Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar:
Ég ólst upp í þeirri trú, að Kjarval væri merkilegasti listamaður í heimi. Móðurafi minn og Kjarval, báðir Austfirðingar, kynntust sem ungir menn í Reykjavík og voru góðir vinir til æviloka. Afi var fyrstur til að skrifa grein um listamanninn Kjarval og var alla tíð dyggur stuðningsmaður hans, og var í hópi manna sem studdu Kjarval fjárhagslega og eignaðist í gegnum árin dágott safn verka eftir meistarann.
Afi og amma bjuggu sín fyrstu hjúskaparár í Austur-Landeyjum og dvaldi Kjarval hjá þeim um tíma nokkur sumur við að mála. Kjarval var mjög barngóður og tók miklu ástfóstri við eldri systur móður minnar, Öddu, sem hann kallaði aldrei annað en Bússurollu, og málaði af henni andlitsmynd, sem ber sama nafn.
Bússurolla lenti í ástandinu og þegar hún og hinn bandaríski eiginmaður hennar fluttu vestur um haf eftir stríð, höfðu þau nokkur Kjarvals verk með sér í farangrinum og seinna eignuðust þau fleiri verk eftir hann, sem prýddu veggi heimilis þeirra í Washington D.C.
Íslendingar sem sóttu þau heim, urðu að vonum glaðir við að sjá Kjarvals málverk upp á vegg á bandarísku heimili. Kjarval var hins vegar með öllu óþekktur í Bandaríkjunum og létu Bandaríkjamenn sér fátt um verk hans finnast. Einn bandarískur gestur á heimili móðursystur minnar snéri sér að henni, eftir að hafa horft á Kjarvalsverkin um stund, og spurði hana hvort hún væri frístundamálari.
Sumarið 2004 buðu foreldrar vinar sonar okkar, okkur í grillveislu á þjóðhátíðardeginum 4. júlí. Þar var móðuramma vinarins stödd og þegar hún heyrði að við værum Íslendingar, sagði hún mér eftirfarandi sögu:
Maður hennar, sem þá var látinn, hafði um árabil verið prófessor í fornbókmenntum við Kalíforníuháskólann í Berkeley. Hann hafði sótt Ísland heim í boði Sigurðar Nordal prófessors og dvaldi þar í góðu yfirlæti. Sigurður lagði sig fram við að kynna hann fyrir helstu menningarfrömuðum landsins og heimsóttu þeir, meðal annarra, Halldór Laxness að Gljúfrasteini og Kjarval á vinnustofu hans í Reykjavík. – Það fór vel á með prófessornum og Kjarval, og þegar þeir kvöddust, rétti Kjarval honum mynd að gjöf, sem hann hafði nýlokið við að mála.
Þegar heim kom vildi prófessorinn hengja Kjarvals myndina upp í stofunni, en konan tók það ekki í mál. Henni fannst myndin ljót og vildi alls ekki hafa hana upp á vegg í stásstofunni sinni. Þau hjónin deildu um hvar myndin ætti að hanga, og sættust að lokum á að hengja hana upp í gestaklósettinu, sem eiginkonan notaði aldrei.
Þegar hún lauk sögunni, settist ég niður með henni og sagði henni frá Kjarval og að á Íslandi teldust verk hans til þjóðargersema. – Ég sagði henni líka að, ef hún vildi losna við myndina, gæti ég aðstoðað hana við að koma henni í verð. Hún tók boðinu vel, sagðist ætla að hugsa málið og lofaði að senda mér mynd af verkinu. – Það varð þó aldrei úr því. Konan veiktist illa og lést nokkru síðar. Þegar ég grennslaðist fyrir um afdrif Kjarvals myndarinnar eftir lát hennar, sagði dóttursonur hennar mér, að myndin hefði fallið í hlut móðurbróður hans og að hún prýddi stofuna á heimili hans á Hawaii. – Hann bætti því við, að amma hans hefði komið því til skila til barnanna sinna að Kjarvals myndin væri dýrmæt eign og að nú gætti móðurbróðir hans myndarinnar sem sjáaldurs augna sinna og hefði engan áhuga á því að koma henni í verð.