Flestum finnst aldurinn færast yfir þá smátt og smátt og líkaminn hrörna, getan minnka hægt og hægt en er það svo? Foreldrar þekkja og muna vaxtarköst barna sinna. Það var eins og þau stæðu í stað en svo allt í einu urðu öll föt of lítil og barnið breyttist í krakka og krakkinn í ungling. Nýjar rannsóknir sýna að svo er einnig um ellina. Hún færist ekki yfir frá ári til árs heldur kemur í köstum. Ef fólk gætir sín vel á fimmta og sjöunda áratug lífs síns skiptir það miklu um áframhaldandi góða heilsu.
Um miðjan fimmta áratug lífs hvers einstaklings verða kaflaskil. Bæði hugur og líkami taka stórt stökk inn í ellina. Hið sama gerist tuttugu árum síðar eða um miðjan sjöunda áratuginn. Mólikúl líkamans taka miklum breytingum á þessu árabil og vísindamenn við Stanford-læknaskólann segja að þessar breytingar hafi mikil áhrif á getu okkar og heilsu. Breytingarnar hægja á efnaskiptum, veikja ónæmiskerfið, draga úr afköstum nýrnanna, hægja á endurnýjun húðarinnar og vöðvastyrkur minnkar. Þannig að ef þér hefur fundist þú þrekminni, hrukkóttari og orkuminni eftir fjörutíu og fimm og aftur eftir sextíu og fimm ára afmælið var það ekki ímyndun. En skoðum í hverju þessar breytingar felast og hvað er hægt að gera til að snúa þeim við eða hægja á þeim.
- Ónæmiskerfið veikist
Eftir fjörutíu og fimm ára aldur verða margir varir við að þeir fá oftar umgangspestir en áður og eru lengur að ná sér. Það er vegna þess að ónæmiskerfið er veikara og þegar næsta stökk kemur um sextíu og fimm ára aldurinn verður þetta enn greinilegra. Rispur og smásár eru lengur að gróa og einstaklingurinn er viðkvæmari fyrir sýkingum í sárum. Þetta er vissulega hluti af að eldast en þessi tvö stökk fram á við í aldri hafa það mikil áhrif að langflestir taka eftir þeim Þegar vísindamennirnir tóku að mæla hæfni fólks til að berjast við vírusa, draga úr bólgum í líkamanum, hægja á krabbameinsfrumum og draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum í langtímarannsókn kom í ljós að mikil breyting sem varð nánast á einni nóttu um þessi aldursbil. Ónæmiskerfið er auðvitað okkar helsta vörn, ekki bara gegn utanaðkomandi vírusum og bakteríum heldur einnig hið innra. Sterkt ónæmiskerfi kemur í veg fyrir að ótal sjúkdómar nái að þróast. Mataræði er lykillinn að því að viðhalda heilbrigðu ónæmiskerfi og með því að neyta grænmetis, ávaxta, hneta, ólífuolíu og fisks er hægt að styðja við líkamann fyrir og eftir þessi tvö stökk sem mælanleg voru í rannsókninni.
- Hjartaheilsu hrakar
Í kringum sextíu ára aldur fara hjarta- og æðasjúkdómar að gera vart við sig hjá sumum. Æðaveggirnir stífna og það verður erfiðara fyrir hjartað að dæla blóði um líkamann. Þetta aukaálag getur valdið hækkandi blóðþrýstingi og erfiðara reynist að ná upp púlsi við líkamsæfingar. Hjartavöðvinn breytir sér til að mæta þessu og það eykur álagið enn frekar. Regluleg hreyfing og heilsusamlegt mataræði getur hjálpar hjartanu og æðakerfinu að halda áfram að gegna hlutverki sínu þrátt fyrir álagið. Þrjátíu mínútna hreyfing sem nær púlsinum upp dag hvern er allt sem þarf til að vinna gegn ótímabærri öldrun.
- Vöðvastyrkur minnar
Vöðvastyrkur flestra er mestur í kringum miðjan fertugsaldur. Eftir það taka vöðvarnir smátt og smátt að rýrna. Þegar sextugsaldri er náð verður ferlið enn hraðara. Það verður einnig stöðugt erfiðara að byggja upp vöðva og bæta við styrk sinn. Vöðvarýrnun er ein helsta ástæða þess að fólk missir smátt og smátt getuna til að hreyfa sig og hugsa um sig sjálft. Styrktaræfingar eru þess vegna algjörlega nauðsynlegar eftir miðjan aldur og með því að lyfta lóðum 2-3 í viku getur fólk gert mikið til að hægja á vöðvarýrnun og viðhalda styrk sínum langt frameftir ævi. Ef hægt er að tala um töfralausn gegn ellinni þá er það að vera virkur. Hætta aldrei að hreyfa sig, taka á í æfingum eða leik og þjálfa hugann með skemmtilegum áskorunum. Vissulega hægir á meltingarkerfinu, efnaskiptum, boðefnum og hreinsikerfum líkamans en þjálfun örvar þau og vinnur gegn aldrinum og það er sama hvenær er byrjað, líkaminn hefur ótrúlega hæfni til að endurnýja sig, byggja upp og viðhalda. Það er auðvitað ekki hægt að laga allt en hver og einn getur gert eins og hann getur og þannig notið heilsubótar þrátt fyrir að líkaminn eldist.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.