Íslandsferðin þriðja utanlandsferðin í ár

Það er krökkt af ferðamönnum í miðbæ Reykjavíkur þessa dagana og veðrið leikur bæði við þá og alla landsmenn. Blaðamaður Lifðu núna hitti þýsk hjón frá Bremen, þau Althee og Rolf Meinken í bænum. Þau voru að bíða eftir rútu og voru á leið í skoðunarferð um borgina.  Þau komu hingað fyrir tveimur dögum, en voru samt búin að fara til Vestmannaeyja og að skoða Gullfoss og Geysi. Á morgun fara þau svo heim. Þetta er í fyrsta sinn sem þau koma til Íslands, en börnin þeirra voru búin að koma hér og þau voru forvitin að heimsækja landið.

Hélt að skógræktin gengi betur

Þau eru komin á eftirlaun og sögðust ferðast mikið. Í vor fóru þau til Mallorca og til Portúgals. Íslandsferðin er þriðja ferðin þeirra á þessu ári. „Nú höfum við nægan tíma“, segja þau. Það kom Althee svolítið á óvart hvað veðrið var gott hér, hún hafði búist við því verra.  Rolf var hins vegar undrandi á, hvað Íslendingum gengur illa að klæða landið skógi.  Hann hafði lesið um það að landið hefði verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru fyrir nokkrum öldum og hafði búist við að skógrækt væri hér meiri.

Tiffany frá Kaliforníu á leið í 16 daga ferð um norðurslóðir

Tiffany frá Kaliforníu finnst norðurslóðir heillandi

Hefur áhuga á Norðurslóðum

Tiffany Rittenhouse frá Eureka í Kaliforníu, var hins vegar rétt lent, þegar blaðamaður Lifðu núna rakst á  hana í miðbænum. Hún var á leið í ferð um Norðurslóðir, en til stendur að fara í göngur, skoða fugla, róa á kajak og fara alla leið til Jan Mayen með skipi.  Fyrst mun hópurinn hins vegar ferðast um Ísland. Þetta er sextán daga ferð. Hún segist hafa áhuga á að skoða Ísland og norðurskautið, en var að leita að sundlaug þegar blaðamaður spjallaði við hana.

Forsetakosningar eins og heima

Hún var forvitin að vita hvað væri að gerast á Íslandi.  Þegar henni var sagt að hér væru forsetakosningar helsta fréttaefnið, sagði hún „Bara eins og hjá okkur“. Tiffany fer í eina utanlandsferð á ári og vildi óska að hún gæti farið í fleiri.

 

Ritstjórn júní 14, 2016 12:07