Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar:
Mér finnst gaman að baka – sérstaklega þegar vel tekst til. Ég er líka svo heppin að ungur sonarsonur minn er sérlega hrifinn af pönnukökunum mínum og segist finna á lyktinni úti á hlaði hvort hann eigi von á pönnukökum þegar hann kemur í heimsókn. Þegar pönnukökutímabil lífs míns gekk í garð hélt ég að mér dygði að setja í skál slatta af hveiti, nokkur egg, smjörlíkisklípu og slurk af mjólk. Ég komst hins vegar fljótt að því að slíkur bakstur er meiri list en svo að dugi að sulla saman í skál viðeigandi hráefnum án þess að hafa hugmynd um hvernig hlutföllin eiga að vera. 🙂 Stundum varð deigið kekkjótt, stundum notaði ég of mikið smjörlíki og ég lenti líka í því að soppan festist við pönnuna sem er kannski allra verst. Reynslan af þessum mistökum kenndi mér að gott væri að kynna sér hvernig best væri að standa að því mikilvæga verkefni að baka góðar pönnukökur. Þess vegna hef ég líka lesið fjöldann allan af uppskriftum af þeim allra „bestu“. Sannleikurinn er hins vegar sá að ég veit aldrei alveg hvað er „best“ eða „mest“ – ekki einu sinni þó að slíku sé haldið fram á prenti.
Ég er í úrtakshópi sem svarar reglulega spurningum um allt milli himins og jarðar og fylgist líka nokkuð vel með ýmsum könnunum og rannsóknum – sem er þó ekki beint til mín sérstaklega – og velti fyir mér niðurstöðunum. Oftast á ég auðvelt með að svara því sem um er spurt en þegar fjallað er um huglæg atriði renna á mig tvær grímur. Þá get ég ekki stuðst við reynsluna af pönnukökubakstrinum. Hvernig met ég til dæmis líðan mína? Þar sem ég er bjartsýn að eðlisfari myndi ég að líkindum meta líðan mína góða þó að einhver annar myndi í mínum sporum telja hana afleita. Hvernig er hægt að mæla hamingju sína og getum við lagt mat á vináttu? Er hægt að mæla einmanaleika eða erfiðleika? Er ást mælanlegt hugtak? Hvað með sorg og dauða? Er hægt að mæla hvaða lífsreynsla er mönnnum erfiðust eða hvað það er sem veitir fólki mesta lífsfyllingu og gleði? Spyr sá sem ekki veit. En þó að ég eigi ekki svör við slíkum spurningum sé ég að niðurstöður þar sem svara við þeim er leitað geta nýst á ýmsa vegu.
Vorið og sumarið er minn tími og ég finn hvernig lundin léttist við hvert hænuskref sem birtutíminn lengist. Auðvitað veit ég að enn er mars og að allra veðra er von á þessum árstíma. En samt …. 🙂 Í gær gekk ég um garðinn minn og sá glitta í forboða þess að ég fengi að njóta fyrirhafnarinnar sem fylgir því að setja niður lauka á haustin. Það hvarflaði líka að mér að raka saman laufin sem liggja blaut og hrakin á grasflötinni og undirbúa þannig vorið og sumarið, minn uppáhaldstíma. Ég er sannfærð um að sumarið verður yndislegt og að laukarnir muni kæta mitt geð. Ég veit hins vegar ekki frekar en aðrir hvernig veðrið verður í sumar og ég veit heldur ekki hvernig líðan mín og lund verða. En á skalanum 1 -10, sem við hjón höfum gaman af að styðjast við af ýmsu tilefni, þá gef ég komandi vori og sumri níu!! 🙂