Tengdar greinar

Skiptir ekki máli hvort menn búa í Tíbet eða Tungunum

Kristinn Ágúst Friðfinnsson

„Á aðventunni rifjar fólk upp söguna um fæðingu Jesú og endar á því að hlýða á jólaguðspjallið á aðfangadagskvöld“, segir séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson. „Ég vil meina að í þessum sögum sé ákveðinn gundvallarþáttur sem svarar djúptækri þörf í sál hvers einasta manns, án tillits til þess hverju hann trúir. Þessi grundvallarþáttur er hafinn yfir alla flokkadrætti og höfðar til allra í veröldinni, sama hverrar trúar þeir eru og hvaða lífsskoðun þeir hafa. Það skiptir ekki máli hvort þeir búa í Tíbet eða Tungunum“.

Sameiginleg djúpvitund tengir allar manneskjur

Kristinn Ágúst styðst við kenningar Carls Gustavs Jung, sem var svissneskur samverkamaður Sigmunds Freud. Hann segir að þeir hafi verið samherjar sem þróuðust í sitt hvora áttina, þannig að leiðir hlaut að skilja. „Jung kemur með þessar spennandi hugmyndir um erkitýpur í djúpi sálarinnar, sameiginlega djúpvitund sem tengir allar manneskjur saman. Við finnum fyrir því að við erum öll eitt. Útfrá þessari Jungisku hugsun sjáum við að manneskjan hefur djúpa þörf fyrir þá grundvallarþætti sem eru í jólasögunni“.

Grundvallar þarfir manneskjunnar

Kristinn tiltekur fimm grunnþarfir manneskjunnar sem skýra það hvers vegna hún tengir við jólaguðspjallið.

  1. Þörfin fyrir hlýju, umhyggju og utanumhald, sem birtist okkur í Maríu mey.
  2. Þörfin fyrir vernd styrk og festu, sem Jósep er táknmynd fyrir.
  3. Þörfin fyrir hreinleika, sakleysi og nýtt upphaf, sem kristallast í Jesúbarninu.
  4. Þörfin fyrir að hverfa aftur til náttúrunnar, en fæðing Jesú á sér stað í náttúrulegu umhverfi í fjárhúsi í sveit.
  5. Þörfina fyrir þá meðvitund að það sé til eitthvað sem er máttugra en við sjálf, en það birtist okkur í stjörnum prýddum himingeimi.

Andstæðingar trúarinnar hafa sömu þörf og aðrir

„Þegar þessar þarfir eru hafðar í huga tel ég að það sé sama hvar fólk stendur, það geti allir fengið mikla og djúpa næringu út úr að hlusta á þessa sögu. Hörðustu andstæðingr trúarinnar hafa sömu þörf og aðrir fyrir þá eiginleika sem þar birtast, hún er sammannleg“, segir Kristinn, sem er mikill áhugamaður um kenningar Jungs. Hann hefur líka annað áhugamál, sem er að fylgjast með hamingjurannsóknum. Mikill fjöldi rannsókna hefur verið gerður á þessu sviði og Kristinn segir að fyrir 2-3 árum hafi ný boð komið frá Harvardháskólanum í Bandaríkjunum þar sem lýst var þeirri niðurstöðu vísindamanna að kjarninn í öllum hamingjurannsóknum væri að hamingjan snerist um tengsl.

Jólaguðspjallið færir vellíðan

„Það eru þrenns konar tengsl sem þarna er rætt um, tengsl við sjálfan sig, tengsl við annað fólk og tengsl við náttúruna“, segir Kristinn og bætir við að fleira sé nefnt sem lykillinn að hamingjunni svo sem eins og það að hafa tilgang í lífinu, að ráða einhverju um eigið líf og fleira, en aðalkjarninn sé tengslin. „ Það er mín niðurstaða að kjarninn í hamingjurannsóknunum, rími vel við þessa Jungisku túlkun á jólaguðspjallinu.  Okkur líður vel þegar við rifjum upp söguna, tengjumst sögupersónunum og fólkinu í kringum okkur. Heyrum nánast skepnurnar éta heyið í fjárhúsinu í Betlehem þar sem Jesú fæddist og sjáum fyrir okkur stjörnubjartan himinn“.

Ritstjórn desember 24, 2018 16:05