„Það eru margir sem hafa komið að máli við Gráa herinn og hvatt til sérstaks framboðs eldri borgara til næstu alþingiskosninga. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég er ekkert ofboðslega spenntur,“ segir Helgi Pétursson, blaðamaður og einn talsmanna Gráa hersins. Helgi var gestur þáttarins Segðu mér sem var á dagskrá Rásar eitt á mánudag og þar voru þessi mál reifuð.
Fólk er orðið langþreytt á sviknum loforðum
Helgi segir í samtali við Lifðu núna að margt fólk sem komið sé á lífeyrisaldur sé orðið langþreytt á að bíða eftir að stjórnmálamenn efni loforð um að bæta kjör eldra fólks. Það hafi ekki gerst og því vantreysti fólk orðum stjórnmálamanna. Sífellt fleira eldra fólk komi að máli við talsmenn Gráa hersins og segi að þeir eigi ekki að vera svona bláeygðir. Sitjandi ríkisstjórn hafi lofað að bæta kjör eldra fólks. Þeir hafi hins vegar alveg gleymt því, það sé ekki einu búið að bæta þessum hópi skerðinguna sem allir tóku á sig árið 2009. Það sé búið að leiðrétta kjör vinnandi fólks en þeirra hópur hafi setið eftir.
Alla ævi greitt skatta
„Hægt og bítandi fer maður að upplifa þetta sem þjófnað. Ég hélt að ég hefði gert samkomulag við stjórnvöld þegar ég hóf að greiða í lífeyrissjóð um að mér yrði tryggð lágmarksframfærsla af hálfu ríkisins og það sem ég greiddi í lífeyrissjóð kæmi því til viðbótar,“ segir Helgi og bætir við að í hans samkomulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir að það yrði skert króna á móti krónu. „Ég er ekki að heimta eitthvað sem ég á ekki. Ég hef alla ævi greitt skatta til ríkisins auk þess að greiða í lífeyrissjóð. Þetta eru því mínir peningar.“ Margir upplifi þetta á sama hátt og hann og það sé vegna þessarar óánægju sem fólk ræði um að stofna sérstakan stjórnmálaflokk eldri borgara. Á fésbókarsíðu Gráa hersins eru nú þegar komnar fram margar áskoranir um sérstakt framboð. „Þetta er hins vegar ekki alveg eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Fólk á öllum aldri hefur mismundi stjórnmálaskoðanir og mismunandi sýn á lífið,“ segir Helgi. Hann bætir við að það þurfi að breyta hugarfari fólks varðandi eldra fólk.
Brengluð mynd
„Sú mynd sem birtist af gömlu fólki í fjölmiðlum er einsleit. Í sjónvarpi eru alltaf sýndar myndir af farlama fólki í göngugrindum inn á hjúkrunarheimilum. Ég er orðinn 67 ára og í góðu formi og þessar myndir sýna því alls ekki rétta mynd af fólki á mínum aldri. Þetta er kynslóðin á undan minni kynslóð, kynslóð foreldra minna. Mér finnst að fólk á öllum aldri eigi að taka höndum saman og breyta þessari mynd,“ segir Helgi og bætir við að það þurfi líka að breyta orðræðunni um eldra fólk. Hún sé afar einkennileg. Orðið ellilífeyrisþegi sé til dæmis orðskrípi sem komi úr gömlu sveitamáli í merkingunni niðursetningur eða eitthvað slíkt. „Ég er ekki ellilífeyrisþegi ég er eftirlaunamaður,“ segir hann að lokum.