Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Marie Tharp er vísindakona sem allir á Íslandi ættu að þekkja.
Oft hafa heyrst sögur af vísindakonum sem gerðu mikilvægar uppgötvanir, en fengu ekki þá viðurkenningu fyrir þær sem þeim bar. Þess í stað féll heiðurinn af verkum þeirra í skaut karlkyns samstarfsmanna þeirra. Ein slík saga er saga bandarísku jarðvísindakonunnar Marie Tharp, en hún var fyrst til að uppgötva flekaskilin á milli Ameríku og Evrópu, flekaskilin sem liggja eftir Mið-Atlantshafshryggnum frá suðvestri til norðausturs upp að strönd Íslands og undir það og áfram norður í Íshafið.
Marie Tharp fæddist árið 1920 í bænum Ypsilanti í Michigan. Faðir hennar vann við jarðvegskortagerð fyrir bandaríska landbúnaðarráðuneytið. Vegna starfa hans var fjölskyldan sífellt að flytja og þegar Marie lauk stúdentsprófi hafði hún verið í meira en tuttugu skólum. Fyrir vikið eignaðist hún fáa vini, og þess í stað urðu bækur hennar bestu félagar. Einnig aðstoðaði hún föður sinn við vinnu hans og fékk snemma mikinn áhuga á jarðefnum, jarðfræði og kortagerð og dreymdi um að verða jarðfræðingur. En það var ekki auðsótt mál.
Fram að heimsstyrjöldinni síðari var konum meinaður aðgangur að jarðfræðideildum bandarískra háskóla. Jarðfræðirannsóknir kröfðust verklags, sem ekki var talið við hæfi kvenna: mikillar útivistar og áhættusamra ferða um fjöll og firnindi. Þegar Bandaríkin gerðust aðilar að stríðinu fækkaði karlkyns jarðfræðinemum og fyrir vikið var konum veittur aðgangur að jarðfræðideildum bandrískra háskóla. Marie var ein í hópi tíu kvenna sem hófu nám í jarðfræði við Michigan háskóla haustið 1943. Auk jarðfræði lagði Marie stund á stærðfræði og kortagerð.
Að að námi loknu vann hún við ýmsis störf, en árið 1948 var hún ráðin sem kortagerðamaður við Lamont Geological Observatory við Kolumbíuháskóla í New York. Yfirmaður hennar var jarðfræðingurinn Bruce Heezen.
Á þessum tíma var kaldastríðið hafið og var þess vænst að kafbátahernaður yrði ein aðal hernaðartækni hins nýja stríðs. Höf þekja 71% af yfirborði jarðar og á þessum tíma var botn sjávar nær alveg ókannaður, en nú var talið nauðsynlegt að kortleggja hann til að tryggja kafbátum örugga leið um hin dimmu undirdjúp milli stórveldanna tveggja Bandaríkjanna og Rússlands.
Sónartæknin, sem varð til á stríðsárunum, var nýtt við sjávarmælingar og hófust nú víðtækar mælingar á sjávarbotninum. Marie Tharp var meinuð þátttaka í þessum mælingum, sjávarmælingaskip voru einungis mönnuð körlum. En það féll í hennar skaut að greina og túlka upplýsingarnar, sem safnað var um borð í þessum skipum og teikna kort af sjávarbotninum byggð á þeim.
Þetta voru mikil og flókin gögn, og kom stærðfræðiþekking Marie Tharp henni vel við greiningu þeirra. Rannsóknir hennar leiddu í ljós að djúpur sprungudalur lá eftir miðjum Atlantshafshryggnum á flekaskilunum sem liggja á botni Atlantshafsins, frá suðurhveli í norðaustur upp að og undir Ísland.
Niðurstöður Marie Tharp voru á skjön við ríkjandi hugmyndir jarðvísindamanna um eðli jarðskorpunnar á sjávarbotni, hún var talin vera samfelld, flöt og óhagganleg. Yfirmaður Marie Tharp, Bruce Heezen, gerði því lítið úr niðurstöðum hennar, sagði þær vera „stelpukjaftæði“ eða „girl talk“.
Marie Tharp lét þetta ekki á sig fá og hélt ótrauð áfram að kortleggja sprunguna á Atlantshafshryggnum. Nokkrum árum eftir uppgötvun hennar var maður að nafni Howard Foster ráðinn til Lamont Geological Observatory til að kanna og kortleggja neðansjávar jarðskjálfta og eldgos. Og viti menn, rannsóknir Howard Foster sýndu að allir neðansjávarskjálftar og eldgos á botni Atlantshafsins röðuðu sér pent á flekaskilin sem Marie Tharp hafði kortlagt.
Niðurstöður Howard Fosters réðu því að Bruce Heezen skipti um skoðun og í kjölfarið skrifaði hann lærðar greinar um flekaskilin án þess að nefna Marie Tharp á nafn. Með öðrum orðum þá eignaði Bruce Heezen sér „stelpukjaftæði“ Marie Tharp og hlaut lof fyrir. Bruce Heezen lést árið 1977, en eftir lát hans hélt Marie Thrap ótrauð áfram við að kortleggja sjávarbotn Atlantshafsins.
Í kjölfar annarrar kvennaréttindahreyfingarinnar, kom hið sanna í ljós um hver það var í raun, sem átti heiðurinn af því að uppgötva flekaskilin sem skilja meginland Ameríku frá meginlandi Evrópu: Það var ekki Bruce Heezen, heldur Marie Tharp.
Í kjölfarið var Marie Tharp heiðruð á margan hátt, hún var til dæmis skipuð í hóp fjögurra bestu kortagerðamanna 20. aldar af Library of Congress í Washington D.C. árið 1997.
Uppgötvun Marie Tharp um flekaskilin breyttu ekki aðeins hugmyndum jarðvísindamanna um gerð og virkni jarðskorpunnar. Hún varð einnig til þess að sannleiksgildi hinnar svokölluðu landrekskenningar, sem þýski jarðvísindamaðurinn Alfred Wegener varpaði fram á þriðja áratugi tuttugustu aldar, var staðfest.
Wegener hélt því fram þá að heimsálfurnar sjö hefðu upphaflega myndað eina heild, en síðan hefðu þær sundrast og rekið hver frá annarri vegna hreyfinga í jarðskorpunni. Máli sínu til stuðnings benti Wegener á að þegar heimsálfunum var raðað saman smullu þær saman eins og púsl í púsluspili. Auk þess benti hann á að sams konar steingervingar hefðu fundist á ströndum hinna aðskildu heimsálfa.
Landrekskenning Wegeners braut alfarið í bága við ríkjandi hugmyndir jarðvísindamanna um sköpun jarðar og var henni vísað út í hafsauga, allt þar til Marie Tharp sýndi fram á að jarðskorpan, bæði á láði og legi, er síkvik og jörðin í sífelldri mótun, eins og íbúar Íslands vita manna best.
Marie Tharp lést árið 2006 úr krabbameini, 86 ára að aldri.