Dóttir mín, sem er móðir tveggja barnabarna minna, er menntaður kennari ungra barna. Hún skipuleggur árlegan ömmu- og afadag og hvetur nemendur sína til að bjóða öðru hvoru þeirra, eða báðum, í skólann með sér. Einn hápunktur þessa dags er þegar börnin spyrja ömmu og afa hvernig skólinn sem þau sóttu hafi verið þegar þau voru lítil. Dóttir mín segir að þessar sögur slái alltaf í gegn.
Engin ástæða er til að bíða þangað til þessi tiltekni dagur renni upp til að slá í gegn hjá barnabörnunum. Það gerum við hvort sem er um leið og við fræðum þau um gamla tíma sem eru jú hluti af þeim líka. Börn á öllum aldri eru undantekningalítið gagntekin af fjölskyldusögum. Þau njóta þess að heyra um hvernig amma og afi voru áður en þau urðu “amma og afi”. Sömu sögu er að segja um frásagnir af mömmu og pabba. Svo þreytast þau aldrei á sögum þar sem þau eru sjálf í aðalhlutverki.
Sögur af forfeðrunum gefa börnum jákvætt viðhorf gagnvart eldri ættingjum. Líflegar sögur til að geyma og minnast þeirra sem þau elska og elska þau til baka. En þótt ljóst sé að í hverri fjölskyldu séu einstakar sögur sem eru þess virði að deila með börnum eru hér sex dæmi um sögur sem vefurinn Consicerable.com, segir að verði ævinlega vinsælar hjá barnabörnunum.
HVERNIG ÞÚ HITTIR AFA/ÖMMU?
Þessi saga er saga um upphafið og er grunnurinn undir allar sögur sem sagðar verða. Voruð þið skólasystkini? Var það ást við fyrstu sýn? Hvað gerði ykkur taugaóstyrk? Hvað fékk ykkur til að hlæja? Hvenær vissuð þið að hann/hún var sá/sú rétta? Barnabörnin munu ekki aðeins njóta þess að heyra söguna af því heldur líka að sjá angurværan glampa í augum ykkar þegar þið minnist fyrstu ástarfunda ykkar.
DAGURINN ÞEGAR FORELDRAR BARNABARNSINS FÆDDUST
Fyrst urðuð þið ástfangin, svo giftuð þið ykkur og síðan fæddust foreldrar þeirra. Svona eru margar sögur en þó ekki allar en hvernig sem leiðin lá er sagan áhugaverð fyrir börnin. Segið þeim frá dýrlegum deginum þegar foreldrar þeirra komu í heiminn, en sleppið auðvitað sögunum um erfiðu hríðirnar. Að hugsa sér mömmu eða pabba sem krumpað nýfætt barn en samt svo dásamlegt og fyndið.
DAGURINN SEM BARNABARNIÐ FÆDDIST
Talandi um dásamlegan dag! Þessi dagur skiptir meira máli en nokkur annar í augum barnsins. Þau hafa eflaust heyrt mömmu og pabba segja frá honum en þau hafa ekki síður gaman af að heyra ömmu og afa sjónarhorn. Voruð þið til dæmis viðstödd fæðinguna. Eða voruð þið langt í burtu með símann í kjöltunni allan daginn að bíða frétta af viðburðinum sem átti eftir að breyta öllu ykkar lífi um ókomin ár. Fóruð þið að hlæja eða gráta og hvernig var tilfinningin þegar þið fenguð að knúsa barnabarnið í fyrsta sinn?
SKÓLASÖGUR
Þegar barnið byrjar í leikskóla og alla leið í gegnum menntaskóla verða til óteljandi reynslusögur. Segið barninu ykkar reynslu af kennurum og skólafélögum, námsfögum sem þið voruð hrifin af eða ykkur leiddist, óvenjulegum íþróttum o.s.frv. Af hverju var uppáhaldskennarinn ykkar í uppáhaldi. Genguð þið í skólann eða var ykkur ekið? Og þar sem matartíminn er oft skemmtilegasti tími dagsins vilja þau oft vita hvernig eftirmiðdagarnir hafi verið í ykkar æsku. Sumt er sjálfsagt mjög ólíkt því sem er í þeirra lífi en annað gæti verið eins.
FYRSTA ATVINNAN YKKAR OG SKEMMTILEGASTA VINNAN
Reynslan af fyrsta starfinu leggur meira til en bíópeninga, nýja hæfni, tilgang og skilning á veröldinni fyrir utan heimilið. Í fyrsta starfinu verða til fyrstu fyrirmyndirnar utan fjölskyldunnar. Barnabörn sem eru komin að því að sækja um vinnu, allt frá barnapössun og garðslætti til atvinnu eftir menntaskóla munu tengja sérstaklega við sögur frá ömmu og afa um hvernig þau skuli haga sér í þessari leit.
STUNDIR SEM ÞIÐ ERUÐ STOLTUST AF
Að vera stoltur af sjálfum sér er öflugt og jákvætt vopn og það er ekki til auðveldari leið til að hvetja og kenna börnum þetta stolt en að segja þeim sögur af augnablikum þegar þið voruð hvað stoltust í lífinu. Tengjast þessi augnablik skapandi viðburðum eða tengjast þau þjónustu við fjölskylduna, samfélagið eða landið ykkar. Kannski var það augnablikið þegar það rann upp fyrir þér að þú stóðst jafningjaþrýsting, tókst að þér einhverja ábyrgð eða sigraðist á áskorun. Við að deila slíkum sögum með barni eru líkur á að það íhugi að bregðast eins við og læri að sýna stolt.
Lestur góðra bóka fyrir börn býr til ómetanlegan og eftirminnilegan tíma fyrir barnið. Næst þegar barnabarnið ykkar biður um sögu fyrir svefninn skaltu segja því sögu úr eigin lífi. Fjölskyldusögur fanga huga barnabarnanna ykkar langt út fyrir háttatímann. Þær skemmta og upplýsa þau alla þeirra ævi.
Höfundur þessarar greinar er Lisa Carpenter en hún er móðir, amma og höfundur bloggsins Grandma´s Briefs. Nú er t.d. áhugaverð grein um haustið inni á bloggsíðu hennar sem er á þessari slóð:
https://www.grandmasbriefs.com/home/fall-favorites
Þessi grein birtist áður á Lifðu núna vefnum, í nóvember 2019.