Könnun sem bandarísku eftirlaunasamtökin AARP létu gera, sýnir að það er hreint ekki þannig að menn hafi neikvæða afstöðu til þess að eldast. Þannig er mun skemmtilegra að eldast, en yngra fólk ímyndar sér. Samkvæmt könnuninni sem ber saman viðhorf mismunandi aldurshópa til ellinnar, er yngsti hópurinn neikvæðastur í viðhorfi sínu til þess að eldast, en elsti hópurinn mun jákvæðari. Það er rétt að taka fram að þetta er ekki splunkuný könnun, en segir sitthvað um afstöðu þessara aldurshópa.
Næstum helmingur fólks á aldrinum 18 – 39 ára telur, að það sé algengt að gamalt fólk sé þunglynt. En þeir sem eru sextugir og eldri eru ekki endilega þeirrar skoðunar. Einungis 28% þeirra telja að það sé algengt að eldra fólk þjáist af þunglyndi og einungis 10% þeirra telja að það sé ömurlegt að verða gamall.
Og hverjir skyldu vera óánægðastir með líf sitt. 40% fólks í yngsta hópnum segist vera frekar eða mjög óánægt með líf sitt, á meðan 33% þeirra sem eru sextugir og eldri segjast vera það en einungis 28% þeirra sem eru á aldrinum 40-59 ára.
Þegar þessir aldurshópar voru inntir eftir skoðunum sínum á andlegum, líkamlegum og félagslegum hliðum þess að eldast, var yngsti hópurinn yfirleitt alltaf neikvæðari en elsti hópurinn. 32% yngsta hópsins telur þannig að það dragi úr bjartsýni fólks þegar það eldist á meðan 17% elsta hópsins er sömu skoðunar. 26% þeirra yngstu telja að þeir verði hægari aldlega með aldrinum en 14% elsta hópsins telur svo vera. 31% yngsta hópsins telur að það verði erfiðara að vakna og komast í gang á morgnana þegar við eldumst, á meðan 18% elsta hópsins telur svo vera. Hóparnir voru spurðir hvort þeir héldu að það drægi úr félagslegum samskiptum fólks með aldrinum. 42% yngsta hópsins töldu að sú væri raunin á meðan 27% sextugra og eldri voru þeirrar skoðunar. Milli aldurshópurinn var þarna mitt á milli.
Jo Ann Jenkins formaður AARP, segir könnunina staðfesta þar sem margt eldra fólk veit, að efri árin geti verið frábær. „Hún sýnir líka að það eru margvíslegar hugmyndir á kreiki um hversu neitkvætt það er að eldast, sem eru oft beinlínis rangar“, segir hún.
En þó eldra fólk líti líf sitt tiltölulega björtum augum, þá finnst því viðhorf neyslusamfélagsins til sín furðu neikvætt. Um 80% þeirra em eru sextugir og eldri telja að tískubransinn þjóni yngri viðskiptavinum betur en þeim. Þannig sé það einnig með tækniiðnaðinn (70%), íþróttageirann (72%) og afþreyingariðnaðinn (60%).
Aldurshópurinn 40-59 ára hefur ekki sömu afstöðu til þessa og elsti aldurshópurinn. 71% telja tískuiðnaðinn þjóna unga fólkinu betur, 66% telja tækniiðnaðinn gera það og 61% íþróttageirann. 57% telja afþreyingariðnaðinn þjóna yngra fólki betur en þeim sem eldri eru. Yngsti hópurinn á erfiðast með að sjá að hann hafi eitthvert forskot á þá sem eru eldri. 59% hans telur tískuiðnaðinn þjóna yngra fólki betur, 54% telja tækniiðnaðinn gera það, 47% íþróttageirann og 49% telja afþreyingariðnaðinn þjóna yngra fólkinu betur en því eldra.
„Þrátt fyrir mikla fjölgun þeirra sem eru sextugir og eldri í samfélaginu, er ekki mjög algengt að vörur og þjónusta sem eru sérhannaðar fyrir þennan hóp séu settar á markaðinn“ segir Jenkins, jafnvel þótt þessi hópur eyði meira en 7,1 billjón Bandaríkjadala á ári.
Könnunin náði til rúmlega 2.600 Bandaríkjamanna.