Spánverjar nota ferska hráefnið sitt á mjög skemmtilegan hátt og er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Nú er allt ferska grænmetið okkar komið í verslanir og það eigum við að nýta vel. Hér er uppskrift að tómatasalati í anda Spánverja en með smá tilbrigðum.
1 kg ferskir tómatar við stofuhita, sneiddir niður
1 rauðlaukur, sneiddur fínt
1 msk. hunang
búnt af steinselju, gróft skorið
2 msk. sherry edik
4 msk. ólífuolía
2 hvítlauksrif
80 g ristaðar möndluflögur
6 sneiðar af hráskinku, t.d. frá Serrano
og í stað pamesanostsins sem er í uppskriftinni notum við nýju skagfirsku ostana sem heita Feykir, Grettir og Reykir. Í þessu tilfelli átti Feykir óskaplega vel við. Goðdalir er fornt heiti yfir Skagafjarðadali.
Skref 1
Sneiðið tómatana í fremur þunnar sneiðar og raðið á stóran disk ásamt lauksneiðunum. Dreifið maldonsalti og hunangi yfir og látið standa í allt að 30 mín. eða á meðan edikssósan er útbúin.
Skref 2 — edikssósa útbúin
Setjið steinselju, edikið, olíuna, hvítlauksrifin, helminginn af möndluflögunum og salt í matvinnsluvél og maukið saman. Ef blandan verður þykk þá skuluð þið bæta nokkrum dropum af vatni saman við.
Skref 3
Þræðið hráskinkuna inn á milli tómatsneiðanna og lauksins. Dreypið salatsósunni yfir og dreifið afganginum af möndluflögunum yfir og svo Goðdalaostinum. Dreifið að lokum nokkrum dropum af ólífuolíu yfir salatið.