Afsláttarbók Landssambands eldri borgara er komin út og hefur að geyma lista yfir aragrúa fyrirtækja sem veita eldri borgurum í félögum eldri borgara um land allt afslátt af margvíslegri vöru og þjónustu. Flest veita þessi fyrirtæki á bilinu 5-15% afslátt, en nokkur fyrirtæki skera sig úr með 30% afslátt og þar yfir. Þetta eru:
Gleraugnaverslunin Glæsibæ, sem er með 35% afslátt fyrir eldri borgara. Þessi verslun hefur trónt á toppnum lengi, hvað afslátt til eldri borgara varðar. Lifðu núna ræddi eitt sinn við Markus Stephan Klinger, Austurríkismanninn sem stofnaði búðina um tildrög þess að hann fór að veita eldra fólki svona mikinn afslátt á gleraugum.Hann svaraði: „Ég vildi fá sem flesta eldri borgara til mín, enda finnst mér þeir mjög skemmtilegir viðskiptavinir og reiknaði út hver væri mesti afsláttur sem ég gæti mögulega veitt“, segir Markus. Hann ræddi við gleraugnaframleiðendur sem hann skipti við og fékk þá í lið með sér og segist strax hafa ákveðið að veita þeim sem eru í Félagi eldri borgara 35% afslátt.
Slippfélagið, sem selur málningu veitir eldri borgurum 34% afslátt og Valhöll fasteignasala er einnig með 34% afslátt fyrir þennan hóp. Jarðböðin í Mývatnsssveit veita líka 34% afslátt.
Lögmannsstofan Málsvari sem sérhæfir sig í erfðamálum veitir 30% afslátt og Hótel Stundafriður í Stykkishólmi er líka með 30% eldri borgara afslátt.
Mörg sveitarfélög veita eldra fólki ókeypis aðgang að sundlaugum og jafnvel annarri íþróttaaðstöðu. Reykjavíkurborg er einnig með frítt menningarkort fyrir eldri borgara þeir fá einnig frítt inn í Fjölskyldu og húsdýragarðinum.
Hér er einungis fátt eitt upptalið. Eldri borgarar innan vébanda Landssambands eldri borgara, LEB, eru nú um 30.000. Þeir eru í félögum eldri borgara hver á sínu svæði, en félögin eru 55. Þeir bera skírteini frá félaginu sínu og framvísa því þegar beðið er um afslátt.Það getur hæglega borgað sig að ganga í félög eldri borgara, þó ekki væri nema til að fá þennan afslátt í sumarfríinu, þegar ferðast er um landið!
Helgi Pétursson formaður LEB bendir á það í ávarpi í uphafi afsláttarbókarinnar að bókin geti tekið sífelldum breytingum sem smáforrit í símanum þínum og með því sé hægt að finna tilboð í nágrenninu hvar sem menn eru á landinu. „Sífellt fleiri eru að tileinka sér smáforritið“, segir hann „Enda eftir miklu að slægjast og reyndar ótrúlegt hversu lifandi tæki það er með fjölbreyttar nýjungar. Bókin gamla er líka traustur ferðafélagi og hentug og á auðvitað heima í hanskahólfinu í bílnum eða á öðrum góðum stað á ferðalaginu. Það er rétt að hvetja alla sem hyggja á ferðalög innanlands á næstu mánuðum að kynna sér vel tilboð og upplýsingar um margvíslega þjónustu í þeim landshlutum þangað sem ferðinni er heitið, því úrvalið er afar fjölbreytt“.
Hér má finna link á afsláttarbókina.