Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar
Síminn minn hringir stundum sjálfur í fólk, alveg án þess að ég komi þar nokkurs staðar nærri. Ég sver það! Ég hef kannski lagt símann á borð og vikið mér frá, og viti menn, eftir nokkrar mínútur hringir hann í einhvern úti í bæ alveg án þess að mannshöndin komi þar nokkurs staðar nærri. Ég reyni auðvitað að stöðva þetta eins fljótt og ég get, en það tekst ekki alltaf. Stundum verður það til þess að maður fer að spjalla við fólk úti í bæ og ef vel vill til einhvern sem maður hefur ekki heyrt í lengi og það getur verið virkilega gaman. Stundum hef ég haft áhyggjur af að síminn fari að hringja í einhvern um miðja nótt, þegar ég er steinsofandi á mitt græna eyra.
Ég lendi stundum í því sjálf að vinir mínir hringja „óvart“ í mig. Hafa rekið sig í símann, eða þá að hann hefur bara tekið það upp hjá sjálfum sér að hringja í mig. Einu sinni fékk ég skemmtilegt SMS frá kunningja mínum, sem er strangheiðarlegur maður. Hann skrifaði: Klukkan 4:52 í nótt virðist sími minn hafa hringt í þinn síma. Mér er gjörsamlega útilokað að skilja hvernig þetta hefur gerst. Eina skýringin er, þó fráleit og fjarstæðukennd sé, að ég hafi rekið mig í símann og hann hafi við það af einhverjum ástæðum hringt, og af einhverjum ástæðum til þín. Að öðru leyti finnst mér þetta mjög dapurlegt og erfitt að þurfa að endurreisa mannorð mitt þegar svona gerist. Ég bið þig innilega að fyrirgefa þetta. Þú mátt treysta því að ég er ekki sú auma manntegund sem hringir í konur á dimmum nóttum. Lifðu heil … og svo skrifaði hann fullt nafn og starfsheiti undir.
Er nema von að maður fari að óttast að lenda í viðlíka hremmingum, sérstaklega þegar síminn virðist ekki láta að stjórn og geta hringt hvert sem er, já og í hvern sem er, jafnvel um miðjar nætur. Á síminn minn kannski eftir að hringja í Bubba Mortens, Hallgrím Helgason, Bjarna Ben eða Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um miðja nótt? Það væri hörmulegt.
Þetta leiðir líka hugann að ýmsu sem fram fer í snjallsímanum mínum og ég átta mig eiginlega ekkert á. Voru kannski leiðbeiningar með símanum? Ég er búin að gleyma því, en ef svo var eru þær örugglega týndar. Stundum hef ég lagt leið mína til símafyrirtækisins míns, Nova, til að spyrja útí ýmislegt. Ég fór til dæmis og bað ungan starfsmann þar um að sýna mér hvernig ég gæti fengið tónlist í símann, eða Spotify. Hann var ákaflega elskulegur og sagði mér að mamma sín hefði líka þurft aðstoð með þetta. Þetta var einfalt og ekki seinna vænna því ég var nýbúin að uppgötva að öll tónlist er komin í tölvur og síma og tími til kominn að henda geislaspilaranum gamla, enda er hann að syngja sitt síðasta.
Þá eru það öppin. Mér hefur tekist að hlaða niður bankaappinu mínu, en mér gekk ekkert sérstaklega vel að nota það, þannig að það gleymdist og nú er ég búin að gleyma PIN-númerinu í bankaappinu, hvað geri ég þá? PIN-númer og lykilorð eru svo sérkapítuli sem hægt væri að skrifa um langar greinar, enda eru þau orðin óteljandi. Miðar með lykilorðum og PIN-númerum flæða uppúr öllum skúffum hjá mér. Vinkona mín er með gönguferða-app í sínum síma. Þegar við förum út að ganga tekur hún bæði tímann og vegalengdina sem við göngum, en ég kann ekki á það og treysti mér varla til að finna þetta blessaða app. Ég frétti líka af mjög sniðugu appi, sem telur ofan í þig kalóríurnar yfir daginn og þannig getur þú stjórnað því nákvæmlega hversu mikið þú borðar og náð að stöðva aukakílóin sem alltaf eru á fljúgandi ferð í „kosmosinu“ að reyna að setjast á þig. Ég man ekki hvað appið heitir og held að það sé mjög flókið að finna út úr þessu, þannig að kannski enda ég sem fitubolla, eða það sem verra er, offitusjúklingur. Allt vegna þess að ég kann ekki á nýjustu tækni.
Það er samt eitt sem ég veit, ég get alveg lært þetta. Það tíðkast að halda námskeið í öllu mögulegu, en ég hef hvergi séð námskeið sem til dæmis myndi kenna mér betur á myndavélina í símanum, eða útskýra þessi öpp fyrir mér og kenna mér á þau. Hvernig ætli standi á því að enginn býður uppá slíkt?