Lúxusfleytan Akraborg

Wilhelm Wessman

Wilhelm W.G. Wessman skrifar

Ég hef mótað mér þá skoðun eftir hálfrar aldar starf í ferðaþjónustu, bæði hér heima og víða um lönd, að ef við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu til frambúðar „landi og þjóðinni til hagsældar“ þurfum við að gera það af þekkingu og virðingu fyrir náttúrunni. Til þess að svo megi verða, þurfa ráðamenn þjóðarinnar að skilja að græðgi og stundargróði er versti óvinur slíkrar stefnu.

Ferðaþjónustuaðilar þurfa að hafa þekkingu  og vilja til að leggja meira á sig en vanalega  og fara út fyrir þægindarammann, eða GO THE EXTRA MILE eins og við kölluðum það  hjá InterContinental, til að sinna ýtrustu kröfum viðskiptavinanna.

Árið 1984 var ég framkvæmdastjóri ráðstefnu- og veitingadeildar Hótel Sögu. Á þessum árum var lítill áhugi hjá ferðaskrifstofunum  hér heima á að sinna  hvata-og ráðstefnugestum.  Ferðaskrifstofurnar vildu eingöngu sinna  skipulögðum ferðum eins og Gullna hringnum, ferðum um Suðurland með viðkomu í Eden í Hveragerði, eða hringferð um landið svo eitthvað sé nefnt. Það kom því oftast í hlut okkar hótelmannanna að sjá um og skipuleggja  ráðstefnur, hvata-og óvissuferðir. Ég var virkur í þessu og tók að mér margar slíkar.  Ein eftirminnilegasta og sú sem kostaði mestu skipulagninguna  var fyrir franska  ráðstefnuskipuleggjandann Havas Tourisme D‘Affaires sem var að skipuleggja fréttamannafund fyrir olíufyrirtækið Total á Íslandi.

Salurinn í Akraborginni þótti glæsilegur – mynd í eigu Ljósmyndasafns Akraness

Total var að markaðasetja nýja olíu og var Ísland eitt af þeim löndum sem kom til greina fyrir fundinn- og varð fyrir valinu eftir að við  Michel Da Viaud Directeur Général hjá Havas lögðum fram áætlun okkar um ferðina. Fréttamönnum  var boðið í hanastél á Orly flugvelli í París, þeim að óvörum var tilkynnt þar, að þeirra biðu ferðbúnar tvær Concorde vélar, en áfangastaður væri óviss.  Þegar um borð var komið var flogið frá Orly flugvelli til Keflavíkur. Ég held að þetta sé eina skiptið sem Concorde vélar komu til Íslands með farþega. Frá Keflavík var ekið til  Reykjavíkur, þar sem drykkir og léttar veitingar biðu gesta í  Grillinu á Hótel Sögu.

Veislumaturinn frá Hótel Sögu á leið út í sendibíl

Eftir stuttan stans í Grillinu var ekið niður á Gömlu höfn þar sem Akraborgin beið fánum skrýdd. Þegar gestir voru komnir um borð var siglt út á Faxaflóa til að njóta miðnætursólarinnar, en þetta var á Jónsmessunótt. Um borð var til reiðu sjávarréttahlaðborð að bestu gæðum, borð dekkuð með silfurborðbúnaði og kristalsglösum. Fagmenn réðu ríkjum í eldhúsi og sal, allir voru klæddir að víkinga sið. Ferðin endaði síðan með því að siglt var til Keflavíkur, en þangað var komið kl. 02:00 um nóttina eftir vel heppnaða ferð þar sem gestir nutu miðnætursólarinnar í bland við mat og drykk. Við komu var gestum ekið uppá flugvöll og flogið með Concorde til baka til Parísar.

Stóra vandamálið var að á þessum árum var ekkert skip sem tók 200 farþega nema Akraborgin og verður seint sagt að hún hafi uppfyllti umbeðnar kröfur.

Þegar ákveðið var að ég tæki þetta verkefni að mér, leigði ég Akraborgina eftir síðustu ferð til Akranes og höfðum við því klukkutíma til að breyta skipunnu í lúxus fley.

„Víkingar“ um borð í Akraborginni. Litli víkingurinn fremst á myndinni er Róbert Wessman sonur Wilhelms

Hér þurfti að skipuleggja hverja mínútu og hvert handtak, sérsmíða borð og sauma dúka, skipuleggja skreytingar svo eitthvað sé nefnt. Ég mætti um borð í Reykjavík með tíu fulla sendiferðabíla af mat, og öðrum búnaði, ásamt starfsfólki. Við fengum skipið afhent þegar síðasti farþeginn var farinn frá borði á Akranesi og klukkutíma síðar þegar Boggan sigldi inn í Reykjavíkurhöfn fánum prýdd minnti fátt innanborðs á það skip sem lagði úr höfn í Reykjavík tveimur tímum fyrr.Ég á enn þakkarbréfið sem ég fékk frá forstjóra fyrirtækisins.

 

 

 

Ritstjórn október 22, 2018 06:55