Sykursýki; hættulegur lífsstílssjúkdómur

Með aldrinum aukast líkurnar á að fólk greinist með sykursýki II einkum ef foreldrar þínir eða systkini hafa greinst með sjúkdómin. Um er að ræða lífsstílssjúkdóm og til allrar lukku getur fólk gert margt til að koma í veg fyrir að fá hann nokkurn tíma. Lykilatriðið er borða rétt og hreyfa sig.

Sumum finnst þessi tugga um að borða hollt og hreyfa sig vera orðin ansi þreytt og svarið við öllu. En þótt margir vildu án efa óska þess að þeir gætu borðað hvað sem er og legið í sófanum dagana langa kjósi þeir það þá er það svo að líkaminn er frá náttúrunnar hendi hannaður fyrir annað. Þetta er dugleg og vel samansett vél sem þarf eldsneyti. Hugvit mannsins hefur gert honum kleift að framleiða ofgnótt hráefna og setja þau saman á fjölbreyttan máta. Um leið og við höfum lokið við máltíð hefst líkaminn handa við að vinna úr henni heppilega næringu fyrir alla líkamshluta. Ef hann fær of mikið bregður hann á það ráð að búa til úr því forða í formi fitu.

Hér á Vesturlöndum er ofþyngd að verða sífellt alvarlegra heilsufarsvandamál. Heilbrigðisyfirvöld hér á landi telja að um 60% landsmanna séu of feitir og 20% glími við ofþyngd. Sé litið aftur í tímann blasir við sláandi mynd, árið 1967 var meðalmaður á Íslandi 83 kíló en árið 2007 var hann kominn upp í 91 kíló, meðalkonan var hins vegar 69 kíló þarna fyrir 57 árum en var orðin 76 kíló þegar Alþjóðheilbrigðisstofnunin gaf út skýrslu um almennt heilbrigði í Íslendinga árið 2008 og byggði á gögnum sem safnað var árið áður.

Erfðir og ofþyngd

Ofþyngd fylgja ótalmargir sjúkdómar og heilsufarsleg áhætta. Meðal annars má nefna auknar líkur á krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum, margvíslegum stoðkerfisvandamálum og sykursýki. Sé sykursýki í ættum fólks tvöfaldast svo líkurnar á að glíma við þennan erfiða sjúkdóm um helming því genin segja til um hversu vel einstaklingum gengur að framleiða insúlín til að koma jafnvægi á blóðsykur. Erfðir hafa reyndar einnig mikið að segja um það hversu auðveldlega fólk fitnar og hve vel eða illa því gengur eftir atvikum að losa sig við þau kíló sem safnast utan á það.

Algengi sykursýki II í öllum aldurshópum hefur meira en tvöfaldast á Íslandi milli áranna 2005 og 2018 og hefur veruleg áhrif á lífsgæði þeirra sem greinast. Fólk með sykursýki glímir oft við orkuleysi, hækkaðan blóðþrýsting og hærri blóðfitu en æskilegt er. Fylgikvillar sykursýki eru líka margir og erfiðir, nefna má minna blóðflæði í útlimi, sár og útbrot sem eru lengi að gróa, blæðing inn á augnbotna og veikari starfsemi nýrna og lifur.

Sykursýki II er oftast meðhöndluð með lyfjum og sjúklingurinn getur sjálfur haft mikil áhrif á hvernig hún tekst. Með því að breyta lífsháttum sínum tekst mörgum að ná stjórn á sjúkdómnum og jafnvel komast á þann stað að þeir þurfi ekki að taka lyf. Lyfin eru meðal annars metformin, sulfonylurea/incretin og SGLT-hemlar. Þau hafa nokkuð mismunandi verkun, metformin dregur úr sykurframleiðslu í lifrinni, sylfonylurea/incretin eykur útskiljun insúlíns í betafrumum líkamanum og SGLT-hemlar örva útskiljun sykurs í gegnum nýru. Stundum er innsúlíni einnig sprautað í líkamann. En allt hjálpar þetta til að jafna blóðsykurinn og halda honum í jafnvægi. Hafi menn sykursýki II þýðir það að líkaminn framleiðir eitthvað insúlín og það er hægt að nýta betur.

Mataræði

Í nútímasamfélagi eiga margir í erfiðu sambandi við mat. Þeir reyna eftir fremsta megni að halda sér í kjörþyngd en ofgnótt og freistingar mæta þeim hvar sem er. Það sem áður var aðeins á borðum á stórhátíðum er nú daglegur kostur á sumum heimilum og víða á vinnustöðum er boðið upp á sætindi, kex eða kökur. Þótt fólk reyni að halda sig frá þessu eða neita sér um slíkar vörur er það erfitt því líkaminn vinnur á móti okkur. Hann beinlínis kallar eftir að við borðum sé matur einhvers staðar fyrir augum okkar. Hann er að búa sig undir skortstímabil en þar sem þau eru ekki lengur hluti af tilverunni í okkar ríka heimshluta láta menn undan kröfu líkamans og fitna. Um leið aukakíló taka að setjast utan á okkur hefur það áhrif á hormónastarfsemina og fljótlega hætta menn að upplifa eðlilega seddu- og hungurtilfinningu. Þetta er flókin efnaskiptavandi og við borðum meira en við þurfum.

Eina ráðið gegn þessu er strangt aðhald og skipuleggja vel hvenær og hvað menn leyfa sér þegar kemur að neyslu óhollra matartegunda. Enginn heldur það út að leyfa sér aldrei neitt en það er hægt að hafa stjórn tíðninni. Margir segja að sykurlöngun minnki þess lengra sem líður á milli þess að menn borði sætindi. Með tímanum kunni bragðlaukarnir einnig síður að meta sætubragðið og fljótlega verði eitthvað of sætt sem áður var hið besta ljúfmeti.

Það getur verið mjög erfitt að breyta matarvenjum en litlar breytingar eru oft árangursríkar. Til dæmis má auka grænmetisneyslu með því að borða grænmetisrétti einu sinni til tvisvar í viku, bera soðið grænmeti fram með mat í stað kartaflna eða hrísgrjóna og auka grænmeti í öllum kjöt- og fiskréttum sem eldaðir eru á heimilinu. Baunir eru saðsamar og gefa góða næringu og margar baunategundir eru ljúffengar. Þær má nota sem uppistöðu í grænmetisrétti eða borða þær með mat og minnka þannig skammtinn af öðrum prótíngjöfum.

Flestum reynist auðvelt að hætta að drekka sæta drykki og minnka áfengisneyslu. Í stað sætinda með kaffi er gott að fá sér osta og hrökkbrauð, hnetur eða gróft brauð. Ávextir, prótínstykki eða hnetur eru ágætir millibitar ef menn þurfa á þeim að halda.

Fáðu aðra í lið með þér

Allt verður auðveldara ef menn vinna saman. Þegar gerðar eru lífsstílsbreytingar er þess vegna mikilvægt að fá fjölskylduna, vini eða aðra í lið með sér. Ef makinn er til að mynda ekki tilbúinn að breyta sínum neysluvenjum getur verið ákaflega erfitt fyrir þann með sykursýki II að halda sig við annars konar mataræði. Að fá einhvern annan með sér í einhvers konar hreyfingu veitir oft gott aðhald og gerir hlutina skemmtilegri. Það er leiðinlegt að vera háður lyfjum og það getur verið góð hvatning að setja sér það markmið að losna við þau.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 3, 2024 08:01