Margir sem hafa staðið í því að undirbúa ættarmót og fara reglulega á fjölmenn ættarmót, velta framtíð þeirra ugglaust fyrir sér. Geta þau haldið endalaust áfram? Hvenær verður fólkið orðið of margt til að hittast á ættarmóti? Munu þeir sem yngri eru hafa sama áhuga og hinir eldri á að halda ættarmót? Iðunn Jónsdóttir veltir þessu upp í BA- ritgerðinni sinni um ættarmótin en um hana hefur verið fjallað hér á síðunni.
Ólíklegt að ættarmótið leggist af
Einn viðmælenda hennar í rannsókninni telur að ættarmótið í hennar fjölskyldu sé að breytast og það sé spurning hvort elsta kynslóðin nenni að halda þessu áfram. Honum þykir þó ólíklegt að ættarmótið leggist af, frekar að umgjörðin um það gæti breyst.
En almennt held ég bara að þessar hefðir eigi eftir að halda áfram. Ég held að fólk eigi eftir að halda ættarmót um ókomna tíð, þó þau eigi eftir að enda á lúxushóteli, ekki svona sveita og útilegu, heldur umgjörðin getur breyst.
Hvað gerist þegar börnin taka við keflinu?
Annar telur að ættarmótin verði við lýði á meðan kynslóð foreldra hans sé á lífi.
Ég veit ekki þegar ég, mín kynslóð, verður orðin elsta kynslóðin. Ég veit ekki hvað börnin mín og barnabörn og barnabarnabörn munu gera.
„Ég vona bara að þetta haldi áfram“, segir annar. „Ef ég eignast börn vona ég að þau kynnist fjölskyldunni sinni. Ég vil endilega að þetta haldi áfram í þessari mynd, sumarhelgi, grill, sól, lopapeysa, söngur, bjór, stuð“.
Ekki afkomendur langömmu og langafa
Fleiri en einn nefna að ættatmótin geti breyst.
Það sem gæti gerst, þessi breyting eins og ég sé hana fyrir mér, að þessi ætt hætti að hitast sem ætt og færist neðar í keðjunni. Í staðinn fyrir að vera afkomendur langömmu og langafa, þá eru þetta afkomendur ömmu, sem er orðin svolítið stór fjölskylda.
Ágætar framtíðarhorfur
Að öllu þessu samanlögðu er niðurstaða Iðunnar sú, að þegar þessi sjónarmið séu tekin saman, gefi það vísbendingu um að hefðin (ættarmótin) lifi góðu lífi og eigi jafnvel ágætar framtíðarhorfur.
Þessi grein er úr safni Lifðu núna.