Wilhelm Wessman skrifar:
Ég með Innocent Nezungai til vinstri á góðri stundu[/caption] Wilhelm Wessman skrifar: Hroll setti að mér þegar ég kom út í svalt haustloftið klukkan fimm að morgni þennan haustdag í maí 1998. Þó svo að næturhitinn færi niður í fimm gráður vissi ég að eftir að sólin væri komin upp færi hitinn upp í 25 gráður og var ég því klæddur samkvæmt því. Nóttin hafði verið köld og erfitt að halda á sér hita. Fjögur teppi og heimaprjónaðir ullarsokkar frá tengdamömmu á Króknum dugðu ekki til að halda á okkur Ólöfu hita. Mín næsta von um yl var að hella upp á stóran ketill af mínu uppáhalds tei frá Nyanga á austur hásléttunni, bragðmikið en samt með lítilli sýru. Eftir það settumst við Ólöf upp í bílinn og ókum að varðhliðinu við hús okkar þar sem syfjulegur vörðurinn kom út úr skýlinu með sultardropann á nefinu og veifaði okkur í gegn. Harare var ekki vöknuð, og stóð því ekki undir nafni, en Harare þýðir á máli Shona „staðurinn sem aldrei sefur“ Við vildum vera á undan öllum rútunum, sem við kölluðum „chichen express“. Brottför þeirra var klukkan sex til hinna ýmsu bæja og borga Zimbabwe frá Harare. Þetta voru allt gamlir austur evrópskir vagnar og ósuðu eins og Skota rúturnar sem keyrðu á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar þegar ég var strákur og hurfu í „rog og damp“ þegar þær keyrðu upp Litlu Öskuhlíðina, eins og stendur í danska konungssöngnum.
Ferðinni var heitið til Bulawayo sem þýðir á máli Nebele „The place of slaughter“, borg um 600 km fjarlægð frá Harare. Mér var ekki vel við að keyra þessa leið sem var í rauninni landamæri þess hluta Zimbabwe sem tilheyrir Shonum í austri og Nebele í vestri. Þessi vegur hafði verið víglína í ættbálkastríðinu sem geisaði frá 1980 til 1987, eftir að nýlendustríðinu lauk 1980. Glæpir og morð voru daglegur viðburður á þessum slóðum. Í fyrsta og eina eintaki af THE NATIONAL NEWS sem gefið var út í júní 1997 er forsíðufréttin um þennan veg og fyrirsögnin eftirfarandi: GRUESOME TRADE. Human body parts are fetching high prices in local and crossborder trade…. Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa frétt, sem er varla prenthæf vegna óhugnaðar. Mugabe forseta þótti nóg um og bannaði útgáfu blaðsins sem honum fannst andlýðræðislegt eins og það hét, en lýsti af sannleika ástandinu í landinu.
Tilefni ferðarinnar var að taka þátt í ferðamálaráðstefnu Suður-Afríku, Zimbabwe og Botswana. Topparnir frá ZimSum sem ég starfaði fyrir og sumir af erlendu fyrirlesurunum á ráðstefnunni áttu að koma með einkavél fyrirtækisins. (ZimSun átti fjögur Holiday Inn hótel eitt Crown Placa eitt Intercontinental, Victoria Falls Hotel, tíu önnur hótel og þrjátíu safari lodga flesta með fimm stjörnu þjónustu.
Ákveðið var að ég og Ólöf færum akandi og tækjum með okkur einn af fyrirlesurunum og konu hans, Einar Söder sem var forseti International Hotel and Restaurant Association (IHRA). Aðrir fyrirlesarar voru ferðamálastjóri Evrópubandalagsins og forstjóri eins af stærstu ráðgjafafyrirtækjum Bandaríkjanna í ferðamálum.
Á öðrum bíl í samfloti við okkur áttu nokkrir starfsmenn að koma. Þegar ég frétti að Stella Fernandes einkaritari minn ætti að keyra hinn bílinn mótmælti ég kröftulega. Hún var mjög klár stúlka ættuð frá Goa á Indlandi, en kunni ekki að aka bíl frekar en fimm ára barn. Ég fékk engu um þetta ráðið, kerfið sagði nei. Þessi ákvörðun átti eftir að hafa sorglegan endi.
