Hinsta kveðja hundsins Álfs

Brimurð er vel unnin og áhugaverð ljóðabók í fjórum þáttum og í lokin eru minningarorð um hundinn Álf. Draumey Aradóttir er eigandi Álfs og hér leggur hún honum orð í munn og lýsir síðustu ævidögum hans. Hér er vináttan í forgrunni, einlæg sönn, traust og einstaklega falleg í hreinleika sínum.

Sagt er að hundar séu bestu vinir mannsins og hundaeigendur vita að það er ekki orðum aukið. Álfur er oðrinn gamall og hann finnur að stundin nálgast. Þrátt fyrir það gerir hann allt hvað að hann getur til að geðjast eiganda sínum, til að sýna henni sömu viðbrögð og tryggð og hann hefur alltaf svarað með.

Draumey er gott skáld. Hún hefur einstakt vald á íslensku máli og kann að prjóna saman orð í glæsileg og áhrifamikil mynstur. Hún er einnig alltaf að ígrunda samband mannsins við umhverfi sitt og hvernig bæði það sem við skynjun meðvitað og hitt sem safnast í undirmeðvitundina hefur áhrif á líf okkar.

Það er frumlegt og skemmtilegt sjónarhorn að leyfa rödd hundsins að heyrast og ég er ekki frá því að ljóðin verði áhrifameiri fyrir vikið. Það er ekki mjög algengt í ljóðabókum að dýr fái mál, í skáldsögum aftur á móti er lesandinn vanur því að alls konar dýr tali og segi söguna. Flott bók hjá Draumey Aradóttur en hún hefur áður gefið út sex ljóðabækur sem allar byggja á hennar reynslu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún velur sér óvenjulegt sjónarhorn því ljóðmælandinn í bókinni Einurð var fóstur í móðurkviði.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 15, 2025 07:00