Ýmisir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um sjötugsafmæli bandarísku söngkonunnar Debbie Harry síðustu dagana, en hún átti afmæli 1.júlí. Debbie sem fæddist í Miami á Florida, ólst upp í New Jersey. Hún hóf söngferilinn snemma í New York, en það var ekki fyrr en hún og Chris Stein stofnuðu rokk- og pönkhljómsveitina Blondie, sem ferill hennar fór fyrir alvöru á flug. Hljómsveitin sló í gegn með plötunni Paralell Lines árið 1978, en þá var Debbie 33ja ára.
Voru félagar alla tíð
Debbie og Chris voru sambýlisfólk um árabil og félagar í tónlistinni alla tíð. Hún átti einnig um tíma sóló feril sem söngkona og vann með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum, en árið 1997 kom hljómsveitin Blondie saman á nýjan leik eftir 15 ára hlé. Debbie er núna í hljómsveitarferðalagi með Blondie og lætur ekki deigan síga þó aldurinn færist yfir.
Að verða áttræður og enn að leika
Það gerir heldur ekki leikarinn Donald Sutherland sem fagnar áttræðisafmæli sínu í þessum mánuði. Hann hefur til dæmis farið með hlutverk Snow forseta í Hungurleikunum. Hungurleikamyndirnar eru orðnar þrjár og sú fjórða er í bígerð. Donald Sutherland er kanadiskur verkfræðingur sem sneri sér að leiklist eftir útskrift og settist á skólabekk í London.
Skírði í höfuðið á leikstjórum
Hann varð fljótlega vinsæll leikari og uppúr 1970 lék hann á móti Jane Fonda í kvikmyndinni Klute. Þau fóru að vera saman og léku saman í nokkrum myndum áður en sambandinu lauk. Sutherland er þríkvæntur og á fimm börn. Núverandi kona hans er frönsk kanadisk og heitir Francine Racette. Hann skírði syni sína fjóra í höfuðið á kvikmyndaleikstjórum. Einn sona hans Kiefer fetaði í fótspor föður síns og gerðist kvikmyndaleikari.