Máltíðin á tæpar 800 krónur fyrir 67 ára og eldri

Reykjavíkurborg á að vera aldursvæn og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Aðgengileg, aðlaðandi og hentug borg er aldursvæn borg.

Á þessum orðum hefst nýsamþykkt stefna Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara á árunum 2018 til 2022. Nýja stefnan tekur mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og halda áfram að lifa því lífi sem það kýs. Margvísleg þjónusta borgarinnar er liður í að ná þessari stefnu fram, en nýja stefnan verður kynnt opinberlega í vor.

Frítt í sund, söfn og skíðalyftur

Það vekur athygli þegar upplýsingabanki Lifðu núna er skoðaður HÉR  hversu umfangsmikil þjónusta Reykjavíkurborgar og annarra aðila við eldri borgara er. Reykvíkingar 67 ára og eldri fá til dæmis frítt í sund og inn á öll söfn borgarinnar. Þeir fá einnig mikinn afslátt í strætó og í skíðalyfturnar á skíðasvæðum borgarinnar. Þá stendur þeim til boða að borða í félagsmiðstöðvum borgarinnar í hádeginu, ef það hentar, eða að fá heimsendann mat. Þeir geta einnig farið í ókeypis vatnsleikfimi sem stendur til boða  í mörgum sundlaugum Reykjavíkur. Sjá dagskrá vatnsleikfiminnar hér.

Árskortið kostar brot af því sem aðrir greiða

Stök fargjöld fullorðinna með Strætó kosta 460 krónur, en fargjaldið fyrir 67 ára og eldri er 220 krónur. Venjulegt árskort kostar 72.000 krónur en þeir sem hafa náð 67 ára aldri geta keypt árs kortið á 21.700 krónur. Ef fólk vill kaupa sér 20 miða strætókort, borga fullorðnir 8.700 krónur fyrir það. Þeir sem eru orðnir 67 ára greiða hins vegar 2.730 fyrir 20 miða kort.

Máltíðir á hóflegu verði

Þeir sem eiga orðið erfitt með að fara í búð eða að elda, geta fengið sér að borða í einhverri af 17 félagsmiðstöðvum borgarinnar fyrir aldraða. Það er líka hægt að að fá heimsendan mat, en það verður að sækja um hann sérstaklega í gegnum þjónustumiðstöðina í hverfinu þar sem fólk býr. Maturinn er á mjög góðu verði. Máltíðin í hádeginu í  matsalnum á Vitatorgi kostar til að mynda 775 krónur ef maturinn er keyptur í lausasölu, en 710 krónur ef menn eru þar í föstu fæði. Ef menn vilja eitthvað meira, til að mynda kaffi eða te eftir matinn, er hægt að kaupa það á 170 krónur til viðbótar.

Þrif á rúmar 1200 krónur á tímann

Annað sem er í boði fyrir þá sem ekki geta séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu, eru þrif. Sótt er um þrifin til þjónustumiðstöðvar borgarinnar í viðkomandi hverfi og þar er þörfin fyrir þau metin. Þessi þjónusta fylgir ákveðinni gjaldskrá, en þeir sem eru illa staddir fjárhagslega get sótt  um lækkun eða niðurfellingu greiðslu vegna þrifanna.  Almennt viðmiðunargjald er 1.205 krónur á klukkustund.

Akstursþjónusta á sama verði og strætó

Þeir sem eiga erfitt með að komast á milli staða, geta leitað eftir akstursþjónustu borgarinnar. Hún er ætluð fólki 67 ára og eldra, sem býr heima en getur ekki vegna langvarandi hreyfihömlunar notað almenningsssamgöngur og hafa ekki aðgang að bíl. Aksturinn er í boði frá 9-17 alla virka daga. Sama gildir um aksturinn og heimsenda matinn, það þarf að sækja um hann hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar.  Greiðsla fyrir aksturinn fyrstu 16 skiptin í mánuðinum er sem svarar almennu fargjaldi með strætó, en eftir það greiðir fólk 1.185 krónur fyrir ferðina.

Heimahjúkrunin

Þar að auki veitir Reykjavíkurborg bæði heimaþjónustu og heimahjúkrun, en markmið þjónustunnar er að gera þeim sem hennar njóta kleift, að búa heima þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds. Umsókn um heimahjúkrun verður að berast skriflega frá heilbrigðisstofnunum og starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Að öðru leyti gildir um þjónustu Reykjavíkurborgar að almennt þarf að sækja um hana og það er gert í þjónustumiðstöðvum borgarinnar í hverfinu þar sem menn búa.

Ritstjórn apríl 3, 2018 10:12