Birgir Jakobsson landlæknir var í sveit í Aðaldalnum í 10 sumur þegar hann var strákur og líkaði það vel. Hann ólst upp með foreldrum sínum og tveimur systrum í Heimunum í Reykjavík og útskrifaðist úr MR árið 1968, varð doktor í barnalækningum og bjó í Svíþjóð í 36 ár. Þar kynntist hann rekstri sjúkrahúsa af eigin raun, en hann rak lítið einkasjúkrahús um tíma og var forstjóri Karolinska sjúkrahússins síðustu 7 ár starfsævinnar. Hann var kominn á eftirlaun í Svíþjóð þegar hann var skipaður landlæknir hér heima.
Að bæta heilbrigðisþjónustuna helsta áhugamálið
Birgir vann lengst af í Stokkhólmi. „Eftirlaunaaldurinn í Svíþjóð er 65 ára, en ég var á 67 aldursári þegar ég hætti þar. Það var kominn tími til að hætta og ég ætlaði að fara að sinna öðrum áhugamálum. Þá fékk ég þá bráðsnjöllu hugmynd að sækja um þessa stöðu. Þetta var í september 2014 og ég nýhættur að vinna. Mér fannst gaman að prófa að sækja um og sjá hvort ég gæti nýtt þekkinguna af sjúkrahúsrekstrinum og úr heilbrigðiskerfinu í þessu starfi. Það hefur lengi verið mitt helsta áhugamál að bæta heilbrigðisþjónustuna og skoða hvernig hægt er með stöðugum umbótum að bæta öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.
Hugsaði sig ekki um tvisvar
Það er ekki algengt að fólk sem er að nálgast sjögugt taki við embættum eins og landlæknisembættinu, en Birgir segir að umsókn sinni hafi verið vel tekið og menn hafi haft áhuga á að heyra hvað hann hefði fram að færa. „Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar mér var boðið starfið. Ég fékk tækifæri til að nota þekkingu mína og reynslu, kynna mér íslenskt heilbrigðiskerfi og skoða hvernig hægt er að bæta það.
Stundum skammtímahagsmunir sem ráða ferð
Hlutverk landlæknis er margþætt. Hann hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart stjórnvöldum og á að hafa eftirlit með heilbrigðiskerfinu. Lýðheilsa heyrir einnig undir landlækni. Birgir segist velta fyrir sér hvernig hægt sé að hafa áhrif á stjórnvöld þannig að þau taki með sínum ákvörðunum mið af heilsufarinu í landinu, en ekki öfugt eins og stundum vilji brenna við. „Menn eru meðvitaðir um að umhverfi og næring hafa áhrif á heilsu fólks í landinu og sá skilningur fer vaxandi. En stundum ráða skammtímahagsmunir ferðinni. Það er hvorki verra né betra á Íslandi en annars staðar. Mér finnst stundum að ákveðnir þrýstihópar séu meira áberandi hér en annars staðar, en það stafar ef til vill af því að við erum svo lítið þjóðfélag“.
Skaðlegt lýðheilsu að selja áfengi í matvörubúðum
Birgi líst ekki á sölu áfengis í matvörubúðum. „Þetta er ákveðin hugmyndafræði um að ríkið eigi ekki að standa í atvinnurekstri sem er í samkeppni við einkaaðila og sú skoðun á fullan rétt á sér. En öll hugmyndafræði hefur sínar takmarkanir og stundum þarf að gera málamiðlanir þegar miklivægari hagsmunir eru í húfi. En það er hrikalegt að sjá Alþingi eyða miklum tíma í að ræða þetta mál. Maður á ekki eitt einasta orð. Ef Alþingi tekur um þetta ákvörðun, þá verður henni ekki snúið tilbaka og allir vita hvað þetta er skaðlegt“, segir hann.