Við Einar Söder þekktumst vel, höfðum báðir setið í stjórn Norræna hótel og veitingasambandsins og Einar tekið við af mér sem forseti þess þegar ég hætti. Við höfðum því nóg um að spjalla á þessari löngu leið. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Eru við á réttri leið, eigum við að vera svæði sem bíður uppá fjöldaferðamennsku, eða landsvæði sem bíður uppá gæðaferðamennsku þar sem færri ferðamenn skila meiri vermætum en fjöldinn“.
Niðurstaða ráðstefnunnar var að við værum á réttri leið þar sem áhersla var lögð á gæði , eða eins og sagt er á ensku „Value for Money“ Í panelumræðum í lok ráðstefnunnar voru erlendu fyrirlesararnir formælendur og ræddu um hver væru helstu samkeppni lönd þessara landa um ferðamenn. Þeirra niðurstaða var að Suður Ameríka og Norður Skandinavía ásamt Alaska væru þau lönd sem mundu veita hörðustu samkeppnina, en þó eitt land sérstaklega sem héti Ísland. Þegar vitnaðist að einn Íslendingur væri í salnum, krafðist ferðamálastjóri Evrópubandalagsins að ég væri rekinn úr salnum, þar sem ég vær auðsýnilega njósnari. Allt var þetta í gríni gert og uppskar ég mikið klapp og hlátur þegar ég hafði gert grein fyrir mér.
Við áttum eftir að starfa í 18 mánuði í þessu verkefni og fór ég því út í að sannprófa fullyrðingarnar sem þessir herramen sem sátu í panil sögðu um Ísland. Ég spurði bandaríska og þýska ferðamen þessara spurninga: Hvar voruð þið í síðasta fríi og hvert ætlið þið í því næsta? Svarið var mjög oft „Ísland“ og þeir bættu svo við „það er andstæðan við Afríku“. Ég reyndi að koma þessum skilaboðum til fyrrum félaga minna hér heima, en þau voru ekki vel þeginn, frekar en annað sem ég vildi miðla þeim af minni alþjóðlegu reynslu.
Á heimleiðinni rétt áður en við komu að bænum KweKwe tók Stella fram úr kyrrstæðri skólarútu með þeim hörmulegu afleiðingum að hún ók á sjö ára skólastúlku sem lést samstundis. Þegar hún mætti til vinnu tveimur dögum síðar tók ég hana á eintal. Orðið áfallahjálp var ekki til á þessum slóðum, en ég reyndi eftir bestu getu að veita henni hana. Eftir að ég hafði lokið máli mínu horfði hún undrandi á mig og sagði svo, „veistu Mr.Wessman þetta var Guðs vilji, ég er búin að fara í kirkju og ræða þetta við Guð og um þetta þarf ekki að ræða frekar“. Nokkru síðar gerði Innocent Nezungai framkvæmdastjóri ZimSun boð eftir mér. Þegar ég kom á skrifstofuna hans mætti mér freka illúðlegt lið. Þetta var þorpshöfðingi, öldungaráðið og foreldrar stúlkuna sem Stella ók á. Þau voru mætt til að krefjast bóta í peningum fyrir látnu stúlkuna. Mér leið strax hræðilega, var settur í þær aðstæður að vera neyddur til að taka þátt í umræðum sem ég vildi ekki. Nezungai sagði að gjaldið ætti ekki að vera meira, en sem svaraði verði á einni geit. Við þessi orð Nezungai upphóf móðirin grát og óhljóð, talaði um hve missirinn væri mikill. Þorpsleiðtoginn sagði að annað verð gilti fyrir okkur við værum erlent fyrirtæki sem ætti nóg af peningum. Ég tók lítinn þátt í þessum umræðum sem enduðu með að sæst var á að greiða andvirði tveggja geita.
Mér leið hræðilega eftir þennan fund, jakkafötin voru blaut af svita sem var ekki vanalegt þó svo að hitinn færi yfir 40 gráður. Mér fannst ég vera skítugur að hafa tekið þátt í að meta þetta stutta líf stúlkunnar til tveggja geita.