viðskiptavinir þeirra vilja“, segir hún.
Vill byggja upp
Þær verslanir sem selja heilsuréttina Úr eldhúsi Helgu Mogensen eru Melabúðin, Fjarðakaup, Hagkaup, Víðir, Krónan, Frú Lauga og Kostur er nýkominn inn. Helga hefur í gegnum tíðina tekið að sér að byggja upp fyrirtæki fyrir aðra. Hún vann bæði að uppbyggingu Lifandi markaðar og Krúsku á Suðurlandsbraut. „Það er svo gaman af að takast á við kerfjandi verkefni og það að byggja upp sitt eigið fyrirtæki er stærsta áskorunin“, segir Helga . „Ég er ánægð með útkomuna á réttunum, viðskiptavinirnir eru ánægðir og ég horfi björtum augum til framtíðar. Þessi þrenna fer vel saman!“