Í raun er Riga lítil borg. Það er auðvelt að rata um hana og þar er að finna suðupott margvíslegra áhrifa frá ýmsum menningarsvæðum. Þess vegna má auðveldlega finna þar spennandi veitingahús, kaffihús og matsölustaði og margt kemur verulega á óvart.
Ef ferðalangurinn er hrifinn á austurlenskum mat er marga og margvíslega staði sem byggja á asískum matarhefðum og handan við hornið rekst maður á pizzastaði og notaleg veitingahús með ítölskum mat. Ef einhvers konar þrá eftir breskum götumat grípur hann má finna djúpsteiktan fisk með frönskum og víða eru dásamlegar kökur að finna og dreypa á fyrirtakskaffi með.
En ekki þarf að leita langt yfir skammt. Latneskur matur er gómsætur, enda Lettland frjósamt og þar er mikil landbúnaðarhefð. Íbúar lifðu af því sem landið og Eystrasaltið gáfu af sér og ævinlega var eldað það sem ferskast var og best hverju sinni. Hið sama gildir að sjálfsögðu enn í dag og matreiðslumenn í Riga vanda sig við að halda í hefðirnar en nýta nýjungar og ný áhrif sem allra best.
Eðlilega má greina rússnesk áhrif hvað varðar eldunaraðferðir, hráefni og umbúnað matar, enda ekki skrýtið því Rússland er bæði nágranni þeirri og fyrrum yfirráðaþjóð. Lettneskur matur, rétt eins og rússneskur er seðjandi, nærandi og góður. Meðal þess sem algengt er að borið sé fram er hvítlauksbrauð og rúgbrauð. Þeir nýta rúgbrauðið vel rétt eins og Íslendingar og víða er boðið upp rúgbrauðsbúðing í eftirrétt. Baunir eru einnig þekkt uppistaða í mörgum réttum og þær eru gjarnan eldaðar í spekki eða svínafitu. Það er mjög gott. Rauðrófur eiga einnig sinn sess í réttunum, nautakjöt á ýmsa vegu og ótalmargt fleira.
Hér eru nokkrir staðir sem gaman er að heimsækja til að borða í Riga:
Kolonade er sælkerastaður rétt við Bastejkalna garðinn, nálægt frelsisminnismerkinu. Gestir hafa frábært útsýni yfir miðborgina og maturinn er einstaklega gómsætur. Kokkurinn byggir á lettneskum hefðum og fiskur er í öndvegi á matseðlinum.
Rozengrāls er annar spennandi staður. Hann er staðsettur í gamalli byggingu við Rosena-götu og þemað er miðaldir. Innréttingar, borðbúnaður, þjónar og matur endurspegla það. Hann er aðeins lýstur með kertum og það er virkilega skemmtilegt og rómantískt að taka fullan þátt í ævintýrinu.
Folkklubs Ala Pagrabs í gamla bænum er enn annar hefðbundinn staður. Þar er meðal annars boðið upp á lettneskar kjötbollur sem eru sannarlega ekki síðri en þær sænsku og ítölsku.
Indian Raja Skārņu-götu býður dásamlegan og fjölbreyttan indverskan mat. Staðurinn er í miðbænum og auðvelt að finna hann. Hið sama gildir um annan indverskan stað Singhs við Ģertrūdes-götu 32.
Tēvocis Vaņa eða Vanja frændi býður hefðbundinn rússneskan mat og notalegt andrúmsloft. Rossini er frábær ítalskur staður og Alverdi býður georgískan mat. Ef menn eru ævintýragjarnir er gaman að heimsækja hann og einnig Uzbegims en þar er eldað eftir úsbekistönskum hefðum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.