Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara segir að margt eldra fólk hafi orðið fyrir miklum áföllum í hruninu. „En elsta fólkið kvartar minnst“, segir hún. „Þetta er fólkið sem flutti utan af landi til Reykjavíkur og átti varla neitt. Það kann að bregðast við kreppu og lagar sig að aðstæðum, en þeir sem mest heyrist í er frekar yngra fólkið sem upplifði hrunið 2008 á eigin skinni.
Töpuðu varasjóðnum
„En það er fullt af fólki sem tapaði miklum fjármunum“, segir Þórunn. „Fólk sem hafði keypt hlutabréf í bönkunum eða lagt peninga í peningamarkaðssjóði til að nota á efri árum. Við heyrum í fólki sem hafði lagt til hliðar oft samkvæmt ráðleggingum bankanna 2-3 milljónir króna sem áttu að verða varasjóður á efri árum en tapaði miklu og jafnvel öllu eftir því í hverju var fjárfest“. Þórunn segir að þetta hafi verið mikið högg fyrir marga.
Engin úrlausn vegna lánsveða
Hún segir að margir þurfi að hugsa um hverja krónu og vitnar í konu sem sagðist hafa verið svo vitlaus að kaupa hlutabréf í einum banka fyrir spariféð – og þar með hvarf varasjóðurinn sem hún ætlaði að nota þegar hún yrði gömul. Það hafi verið klifað á því að eldri borgarar væru skuldlausir, en það hafi komið illa við marga að börnin þeirra lentu í vandræðum. Foreldrarnir voru kannski í ábyrgð fyrir lánum sem fóru í vanskil. Menn hafi líka verið með lánsveð fyrir börnin sín og/eða í ábyrgð fyrir námslánum. „Þegar börnin lenda uppá skeri kemur það illa við margt eldra fólk“, segir Þórunn. „Ekkert hefur gengið varðandi loforðin um úrlausn vegna lánsveða sem snertir nokkur þúsund manns“
Fengu ekki að nota séreignasparnaðinn
„Eldra fólk er ósátt við að enginn skuli hafa horft til þeirra í hruninu og margir eru líka ósáttir við að hafa ekki fengið að vera meira með í nýrri leið til skuldalækkana með séreignarsparnaði“, segir hún. Við þetta allt saman bættist, að sú upphæð sem eldri borgarar mega vinna sér inn án skerðinga var lækkuð í hruninu og að hluti lífeyrissjóðanna varð að skerða lífeyri félaga sinna vegna hrunsins. Skerðingar frá 2009 eru enn óbættar þrátt fyrir loforð núverandi stjórnarflokka í aðdraganda síðustu kosninga.