Áhuginn kviknaði snemma á keramík og myndlist hjá myndlistarmanninum og hönnuðinum Ingu Elínu. Eftir 10 ára nám í faginu tók hún við verðlaunum Danadrottningar við útskrift. Inga Elín ákvað að fara ekki í kennslu heldur að láta drauminn rætast og lifa af listinni. Sá draumur hefur sannarlega ræst með vinnusemi og seiglu. Inga Elín hefur vart undan og hannar nú fyrir innlendan og erlendan markað. Ýmsar frægar stjörnur hafa keypt verk hennar en hún segist vilja halda fyrirtækinu eins og það er og ekki fá inn fjárfesta og vera með útþynnt merki sem fæst alls staðar.
Hæfileikar Ingu Elínar og áhugi á sköpun kom snemma í ljós og ljóst hvert hugurinn stefndi. Það má jafnvel sjá ákveðin einkenni og smáatriði sem hafa fylgt henni í sumum verka hennar.
Inga Elín segir að hún hafi verið 13 ára þegar hún fór í Myndlistarskóla Reykjavíkur sem þá var í Ásmundarsal.
„Ég fékk svo lyklana að skólanum hjá Katrínu Briem sem var skólastjóri – hún treysti mér fyrir þeim og ég gat þá farið í skólann hvenær sem ég vildi, ég mátti vera þarna öllum stundum,“ segir Inga.
Þegar hún var 15 ára fékk hún leyfi til að fara á módelnámskeið þrátt fyrir að vera í raun of ung en Hringur Jóhannesson kenndi og treysti henni til að sækja námskeiðin. „Hann var yndislegur og æðislegur kennari og mikið ljúfmenni. Ég hafði áhuga á öllum greinum myndlistarinnar í raun, ég málaði og mér finnst textíll æðislegur. Það var erfitt að velja en það er eitthvað við leirinn, þannig að ég ákvað að fara í keramík.“
Inga er með 10 ára menntun að baki í myndlist og keramík, fimm ára nám hér á Íslandi og fimm ára nám erlendis frá. Hún var í Myndlistar- og handíðaskólanum og útskrifaðist þaðan sem myndmenntakennari. Þá hóf hún kennslu í myndmennt 21 árs gömul og kenndi í þrjú ár „Ég ákvað þá að fara til Danmerkur og taka framhaldsnám í keramík en ég hafði samt í raun áhuga á öllum greinum myndlistarinnar, ég ætlaði að vera í eitt til tvö ár í mesta lagi en var í fimm ár og útskrifaðist úr keramíkdeild og glerblástursdeild.“
Inga hlaut verðlaun við útskrift fyrir kristalsglös og postulínsbolla og tók við verðlaununum Danadrottningar sem nefnast Kunsthåndværkerprisen af 1879. „Verðlaunin voru afhent í Ráðhúsi Kaupmannahafnar og boðið upp á sérrí og rjómapönnukökur. Salirnir eru skreyttir gulli og þetta er eins og í höll.“
Aðspurð hvort hana langi til að snerta meira á því að blása gler segir hún að ef hún hefði stofnað glerblásturserkstæði hefði hún ekki gert neitt annað og bætir við að hún hafi varla blásið gler í 30 ár – það hafi hreinlega ekki verið tími til þess. Inga Elín hefur þó gert glerverk, hún hefur hannað verðlaun fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin og hún býr þau til líka, um 36 gripi á ári, auk fleiri viðurkenninga.
Vildi lifa af listinni
Eftir útskrift fór Inga heim staðráðin í að lifa á listinni þrátt fyrir að á þeim tíma hafi verið fáir keramíkerar sem gátu það. „Ég keypti mér ofn og ákvað að ég myndi lifa af þessu og ætlaði ekki fara í kennslu. Ég hefði aldrei verið á þeim stað sem ég er á núna ef ég hefði farið í kennsluna.“
Inga var þá orðin einstæð móðir með tvær dætur og svo bættist Kristinn í hópinn.
