Tengdar greinar

Aftur til fortíðar

– kynning á kjarnasamfélagi í Iðnó fimmtudaginn 10. okt. kl. 19.30

Nú er mörgum orðin ljós sú staðreynd að nútíma samfélög hafa einhvers staðar farið út af sporinu þegar kemur að mörgu því sem okkur þykir skipta máli í mannlegu samfélagi. Rof hefur orðið milli fólks og ekki síst kynslóða. Margir búa einir með tilheyrandi einangrun og einmannaleika. Þá er hugsað með hlýju aftur til fortíðar þegar amma og afi voru hluti af tilverunni og kynslóðirnar hjálpuðust að í samanburði við hraða nútímans – og ekki var óeðlilegt að banka uppá og fá lánað lyftiduft ef vantaði, hjá góðum granna. En getum við snúið hjólinu við og horfið aftur til þess tíma  þegar aðstæðurnar buðu upp á nándina sem margir sakna? Já! Ef boðið væri upp á húsnæðiskosti með skipulag og arkitektúr sem hefði gott samfélag að höfuðmarkmiði, og með þátttöku íbúanna í öllu ferlinu – fyrir stórfjölskyldur, fyrir vinahópa og fyrir fjölbreyttari hópa fólks.. Þannig húsnæði hefur deilihagkerfi og sjálfbærni að leiðarljósi en allir hafa líka sína eigin íbúð.Slík kjarnasamfélög hafa rutt sér til rúms í Bandaríkjunum en líka víða í Evrópu. þar sem Danmörk hefur gengið einna lengst af Skandinavíuþjóðunum.

Kynning verður haldin í Iðnó kl. 19:30 á fimmtudagskvöldið þar sem talar fólk með reynslu af samfélagsmiðuðu húsnæði frá öðrum löndum. Markmiðið er að auka staðbundna þekkingu um kjarnasamfélög og annað samfélagsmiðað húsnæði, og sýna fram á möguleika búsetuformsins hérlendis. Í Iðnó geta áhugasamir  skrifað sig á lista hugnist þeim þátttaka í kjarnasamfélögum sem byggð verða hér.

Að kynnningunni stendur hópur áhugafólks sem kallar sig Kjarnasamfélag Reykjavíkur og hefur, undir verkefnastjórn Simon Joscha Flender hlotið styrki m.a. frá Borgarsjóði Reykjavíkur og Hönnunarsjóði til að auka þekkingu um sameiginleg búsetuform. Simon gerði meirstararitgerð um efnið, og hefur síðustu mánuði haft samstarf við Örnu Mathiesen, en hún hefur reynslu af samfélagsmiðuðu íbúðarhúsnæði bæði hér og í Noregi og hefur viðrað hugmyndir um kjarasamfélög fyrir Grindvíkinga við góðar undirtektir, . Beðið er í eftirvæntingu eftir svari við formlegu erindi um lóðaúthlutanir til kjarnasamfélaga, því vilyrði fyrir lóðum er forsenda þess að vinna geti hafist við nýjan og þarfan húsnæðiskost sem eykur valkosti á markaði og er bæði óhagnaðardrifinn og samfélagsmiðaður.

Vonandi mæta sem flestir í Iðnó til að styðja þetta góða mál fyrir unga og aldna!

Ritstjórn október 9, 2024 21:49