Leyfilegt að þegja

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Þekktur, reynslumikill og oft á tíðum ansi skemmtilegur útvarpsmaður, sem nú hefur snúið sér að öðru, var í viðtali í morgunþætti á einni af stærri útvarpsstöðvum landsins fyrir skömmu. Þáttastjórnandinn, sem einnig er þekkt og reynslumikil, var skemmtileg að vanda, hló mikið og geislað af gleði. Þegar hún kynnti viðmælanda sinn til sögunnar hefði mátt ganga út frá því sem vísu, að í vændum væri bæði skemmtilegt og áhugavert viðtal. Og sú varð raunin, nema hvað einn ljóður var þar á, sem gerði að verkum að næstum því allur seinni hluti viðtalsins fór fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem hér skrifar. Allt út af einu orði, hinu oftast tilgangslausa og óþarfa orði „hérna“ – eða réttara sagt „hénna“ – sem virðist hafa náð ótrúlega mikilli fótfestu í almennri umræðu.

Þessi aðfinnsla hljómar eflaust sem óþarfa smámunasemi eða tittlingaskítur. Það mætti jafnvel spyrja hvað „hérna“ hafi gert af sér. En þetta er bara svo mikill óþarfi. Kannski skýrist notkun þessa orðs af því að fólki sé illa við þögn þegar það er að hugsa hvað segja á næst og lætur þess vegna út úr sér „hérna“. Sumir þeirra, sem ekki segja „hérna“, gefa aftur á móti frá sér ýmis hljóð, eins og til dæmis, eeeeee ……, eða eitthvað álíka. Það er auðvitað ekkert skárra en „hérna“. Svo gæti einhver sagt að það sé ekki beint heppilegt að útvarpa þögn, sem geti leitt til þess að einhverjir rjúki til og fikti í stöðvartakka tækisins. Þetta væri auðvitað léleg skýring þar sem það tekur einungis andartak að segja „hérna“. Nei. Það má alveg þegja, stundum.

Deildarstjórar, dagskrárstjórar, útvarpsstjórar, eða hvaða aðrir stjórar sem almennir þáttastjórnendur útvarpsstöðva heyra undir, myndu vinna þarft verk ef þau tækju sig til og stuðluðu að því að draga úr þeim óþarfa sem ofnotkun á orðinu „hérna“ er í útvarpi. Þetta á auðvitað ekki við um megin þorra útvarpsmanna. Flestir þeirra tala mjög gott mál. Hinir eru hins vegar of margir og þeir eru hjá flestum útvarpsstöðvum. Og þar að auki væri auðvitað ekkert að því að þáttastjórendur bendi viðmælendum sínum vinsamlegast á að það sé óþarfi að segja oft „hérna“, ef því er að skipta. Næsta víst er að flestir myndu taka slíkum ábendinum með þökkum.

Það þarf ekkert að vera svo erfitt að draga úr óþarfa ofnotkun á orðinu „hérna“. Það þarf bara smá æfingu. Þá myndi eflaust hjálpa til ef þeir sem eru þjakaðir ef þessu orði myndu skoða hina bráðskemmtilegu sjónvarpsþætti Orðbragð, sem þau Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttar stýra, og endursýndir hafa verið í Sjónvarpinu nú í sumar. Frábærir þættir þar sem nánast ekkert sem tengist tungumálinu er skilið útundan. Sjaldan hefur eins vel verið sýnt fram á hvað tungumálið er skemmtilegt, margbreytilegt og hvað það býður upp á mikla möguleika, án þess að fylla upp í setningar með „hérna“.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson ágúst 4, 2014 15:00