„Það gekk upp og niður en mér tókst það samt. Ég seldi verkin mín í nokkrum galleríum en opnaði svo mitt eigið í sama húsnæði og ég er í núna á Skólavörðustíg.
Ég var þar í sjö ár og móðir mín vann hjá mér. Það var allt of mikið fyrir mig eina að sjá um starfsmannahaldið, galleríið og búa til alla munina. Það hefur alltaf verið rosa mikið að gera hjá mér. Núna fellur það í verkahring Kristins að sjá um fyrirtækið, miðlana og reksturinn í kringum þetta. Og veitir ekki af, tímarnir breytast og fyrirtæki verða að vera á samfélagsmiðlum eins og Instagram í dag.“ Inga segist varla hafa undan, það séu endalausar pantanir, bæði hérlendis og erlendis frá.
„Notagildi hluta mömmu er svo mikið og númer eitt hjá henni. Svo eru það smaátriðin, þau skipta miklu máli í hönnun hennar og hafa líka mikið að segja. Ferlið á bak við hvern og einn hluti er flókið. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir hvað ferlið er langt. Það var alltaf draumurinn hjá mömmu að fara meira í að hanna frekar en að vera við rennibekkinn,“ segir Kristinn.
Inga leggur mikið upp úr að þægindi, notagildi og fegurð fari saman.
„Veltibollarnir halda vel köldu, það er lagið sem á stærstan þátt í því að einangra bæði heita og kalda drykki. Bollarnir eru líka mjög flottir undir kokteila, þeir verði hrímaðir að utan. Matardiskarnir eru líka mjög vinsælir og afar sterkir. Bestu meðmælin með þeim eru frá kokkum á þeim veitingahúsum þar sem þeir eru notaðir en kokkarnir segja að þeir endist mun betur en annað leirtau. Hver og einn er sjálfstæður gripur og verðið því hærra en á venjulegum fjöldaframleiddum matardiskum. En það eru ekki allir sem spyrja um verð, vilja heldur eitthvað sem er sérstakt og gæði,“ segir Inga.
Verk Ingu Elínar hafa líka vakið athygli út um allan heim. Elton John er ein þeirra stórstjarna sem keypt hafa verk eftir hana. „Ég talaði við hann í hálftíma, hann keypti tvö verk, skúlptúr og svo skál sem er alltaf kölluð „Elton John-skálin“ eftir þetta,“ segir hún og hlær við.
„Jennifer Gorder er hönnuður sem lagði fyrst inn pöntun á veltibollunum með svörtu mynstri en eftir það fórum við að gera bollana með svörtu mynstri. Sama er að segja um gylltu veltibollana, ég fór til New York og kynntist þar fólki í hönnunarheiminum. Það voru fjársterkir aðilar sem pöntuðu hjá okkur veltibollana í gulli. Eftir það ákváðum við að fara í fulla framleiðslu á gylltu bollunum, gerðum 800 bolla sem kláruðust svo á þremur vikum,“ segir Kristinn. Við erum líka að undirbúa árlegt samstarf með fyrrum heimsmeistara kaffibarþjóna, Fritz Storm, en hann er með kaffifyrirtæki í Danmörku og mikill kaffigúrú. Og þar eru veltibollarnir og hans stærstu kúnnar úti um allan heim fá þessa bolla. Það er fleira fram undan, en ég vil ekki upplýsa um það strax,“ segir Inga Elín.
Stækka framleiðsluna
Kristinn segir að þau séu að stækka framleiðsluna og fá fleiri hendur til að koma að henni þannig að Inga Elín ætti að geta sinnt meira því sem hana langar að gera, skúlptúra.
