Tengdar greinar

Með fullar hendur af engu

Handfylli moldar eftir Evelyn Waugh kom nýlega út í íslenskri þýðingu Hjalta Þorleifssonar. Þessi saga og Brideshead Revisited eru þekktustu verk Waughs og heilla enn lesendur um allan heim. Þótt vissulega sé hér að finna mörg kunnugleg þemu úr öðrum bókum Evelyn Waugh er þetta fyrst og fremst satíra. Hann dregur sundur og saman í háði þá stétt manna í ensku samfélagi sem hann sjálfur tilheyrði og sýnir hversu snautt þetta fólk er í raun þótt það búi við allsnægtir.

Titillinn er vísun í Eyðilandið eftir T.S. Eliot. Þar segir: „I will show you fear in a handful of dust.“ Eliot er að tala um dauðann og ótta mannanna við hann. Evelyn Waugh leikur sér hins vegar með þann skilning á orðunum og í sögunni hans er lófafylli af mold fremur það sem menn láta eftir sig í formi einhvers konar arfleifðar. Sagan hefst heima hjá John Beaver og móður hans. John er ónytjungur, peningalítill og lifir í raun á sníkjum. Hann tilheyrir karlaklúbbi og reynir þar að fá vini sína til að borga fyrir sig drykki og mat. Hann er einnig gjarnan gestur í boðum yfirstéttarinnar einkum og sérílagi ef einhver afboðar sig með stuttum fyrirvara. Þegar sagan hefst hyggst hann dvelja yfir helgi hjá Tony og Brendu Last á sveitasetri þeirra Hetton.

Hetton er í niðurníðslu en Tony finnur til ríkrar ábyrgðar gagnvart þessum arfi sínum og vill skila húsinu í betra standi til næstu kynslóðar en það var í þegar hann tók við því. Hann ver því mestu af tekjum sínum í það en á meðan leiðist Brendu. John Beaver er henni því kærkomin félagsskapur og hún eltir hann til London. Fljótlega hefst ástarsamband þeirra í milli og veröld Last-hjónanna umturnast. Þegar þau missa eina barnið sitt ákveður Tony að halda í landkönnuðarleiðangur til Suður-Ameríku. Hvernig það allt fer er ekki vert að rekja en lesendur geta hins vegar valið milli tveggja endaloka á sögunni.

Skörp samfélagssýn

Handfylli af mold er háðsádeila og kaldhæðni Evelyn Waugh nýtur sín einkar vel í þessari sögu sem er rosalega fyndin á köflum. Breski lágaðallinn fær hroðalega útreið og lífsmáti þeirra lítilfjörlegur. Flestar söguhetjur í bókinni láta reka á reiðann að undanskilinni frú Beaver sem lætur stjórnast af peningagræðgi, Polly Cockpurse af þrá eftir frægð og stöðu eins og reyndar Doktor Messenger. Hér er ekki fyrir að fara sterkri siðferðiskennd eða löngun til að bæta mannlífið, skapa eitthvað sem er einhvers virði eða einfaldlega bæta sjálfan sig.  Hræsnin er allsráðandi. Þetta er beitt og skörp samfélagssýn og það má segja að það sé eiginlega sorglegt að forréttindahópur með aðgang að öllum hugsanlegum tækifærum sé svo gersneyddur metnaði. Hins vegar er landkönnuðarferð Tonys einhvern veginn úr takti við aðra hluta sögunnar og eiginlega frekar óskiljanlegur. Nema að ætlun höfundar hafi verið að sýna hversu langt frá raunveruleikanum eða uppruna mannsins söguhetjur hans eru komnar.

Það er alltaf fengur að klassískum meistaraverkum á íslensku og þessi þýðingin er vel unnin og virkilega gaman að rifja upp kynnin af þessari skáldsögu sem ég las fyrst á ensku fyrir um það bil fjörutíu árum. Það er hins vegar augljóst að Evelyn Waugh hefur, um það leyti sem hann skrifaði þessa sögu, verið búinn að missa alla von um að hægt væri að breyta eða betrumbæta mennina. Hann skrifar af ísköldu raunsæi. Evelyn Waugh fæddist árið 1903 og var jafnaldri George Orwell. Þeir lifðu báðir tvær heimstyrjaldir og horfðu upp á verstu átök í sögu mannkynsins.

Evelyn ólst upp við að faðir hans, Arthur, hafði mun meiri áhuga og ást á eldri bróður hans, Alec. Arthur kallaði Alec son sálar sinnar. Ranglæti af þessu tagi setur svip á sálarlíf barns og í mörgum bókum Evelyn endurspeglast reynsla hans í fjarlægum feðrum söguhetjanna eða að þær eru munaðarlausar eða búnar að missa annað foreldrið. Guy Crouchback í Sword of Honour og Charles Ryder í Brideshead Revisited eru til að mynda báðir í leit að fjölskyldutengslum, hópi til að tilheyra. Það er líka skerandi hversu lítið það virðist snerta Last-hjónin að missa barnið sitt.

Höfundurinn upplifði líka sjálfur að vissu leyti aðstæður Johns Beaver. Hann gekk í Oxford-háskóla og vinir hans voru margir mjög ríkir en hann átti mun minna. Hann þurfti þess vegna oft að treysta á örlæti þeirra þegar kom að ferðalögum, skemmtunum og veitingahúsaferðum. Hann lærði fljótt að með því að vera fyndinn gat hann keypt sér aðgang að veisluborðunum. Hins vegar náði hann aldrei að útskrifast úr háskóla einmitt vegna þessa því hann var of upptekin af að skrifa meinfyndnar smásögur. Sumar þeirra urðu síðar að skáldsögum. Evelyn Waugh er mjög áhugaverður höfundur sem enn nær að fanga athygli lesanda með snilldarlegum senum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 2, 2024 07:00