Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar:
„Hún Aska ykkar er greinilega mikill mannþekkjari,“ sagði ég og horfði hreykinn til fjölskyldunnar. Hrönn dóttir okkar og fjölskylda hafa nýlega fengið kolsvartan Labrador hvolp sem er eftirlæti fjölskyldunnar. Við hjónin vorum í heimsókn. Í fyrri heimsóknum hafði Aska ekki sýnt mér neinn sérstakan áhuga en í þessu tilfelli var ég eftirlætið á heimilinu. Aska hreinlega þvoði hendur mínar með tungu sinni og vék ekki frá mér. Svo fóru að renna á mig tvær grímur. Ég er mikill harðfiskmaður og óbarinn fiskur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hans neyti ég sem sælgætis, velti litlum bita upp í mér í hvert sinn. Ég hafði fengið mér harðfisksbita skömmu áður en við fórum í heimsóknina. Ég gætti þess þegar ég kom í næstu heimsókn að neyta ekki harðfisks og þvoði mér vel um hendurnar. Áhugi Ösku á mér í þeirri heimsókn var enginn.
Börnin okkar hjóna báðu oft um að fá gæludýr, hund eða kött en við leyfðum það ekki. Elín kona mín var 11 sumur í sveit hjá ættfólki sínu í Álftaveri, Vigdísi og Hirti. Skoðun Elínar var sú að dýr ættu að ganga frjáls. Við leyfðum þó naggrísi sem reyndust hafa meira vit en við áttum von á. Þegar ísskápshurðin eða hurðin út í garðinn var opnuð á sumrum heyrðust alltaf hljóð úr búrinu því þá var von á grasi úr garðinum eða grænmeti úr ísskápnum. Sif dóttir okkar fékk nokkur sumur að vera í sveit hjá móðurfólki sínu Boggu og Palla að Hvassaleiti undir Eyjafjöllum þar sem hún fékk að kynnast hestamennsku sem hún naut vel. Draumur Sifjar var að við fengjum okkur hesta og helst átti að hafa þá á beit úti í garðinum okkar.
Ýmsar leiðir eru til að vinna hjarta hunda. Óskar Þór sonur okkur og fjölskylda eru með Smooth Collie hund sem heitir Píla. Þegar ein góðhjörtuð frænka kemur í heimsókn er frænkan eina persónan sem Píla hefur áhuga á og víkur ekki frá henni. Leyndardómur vinsældarinnar eru hendur sem laumast undir borð með einhverju góðgæti sem á borð er borið.
Eitt sinn hlustaði ég á fyrirlestur íþróttakennara sem sagði frá því hve sonur hans tæki alvarlega uppeldishlutverk ný-fengins hvolps. Sonurinn læsi bækur og sækti aganámskeið með hvolpinn sinn á hverjum sunnudagsmorgni. Faðirinn sagðist ekki hafa orðið var við að sonurinn læsi bækur eða sækti námskeið um uppeldi barna sinna.
Sjálfur fékk ég í uppvexti mínum aldrei að eiga kött sem mig langaði mjög til. Aðalbjörg móðir mín var fædd og alin upp á sveitabæ, Kirkjubóli í Dýrafirði vestur á fjörðum, og var á sama máli og Elín kona mín að dýr ættu að ganga frjáls. Slíkt ætti ekki við í bæjarfélagi eins og Akranesi, þar sem ég er fæddur og uppalinn. Nokkrum sinnum fékk ég lánaðan kött Bjarna Vésteinssonar kattareiganda frænda míns og leikfélaga og þóttu mér það góðar stundir. Dekraði ég við kisu.
Í fyrrum hlaupaferðum og núverandi gönguferðum um Fossvogs- og Elliðaárdal hef ég komist að því að auðveld leið til þess að koma af stað samræðum við vegfarendur er að ávarpa þá sem eru með hunda og lýsa yfir hrifningu yfir útliti hundsins. Margar skemmtilegar samræður hef ég átt við hundaeigendur um hundahald og einstakar sögur af viðkomandi hundi. Á undanförnum Covid tímum hefur fólki með hunda fjölgað til muna á þessum gönguleiðum. Sögurnar sem ég hef fengið af hundum hafa flestar verið skemmtilegar en nokkrar sorglegar. Eitt atvik er mér sérstaklega minnisstætt.
Ég kom eitt sinn hlaupandi eftir göngustígnum í hólmanum í Elliðaárdal. Á móti mér kom maður með tvo hunda í bandi. Annar hundurinn var stór en hinn smávaxinn. Ég tók eftir því þegar ég nálgaðist þá að stærri hundurinn var aðeins með þrjá fætur og smávaxni hundurinn gekk út á hlið. Ég stoppaði og ávarpaði manninn og spurði hvernig á því stæði að stærri hundurinn væri þrífættur. „Hann fékk krabbamein og fóturinn var fjarlægður,“ svaraði maðurinn Mér hafði ekki dottið í hug að hundar gætu fengið krabbamein. Ég spurði af hverju litli hundurinn gengi út á hlið. „Það var hjólað yfir hann og annað augað þeyttist út úr augnatóttinni. Síðan gengur hann út á hlið,“ svaraði maðurinn. Ég spurði hvort dýralækniskostnaður hefði ekki verið hár. Hann sagði kostnaðinn hafa verðinn mikinn og nefndi tölu á aðra milljón. Þetta var fyrir nokkrum árum. Ég lýsti því yfir með mörgum fögrum orðum að maðurinn væri einstakur mannkostamaður að leggja í slíkan kostnað fyrir hundana sína. Ég taldi að flestir í hans sporum hefðu fengið sér nýja hunda. „Nei, þetta eru vinir mínir,“ sagði maðurinn með þunga í röddinni. „Ég er tilbúinn að kosta aleigu mína til að þessir vinir mínir haldi lífi.“ Svo horfðumst við í augu um stund og tár tóku að leka niður vanga mannsins og hann sagði með titrandi röddu: „Þetta er ást.“
Hundahald er mikils virði en einnig mikil vinna fyrir fjölskylduna. Ég geri mér grein fyrir að gæludýrahald og ekki síst hundahald á sér mikilvægan sess í heimilum, ekki síst fyrir börnin. Áhugi minn á hundahaldi hefur mest beinst að því að finna leiðir að hjarta hundanna í fjölskyldunni. Sagt hefur verið að leiðin að hjarta mannsins liggi gegnum magann. Mikilvæg leið ókunnugra að hjarta hunda liggur greinilega gegnum harðfisk eða laumuspil undir borðum.