„Ég elska að búa til skúlptúra, en ég hef lítinn tíma til þess núna en ég lít á bollana mína sem skúlptúr frekar en nytjalist. Bollarnir eru í eina forminu sem ég hef framleitt sem hitnar ekki að utan þó að eitthvað heitt sé í þeim, formið gerir það að verkum.“
Eru Íslendingar hrifnir af að hafa keramík á matborðinu hjá sér? „Já þeir eru það og fólk á öllum aldri kemur að kaupa, unga fólkið hefur komið meira síðan við fórum að vera á Instagram og á þeim veitingahúsunum þar sem matardiskar frá mér eru. Salan hefur þrefaldast annað árið í röð á og ég sé fram á að aukningin verði af svipuðum toga í ár. Við fjármögnum þetta sjálf en draumurinn er að gera líka matarstell,“ segir Inga sem segist jafnframt vera mikill sælkeri og fara mikið út að borða.
Keramík er í tísku. Notagildi keramíkmuna er líka meira en glersins, það er miklu sterkara. Það er upplifun að drekka úr bollunum okkar, það vita þeir sem hafa drukkið úr þeim. En það má nota þá undir ýmislegt annað, t.d. eitthvað matarkyns og líka kerti. Kertastjakarnir mínir eru þannig að kertin geta brunnið niður, það er hægt að gleyma kertinu og mér finnst mikilvægt að kertavaxið leki ekki beint niður, þess vegna eru kertastjakarnir mínir þannig úr garði gerðir að það gerist ekki. Stóru skálarnar mínar eru með hengi aftan á. Það má því nota þær undir t.d. mat en líka hengja þær á vegg,“ segir Inga Elín.
„Notagildi hluta mömmu er mikið og númer eitt. Smáatriðin skipta miklu máli í hönnun hennar og hafa líka mikið að segja, eins og við nefndum áðan varðandi bollana, en þetta má líka sjá í matardiskunum, það má nota þá undir fleira en mat,“ segir Kristinn og bætir við að það megi setja þá í setja uppþvottavél.
Hvaðan færðu þá innblástur í verkin þín? „Bara frá öllu þessu skemmtilega úr umhverfinu. Til dæmis á ferðalögum, ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast og til margra ára fór ég til útlanda með engum fyrirvara. Ég fæ mjög mikið út úr því að ferðast. Bara það að sitja á kaffihúsi og horfa á mannlífið getur veitt mér inspirasjón, ég elska það. Ég hef verið sjálfs mín herra og gat farið þegar mig langaði til útlanda en maðurinn minn er tónlistarkennari þannig að ég geri þetta ekki í dag. Ég er mjög mikil blómakona, við hjónin gerðu upp gamalt hús og garðurinn er ekki tilbúinn en ég hef samt verið með óteljandi blóm. Útlendingarnir koma stanslaust og taka myndir og þeir koma líka mikið í galleríið. Þeir elska munina þar. Það koma líka frægar stjörnur, ein mjög fræg kom og keypti mikið hjá mér fyrir nokkru. Mér fannst ég kannast svo við hana en áttaði mig ekkert fyrr en hún var farin út. Hún hefur líklega verið fegin að fá frið,“ segir Inga og hlær.
Vilja halda sérstöðu fyrirtækisins
Inga Elín og Kristinn segjast ekki vilja ekki fá fjárfesta inn í fyrirtækið þrátt fyrir að það stækki stöðugt og það er ástæða fyrir því. „Við viljum leyfa því að vaxa náttúrulega. Við viljum ekki vera með útþynnt merki sem fæst alls staðar. Við seljum á nokkrum stöðum fyrir utan galleríið á Skólavörðustíg, við erum í Epal og Hrím og nokkrum stöðum úti á landi og ætlum að halda því þannig þannig þar til að við hefjum sölu erlendis, sem er nú þegar á teikniborðinu. Þetta er líka fyrirtæki sem verður aldrei selt en vonandi verður einhver í fjölskyldunni sem tekur við þegar þar að kemur,“ segir Kristinn að lokum.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.