Stætó tók á síðasta ári upp árskort fyrir þá sem eru sjötugir og eldri og kostar það einungis 20.700 krónur á ári, eða 1.725 krónur á mánuði. Sótt er um kortið á heimasíðu Strætó. Þetta er persónubundið kort og menn þurfa að hafa mynd tilbúna í tölvunni þegar sótt er um.
Jóhannes Rúnarsson forstjóri Strætó segir ástæðu þess að árskortið var tekið upp vera tvennskonar. Annars vegar vilji fyrirtækið veita eldra fólki afsláttarkort á góðum kjörum og hins vegar sé stefnt að því að færa greiðslur fyrir fargjöldin hjá strætó meira inná mánaðar- eða árskort. Þannig verði í náinni framtíð auðvelt að taka upp rafræna greiðslumáta þannig að farþegar geti gengið inn í vagninn og afgreitt sig sjálfir með því að bera kortin upp að skanna.
Hópur fólks sjötugra og eldri er ekki stór í kúnnahópi strætó, en fer stækkandi. Það hefur verið ódýrt fyrir eldra fólk að taka strætó, en með árskortunum verður það enn ódýrara. Þá er hreyfingin að ganga í og úr strætó heilsubætandi fyrir flesta.