„Sundið styrkir mann líkamlega og gerir mann hressari og svo fær maður morgunbaðið hér alla virka daga og ef maður talar um sálartetrið þá hef ég eignast fjölda vina hérna. Maður er manns gaman“, segir Kristján Haraldsson verkfræðingur sem mætir um klukkan 7:00 á morgnana í sund í Ásgarðslaug í Garðabæ, alla virka daga og stundum líka um helgar.
Hann hefur stundað sundið reglulega síðan hann hætti störfum árið 2016 og fór á eftirlaun. „Þegar ég hætti að vinna fann ég að ég varð að koma mér upp fastri dagskrá í lífinu, svona eins og menn hafa þegar þeir eru í vinnu – svo rúmið yrði ekki sigurvegarinn. Ég gerði tvennt. Fór í leiðsögumannanám hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og fór að synda á morgnana. Ég er búin að synda í 4 ár, en hafði ekki stundað sund reglulega áður. Ég var í krefjandi starfi sem framkvæmdastjóri Orkubús Vestfjarða og hafði ekki tíma til þess. Ég taldi mér að minnsta kosti trú um það“.
Gera æfingar á sundlaugarbakkanum
Það er eins í Ásgarðslaug og mörgum öðrum sundlaugum landsins, að það er ákveðinn hópur sem mætir í sund á morgnana og smám saman kynnist þetta fólk. Sundhópurinn sem Kristján syndir með, hefur verið lengi víð lýði. Þegar fólk er búið að synda, tekur það æfingar á sundlaugarbakkanum sem Kristján stjórnar.
„Þetta á sér þá forsögu að þegar ég var í leiðsögumannanáminu var ég í mjög skemmtilegum hópi fólks og þar var meðal annarra læknir sem heitir Kristín Sigurðardóttir. Þegar við fórum í ferðir lagði hún áherslu á að við hreyfðum okkur. Hún tók okkur í æfingar meðal annars þessar arm- og öndunaræfingar sem við gerum hér. Ég fann hvað þetta gerði mér gott, ég varð allur léttari og hressari. Þegar ég kom í sundið byrjaði ég að gera þessar æfingar sem hún var með. Fyrst var ég bara einn en svo fjölgaði í hópnum“, segir Kristján sem er að sjálfsögðu eins og nýsleginn túskildingur þar sem hann situr og spjallar við blaðamann Lifðu núna eftir sundið.
Hann segir að þessi sundhópur sé merkilegur. Hann byggi á gömlum grunni og fólk haldi hópinn vel. „Það er farið út að borða og menn fara saman í ferðalög. Eftir að ég kom í hópinn, höfum við heimsótt tvær sundlaugar. Við fórum í sundhöllina, skömmu eftir endurbyggingu hennar og eins fórum við og syntum í lauginni á Borg í Grímsnesi. Einn félaganna í hópnum á sumarbústað þar skammt frá og bauð hópnum þangað. Svo var farið til Vestmannaeyja í sumar og þar nýttist leiðsögumannanámið mitt!!“ segir hann.
Annað sem sundhópurinn gerir yfir vetrartímann, er að hann heldur upplestrarstund á föstudagsmorgnum. Þá taka menn að sér til skiptis eftir sundið, að lesa upp úr áhugaverðum bókum fyrir hópinn. „Þessi upplestur hófst fyrir mörgum árum. Þetta er mjög skemmtilegt og ég reyni að missa ekki úr einn einasta föstudag“, segir Kristján.
Hann segist ætla að synda á meðan líf og heilsa leyfir. „Mér finnst dagurinn ekki byrjaður nema ég hafi farið í sund. Þetta er ávanabindandi“, segir hann að lokum.