Safaríkt lamb á beini sem eldar sig sjálft

Lambaframparturinn er settur í ofninn að kveldi og látinn bakast þar í 24 tíma. Það passar að á sama tíma daginn eftir er hann tilbúinn til framreiðslu. Á þeim tíma eru gestgjafar búnir að vera fjarverandi við annað því ekki þarf að sitja yfir eldamennskunni. Lambaframparturinn eldar sig sjálfur 🙂

1/2 lambaframpartur á beini

salt og nýmalaður pipar

1 búnt ferskt tímían

8-10 hvítlauksrif, söxuð gróft

Kryddið kjötið með salti og pipar. Setjið frampartinn í ofnskúffu og leggið hvítlaukinn og tímíanið bæði ofan á og undir. Bakið við 60 gráður C í 24 klst. Hækkið hitann í 200 gráður og bakið áfram í 10 mínútur eða þar til framparturinn verður fallega brúnn. Berið fram með blönduðu, bökuðu rótargrænmeti með kartöflum í og salati. Með þessari eldunaraðferð verður kjötið svo meyrt og safaríkt að sósa er ekki nauðsynleg með en ef fólk vill kemur hvaða sósa sem er til greina. En við mælum með klettakálspestói líkt og hér er uppskrift að:

1 poki klettakál

5 hvítlauksrif

2 msk. furuhnetur

2 msk. rifinn parmesanostur

1 msk. ljóst balsamedik

1 msk. sítrónusafi

1 msk. hunang

2 dl olía

salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið saman.

 

 

 

Ritstjórn apríl 8, 2022 08:00