Slæmt ef meginþorri spítalalækna er í starfi annars staðar
Birgir er heldur ekki hrifinn af því að sérfræðingar á LSH séu þar í hálfu starfi, en vinni á einkastofum sínum á móti. „Margir halda að ég sé að setja eitthvað útá einkarekna heilbrigðisþjónustu en ég er ekki að því. Ég er þeirrar skoðunar að meginstoðirnar í heilbrigðiskerfinu eigi að vera á vegum hins opinbera, en hef ekkert á móti því að í heilbrigðiskerfinu sé hvoru tveggja, opinber rekstur og einkarekstur. Ég var sjálfur í sjúkrahúsrekstri í 12 ár og ég á erfitt með að skilja hvernig hægt er að skipuleggja starfið ef meginþorri burðarstéttar á spítalanum er í stofurekstri annars staðar. Starfið á spítalanum er þá skipulagt út frá stofurekstri starfsmanna. Forstjórinn hefur sjálfur sagt að þetta sé vandamál“.
Fólk í hlutastarfi á forsendum sjúkrahússins
Birgir segist fyrst og fremst horfa á þetta mál útfrá sjónarhóli sjúklinga. Þetta varði öryggi þeirra og gæði þjónustunnar. „Ef það er ekki rétt þekking til reiðu á spítalanum þegar á þarf að halda, býður það ákveðinni hættu heim. Það þarf að taka þetta upp í umræðunni. Það er full ástæða til að huga að því hvernig vinnutíma starfsfólks LSH er háttað, en sjúkrahúsið er ein mikilvægasta stofnun landsins. Það getur verið kostur að hafa ákveðið fólk í hutastarfi, en það þarf að vera á forsendum sjúkrahússins . Það eiga að vera reglur um aukastörf starfsmanna. Þannig er það í öðrum löndum sem ég þekki til. Ég er viss um að þær eru líka til hér, en þeim er bara ekki framfylgt. Þetta er mikilvægur liður í að háskólasjúkrahúsið geti sinnt sínu hlutverki“.
Heilsugæslan berst víða í bökkum
Bigir hefur á sínu fyrsta starfsári farið um allt land og talað við forstöðumenn heilbrigðisstofnana. „Það er greinilegt að heilsugæslan berst víða í bökkum“, segir hann. „Það er erfitt að fá fólk til starfa og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er heldur ekki nógu skilvirk. Það er talað um skort á heimilislæknum en hugsanlega er þetta líka spurning um vinnubrögð og hvernig menn nýta mannaflann“. Hann segir áberandi hversu bágborin sérfræðiþjónustan á landsbyggðinni sé. Hún sé rekin meira á forsendum sérfræðinganna, en sjúklinganna í heimabyggð. „Það er ekki ljóst hver er ábyrgur fyrir því að fólk úti á landi fái sérfræðiþjónustu. Heilbrigðisstofnanir þurfa að greina þörf fyrir þjónustu sérfræðinga og gera samninga við þá og sérfræðingar á LSH ættu að hafa þarna líka skyldum að gegna“.
Langlífi fagnaðarefni
„Það er ekkert sem ergir mig jafn mikið og barlómurinn um að fólkið í landinu sé orðið svo gamalt, að það sé að verða íþyngjandi fyrir samfélagið. Langlífi ætti að vera fagnaðarefni en ekki vandamál“, segir Birgir og bendir á að það sé margt sem valdi því að fólk lifir lengur. Það séu betri lífskjör, meiri menntun, færri slys og svo framvegis. Menn þurfi fyrst og fremst á heilbrigðiskerfinu að halda síðustu tvö æviárin og með betri heilsu og lengra lífi, hafi þetta veikindatímabil í ævi hverrar manneskju færst aftur um 10 ár. Það sé mikill sparnaður fyrir samfélagið. „Það eru líka margir sem búa yfir þekkingu og starfsgetu langt fram yfir sjötugt. En það er þjóðfélagslegt vandamál ef þessu fólki er hafnað á vinnumarkaði og það sent heim til að sitja þar iðjulaust. Þetta fólk hefur lagt sitt af mörkum til uppbyggingar samfélagsins og getur haldið áfram að gera það“, segir hann. „Líttu bara á Bandaríkin og þá sem eru að bjóða sig fram til forseta þar“.
