Helgarsalat fyrir alla

Matarmikið og litfagurt helgarsalat

Þetta salat er tilvalið þegar bjóða á gestum með ólíkar þarfir. Upphaflega voru lambalundirnar sneiddar niður og blandað saman við salatið en ef þær eru hafðar heilar, líkt og hér er gert, er einfalt að bera þær fram sér og þannig geta grænmetisætur fengið sér fylli sína og þeir sem kjósa að hafa kjötið með geta gert það.

Salat með steiktum/grilluðum lambalundum

Þetta matarmikla salat er fyrir fjóra en auðvelt er að fjölga gestum á síðustu stundu og auka við hráefnið og hafa nóg fyrir alla. Litfagurt salatið er  fyrir fólk á öllum aldri og salatolían er dásamleg.

Þessi uppskrift er fyrir fjóra:

  • 4 – 6 lambalundir, u.þ.b. 400 g
  • blandað salat, hægt er að fá tilbúið og niðursneitt í pokum
  • 1 rauð og 1 gul paprika, skornar í bita
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn smátt
  • 1 lítil sæt kartafla eða ½ stór, skorin í sneiðar og steikt í olíu
  • 1 kúrbítur, sneiddur og steiktur í olíu
  • brokkólíhöfuð, brotið í sundur og soðið í 5. mín

Salatolía:

  • 2 dl ólífuolía
  • 2 msk. sojasósa
  • 1 tsk. hunang
  • 2 hvítlauksrif, marin eða skorin smátt
  • svolítið maldon salt

Setjið salatolíuna saman og dreifið nokkrum msk. yfir lambalundirnar á meðan hráefnið í slatið er útbúið. Steikið sætu kartöfluna og kúrbítinn og sjóðið brokkólíið. Steikið eða grillið lambalundirnar, allt eftir því hversu vel lundirnar eiga að vera steiktar. Kjötið verður þurrara eftir því sem það er meira steikt.

 

Ritstjórn september 22, 2017 14:12