Björgvin Guðmundsson greinir frá því á Facebook síðu sinni, að mikill áhugi sé á því í Félagi eldri borgara í Reykjavík, að fara í mál við ríkið til þess að fá því hnekkt, að lífeyrir eldri borgara hjá Tryggingastofnun sé skertur, af þeirri ástæðu að þeir hafi lífeyri úr lífeyrissjóði. Tillaga hafi verið flutt í stjórn félagsins um að hefja undirbúning að málssókn.
Þegar lífeyrssjóðirnir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því, að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar.Sennilega hefði enginn greitt í lífeyrissjóð, ef þeir hefðu átt að valda skerðingu almannatrygginga.Öllu verkalýðsfólki, sem kom að og fylgdist með stofnun lífeyrissjóðanna, ber saman um, að þeir hafi átt að vera viðbót við almannatryggingar.Það var aldrei minnst á það, að þeir ættu að valda skerðingu almannatrygginga.Þetta er ef til vill þungamiðja málsins: Það var forsenda fyrir stofnun lífeyrissjóða og greiðslu launþega í þá, að þeir yrðu hrein viðbót við almannartryggingar.Eldri borgurum, sjóðfélögum í lífeyrissjóðum finnst því sem það sé komið aftan að þeim.Þeir hafi verið blekktir.Það sé með óbeinum hætti verið að taka aftur hluta af þeim lífeyri,sem þeir hafi sparað á starfsævi sinni.Þessu verði að hnekkja.Ella sé grundbvöllur lífeyrissjóðanna ef til vill brostinn.
segir Björgvin í Facebook færslu sinni og segir jafnframt að félögum í Félagi eldri borgara í Reykjavík sé ljóst,að það krefjist mikils undirbúnings að fara í mál við ríkið til þess að hnekkja skerðingunum. Það þurfi að safna upplýsingum því til staðfestingar, að lífeyrissjóðirnir hafi átt að vera viðbót við almannatryggingar. Þá vinnu verði að hefja strax.