Þjóðin er að eldast. Í hvert sinn sem þessi setning er sögð er gjarnan hnýtt fyrir aftan hana einhverri vá. Ekki nægilega mörg hjúkrunarrými til fyrir allan þennan fjölda, heilbrigðiskerfið sligast undan þunga veikra aldraðra og eftirlaunakerfið springur. Aldrei er minnst á framlag þessa hóps til samfélagsins né heldur hvers virði hann er.
Ímyndin virðist vera sú að eldra fólk sé byrði. Það þurfi mikla þjónustu, dýrt sé að halda því uppi og framlag þess lítið. En er þetta rétt? Samkvæmt erlendum rannsóknum er framlag afa og ömmu til atvinnulífsins í formi barnapössunar ómetanlegt. Margt eldra fólk stundar sjálfboðavinnu og skilar þannig miklum verðmætum til nánasta umhverfis. Þessi hópur, einkum konur, eru einnig virkir notendur menningar og víða heldur hann uppi leikhúsum, tónleikahöllum og öðrum samkomusölum. Mjög margir eldri borgarar eru duglegir að sækja sér menntun og fræðslu og þeir eru virkir neytendur.
Sveinbjörg María Dagbjartsdóttir skilaði árið 2017 meistararitgerð á Félagsvísindasviði, Að láta gott af sér leiða, þar sem hún rannsakaði þátttöku aldraðra í sjálfboðaliðastörfum. Í ljós kom að sjálfboðaliðastörf veittu eldra fólki lífsfyllingu og tilgang og stuðluðu að farsælli öldrun. Hún vitnar í rannsókn, Steinunnar Hrafnsdóttur frá árinu 2007 á viðhorfum sjálfboðaliða til þeirra starfa sem þeir sinntu. Rannsóknin var gerð fyrir Rauða krossinn. Helstu niðurstöðurnar sýndu að mun fleiri konur en karlar sinntu sjálfboðaliðastörfum. Konur voru 72,2% en karlar aðeins 7,8%. Einnig kom í ljós að menn voru líklegri til að sinna sjálfboðaliðastarfi ef þeir höfðu lokið framhaldsmenntun og að meirihluti sjálfboðaliða voru eldri en 45 ára og flestir á aldrinum 65-80 ára eða 23,8%.
Mikill stuðningur við afkomendur
Þetta bendir eindregið til þess að stór hópur fólks sjái það sem tækifæri að geta látið gott af sér leiða eftir starfslok á hefðbundnum vinnumarkaði þegar það hefur rýmri tíma. Það skiptir þennan hóp miklu máli að hjálpa öðrum en 82% svarenda sagði það lykilþátt í að þeir tækju að sér sjálfboðaliðastarf. Auk alls þessa nýta margir tímann eftir að þeir hætta að vinna til að njóta þess að starfa við áhugamál sín. Þau geta snúist um listræna sköpun, íþróttir eða miðlun og fræðslu. Slík störf skila verðmætum hvort sem þau eru launuð eða ólaunuð.
Þær Ingibjörg Harðardóttir og Amalía Björnsdóttu skrifuðu árið 2016 grein undir yfirskriftinni, Eldri borgarar hjálparþurfi eða bjargvættir? Þar kom m.a. fram að framlag eldri borgara til samfélagsins er umtalsvert, en oft hulið. Þær söfnuðu gögnum í símakönnun í júní sama ár og greinin birtist. Þátttakendur voru 706 manns á aldrinum 67-85 ára. Í ljós kom að 62% svarenda hafði sinnt barnagæslu á þeim tíma sem könnunin var gerð. Sumir sinntu henni daglega eða tvisvar til þrisvar í viku eða 37%. 25% höfðu tekið að sér sjálfboðaliðastörf. 17% þátttakenda höfðu hýst afkomendur eða aðra um lengri tíma eftir að eftirlaunaaldri var náð. Auk alls þessa aðstoðuðu eldri borgarar fjölskyldur sínar á ýmsan hátt, til dæmis með fjárhagsaðstoð, með því að ganga í ýmiss störf og sinna viðvikum. Þeir voru öryggisnet þegar eitthvað bjátaði á og hjálpuðu þar sem þörf krafði.
Í þýskri könnun Frauen und Männer in der zweiten Lebenshälfte – Älterwerden im sozialen Wandel. Zentrale Befunde des Deutschen Alterssurveys (DEAS) 2017 kemur m.a. fram að um 27% kvenna á aldrinum 60-65 ára taka þáttt í að annast barnabörn. Um 20% kvenna 55-65 ára annast eða veita skyldmennum aðstoð án þess að þiggja fyrir það laun. Þetta hvort tveggja gera konur í marktækt meira mæli en karlar samkvæmt könnuninni. Þær eru helstu umönnunaraðilar fatlaðra eða langveikra ættingja.
Hið leynda framlag kvenna
Konur á þriðja æviskeiði gegna einnig oft lykilhlutverki í að halda fjölskyldunni saman. Þær eiga frumkvæði að matarboðum og samverustundum. Þær halda sambandi við alla og flytja fréttir á milli. Margar þeirra eru trúnaðarvinir þegar eitthvað bjátar á og veita stuðning og sáluhjálp. Veftímaritið Age International birti nýlega skýrslu undir yfirskriftinni: Older Women: Hidden Workforce. Þar er farið ofan í saumana á hvernig eldri konur vítt og breitt um heiminn veita fjölskyldum sínum stuðning með bæði launaðri og ólaunaðri vinnu. Í þróunarlöndunum eiga þær í fæstum tilfellum rétt á lífeyri og þess vegna vinna þær við matreiðslu, vefnað, spuna, fatasaum, grænmetisrækt, sölumennsku á mörkuðum og ótal margt fleira sem of langt mál væri að telja upp.
Hér á landi njóta konur lífeyris eftir að starfsferli lýkur en það er ekki þar með sagt að þær hætti ólaunaðri vinnu sinni. Sjaldnast er litið til kvenna á eftirlaunaaldri sem verðmætaskapandi þegna. Mjög margar konur prjóna, sauma, rækta, baka og elda ekki bara fyrir sjálfar sig heldur einnig fyrir margvíslegt góðgerðastarf bæði í gegnum félagasamtök og með persónulegum gjöfum til ættingja, vina og þeirra sem þær vita að þurfi stuðning. Það má heldur ekki gleyma arfleifð þessa hóps. Flestar konur á eftirlaunaaldri í dag voru virkar í kvennhreyfingunni á yngri árum og lögðu grunn að þeim réttindum sem ungar konur njóta í dag. Þær hafa lagt á sig aukalega vinnu meðfram öðrum störfum til að breyta viðhorfum samfélagsins og skapa betri heim. Hið sama gildir um aðra mannréttindabaráttu. Sú kynslóð sem nú hefur náð lífeyrisaldri lagði sitt af mörkum til að skapa hér öflug stéttarfélög, opnaði umræðu um réttindamál minnihlutahópa, jók menntunarmöguleika og lagði grunn að margs konar nýsköpun.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.