Gósenland fyrir börn í Vogunum
Birgir er fæddur og uppalinn í Reykjavík sonur hjónanna Jakobs Tryggvasonar sem var skrifstofustjóri hjá Pósti og síma og Ragnheiðar Jónsdóttur. Hún rak Sólheimabúðina um tíma, en sneri sér svo að störfum í heilbrigðisgeiranum og vann við heilaritið á Landsspítalanum og Kleppi. Birgir á tvær systur, Hallfríði og Valgerði. Fjölskyldan bjó fyrst í Vogunum og seinna í Heimunum sem Birgir segir að hafa verið gósenland fyrir börn. „Það var mikið af krökkum þarna og mikill félagsskapur. Við vorum í fótbolta á götunum í hverfinu og seinna á túblettunum þarna í kring. Það var óralangt að fara inní Steinahlíð, en þar var barnaheimili. Þangað átti ég að fara þriggja ára gamall, en grenjaði ógurlega í 2-3 daga og var sendur aftur heim“.
Var í sveit öll sumur
Birgir var sendur í sveit eins og títt var í þá daga. Hann var 10 sumur í sveit í Fagranesi í Aðaldal hjá Þuríði Guðmundsdóttur og tveimur dætrum hennar, en Þuríður var ekkja. Hann sat á rakstra- og snúningsvélum sem voru dregnar áfram af hesti, en seinna kom traktorinn. Sveitalífið átti vel við hann. „Ég gat ekki beðið eftir að komast í sveitina á vorin“, segir hann. En á veturna beið skólinn og leiðin lá í MR og þaðan í læknadeild Háskóla Íslands. Hann vann á barnadeild Landsspítalans eftir útskrift, enda var hann að velta fyrir sér að fara annað hvort í heimilislækningar eða barnalækningar.
Örlögin réðust á Akureyri
Þegar Birgir var ungur kandidat fékk hann vinnu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem átti eftir að reynast afdrifaríkt, því þar var hjúkrunarneminn Ásta Arnþórsdóttir einnig við störf. Þau áttu eftir að giftast og eignast þrjú börn. Ásta rak eigið fyrirtæki í Stokkhólmi, ferðaskrifstofu sem hún stofnaði ásamt Bryndísi Sverrisdóttur. Þegar Birgir hélt heim til að taka við embætti landlæknis, varð hún eftir ytra og ætlaði að draga sig út úr fyrirtækinu í rólegheitum. Hún seldi síðan fyrirtækið og er flutt til Íslands. Börnin þeirra þrjú sem voru 2ja, 4ra og 8 ára þegar þau fluttu til Svíþjóðar, eru öll búsett erlendis. Tvö í Svíþjóð, en eitt í Brussel. Birgir og Ásta eiga sex barnabörn.
Fínt að börnin setjist að í útlöndum
„Mörgum finnst það einhver mesta skelfing sem yfir Íslendinga getur dunið að börnin setjist að í útlöndum“, segir Birgir. „Ég hef aldrei skilið þá skelfingu, mér finnst þetta fínt. Það er liðin tíð að börnin búi í næsta húsi eða í sama bæ og foreldrarnir og fjarlægðin frá Stokkhólmi til Norður-Svíþjóðar er meiri, en fjarlægðin milli Stokkhólms og Reykjavíkur. Börnin mennta sig um allan heim, maður veit ekkert hvar það endar“, segir hann. Tvö tengdabarna Birgis og Ástu eru Svíar, en dóttir hans sem býr í Brussel er gift Frakka.
Forréttindi að hafa aðgang að tveimur löndum
Birgir segist fara oft til Stokkhólms. Þar finnst honum stundum gott að hverfa í fjöldann, sem er ekki eins auðvelt í okkar litla samfélagi. Hann segir að á Íslandi séu lífsgæði sem menn hafi ekki aðgang að annars staðar og hann fari til dæmis í sund á hverjum degi. Það sé æðislegt og hann hafi saknað þess þegar hann bjó í Svíþjóð að geta ekki gert það. Það séu kostir og gallar við allt. „Mér finnst frábært að hafa aðgang að tveimur góðum löndum, sem eru um sumt lík en annað mjög ólík. Ég lít á það sem forréttindi. Ég er ekkert hræddur við að eldast á Íslandi og heldur ekki ef það yrði í Svíþjóð. Hvar ég enda veit ég ekki, en ef ég verð í Svíþjóð mun ég koma oft til Íslands og öfugt ef ég eldist hér. Þá mun ég fara oft til Svíþjóðar“.