„Navigare necesse est“ er kjörorð Siglinganefndar skólafélags Kennaraskóla Íslands, sem nokkrir nemendur tóku upp árið 1972. Fimm af helstu forsprökkunum, þeir Sveinn Guðjónsson, Jón Ársæll Þórðarson, Helgi Viborg, Anders Hansen og Viðar Marel Jóhannsson eru enn að störfum í nefndinni, halda reglulega fundi og þykir tilhlýðilegt að sæma sjálfa sig orðu við alls konar tilefni og tækifæri. Eiginkonur þeirra hafa í auknum mæli tekið þátt í nefndarstörfum og voru til að mynda sæmdar heiðursorðu Siglinganefndar á dögunum. Til að fagna 42 ára starfsafmæli sínu hyggjast nefndarmenn senn sigla ásamt frúm sínum á skemmtiferðaskipi um Miðjarðarhafið í tvær vikur – trúir kjörorði nefndarinnar.
Sigling er nauðsyn
Þeim til glöggvunar, sem hvorki eru mæltir né læsir á tungu Rómverja hinna fornu þýðir kjörorð siglinganefndarinnar „sigling er nauðsyn“. Þau munu vera höfð eftir Pompeiusi mikla, sem gerði sér snemma grein fyrir nauðsyn siglinga til að tryggja undirstöður hins forna heimsveldis.
„Siglingin um Miðjarðarhafið hefur lengi verið eitt af stefnumálum Siglinganefndar, með henni er gamall draumur okkar að rætast, enda teljum við okkur vera að uppfylla eitt af markmiðum nefndarinnar, navigare necesse est,“ segir Sveinn. Jón Ársæll tekur í sama streng og segir fátt nauðsynlegra en að sigla til framtíðar. „Við erum reyndar farnir að stytta þessi gömlu, rómversku sannindi í „navví“ og allt í góðu með það, málin þróast og breytast, jafnvel latínan,“ viðurkennir hann.
Allmargir tengdust Siglinganefndinni með einum eða öðrum hætti í fyrstu, en í áranna rás fækkaði í hópnum og eru fyrrnefndir félagar nú þeir einu sem halda merkjum hennar á loft. „Tildrög þess að nefndin var sett á laggirnar voru þau að nokkur spenna hafði ríkt um framboð formanns skólafélags Kennaraskólans, sem margir höfðu áhuga á. Svo fór að nokkrir sættust á að bjóða sig fram í siglinganefnd á vegum skólafélagsins, sem var í raun óstarfhæf, en hafði yfir að ráða gömlum árabáti í niðurníðslu. Allt í einu vorum við orðnir fimm formenn þessarar nefndar og þá upphófst fjörið. Við stóðum fyrir böllum og útihátíðum, meðal annars í Saltvík þar sem boðið var upp á kokteil úr fjölritunarspritti og fleiri efnum og kallaður var Blái engillinn,“ rifjar Jón Ársæll upp og kveðst ekki hafa hugmynd um afdrif árabátsins.
Fastheldnir á gamla siði
Þótt fimmmenningarnir hafi allir stundað nám í Kennaraskólanum, hefur enginn þeirra gert kennslu að lifibrauði sínu. Sveinn er tónlistarmaður, lék með Roof Toops á sínum sokkabandsárum, en starfaði lengst af sem blaðamaður og lét nýverið af starfi sem skrifstofustjóri Oddfellowreglunnar á Íslandi. Jón Ársæll er menntaður sálfræðingur, en gerðist blaðamaður og fréttamaður og hefur stjórnað þættinum Sjálfstætt fólk á Stöð 2 í ríflega aldarfjórðung, Helgi Viborg er starfandi sálfræðingur með eigin stofu, Anders Hansen var blaðamaður og blaðaútgefandi, en söðlaði um fyrir mörgum árum og gerðist hrossabóndi og hótelrekandi, og Viðar Marel er athafnaskáld og einn mesti timburinnflytjandi landsins.
Vart þarf að taka fram að þeir eru öllu settlegri en forðum daga þegar þeir sem formenn nefndarinnar stóðu fyrir böllum og buðu samnemendum sínum upp á görótta drykki og annað í þeim dúr. Þeir eru þó fastheldnir á gamla siði, t.d. finnst þeim fráleitt að leggja af orðuveitingar og mæta jafnan orðum prýddir á fundi og hátíðarsamkomur. „Anders Hansen var á fyrsta starfsári nefndarinnar útnefndur sérstakur „Vinur Siglinganefndar“ og sæmdur orðu, sem minnti um margt á hina frægu orðu „Vinur Sovétríkjanna“,“ segir Sveinn. „En með íslensku yfirbragði,“ skýtur Jón Ársæll inn í og segir orðuna ætíð hafa gegnt þýðingarmiklu hlutverki í starfsemi Siglinganefndar. Fyrstu orðuveitinguna segja þeir hafa verið umdeilda, enda hafi Anders þá verið gjaldkeri Skólafélags Kennaraskólans og því hefði verið ýjað að spillingu. Þegar sýnt var með óyggjandi hætti fram á að svo var ei og hann væri vel að orðunni kominn féll allt í ljúfa löð.
Allt sem við þurfum er ást
Heiðursorðurnar sem eiginkonur nefndarmanna voru sæmdar segja þeir vera í takt við breyttan tíðaranda varðandi jafnrétti kynjanna, sem nefndin leggi mikla áherslu á sem og sömu laun fyrir sömu vinnu. „Og frelsi til ástar og trúar, frið á jörðu og vopnasölubann,“ þylur Jón Ársæll og gæti haldið lengi áfram í upptalningu á fögrum sjónarmiðum Siglinganefndar.
Allt sem við þurfum er ást segja þeir félagar vera annað og ekki síðra kjörorð nefndarinnar en navigare necesse est þegar öllu sé á botninn hvolft. Og Siglinganefnd sé einfaldlega hópur gamalla skólafélaga sem haldið hafa hópinn í næstum hálfa öld og oft lyft glasi þegar stundin er rétt. Sú stund er á næsta leiti á siglingu við sólríkar strendur Miðjarðarhafsins.