Margir vilja gjarnan léttast eftir sextugt, en það virðist ekki heiglum hent. Líkamsstarfsemin breytist með aldrinum og orkuþörfin minnkar. Það er ekki bara spurning um útlit að halda sér í kjörþyngd. Ef menn verða of þungir, eykst hætta á margvíslegum kvillum og sjúkdómum. Álag á liðina eykst líka, sem getur valdið því að nauðsynlegt verður að skipta um liði, hnéliði til dæmis og mjaðmaliði.
Það er reynsla margra að megrunarkúrar geta lítið gagn. En hvað er þá til ráða? Það úir og grúir af ráðleggingum til fólks um það hvernig það á að léttast, ekki vantar það. Fyrirsögnin á þesari grein á vefnum Sixtyandme, vakti athygli blaðamanns Lifðu núna og þess vegna kemur greinin hér þýdd, endursögð og svolítið staðfærð.
Það er á þínu valdi að losna við aukakílóin
Lausnin felst í því að skoða lífið frá grunni. Hvernig væri að gera smábreytingar á lífsstílnum sem stuðla að því að þú brennir fleiri hitaeiningum en þú lætur ofan í þig? Og hvers vegna ekki að gera breytingar í stað þess að halda stöðugt í við sig í mat, eða prófa nýjasta megrunarkúrinn?
Ef þú losar þig við þessa 8 hluti, geturðu átt heilbrigðara og ánægjulegra líf eftir sextugt.
Settu bíllyklana niður í skúffu.
Alltaf þegar það er mögulegt, skaltu ganga í stað þess að keyra. Fáðu þér innkaupapoka á hjólum til að fara með gangandi í matvörubúðina. Ef þú verður að fara á bílnum að versla, leggðu honum þá eins langt frá búðinni og hægt. Það er jafnvel enn betra að selja bílinn og kaupa hjól, ef aðstæður bjóða uppá það þar sem þú átt heima.
Það er líka hægt að fá sér skrefamæli, eða nota skrefamælinn í símanum og setja sér markmið um hversu mörg skref maður ætlar að taka yfir daginn. Það er algengt að fólk miði við 10.000 skref á dag, en ef það er of mikið fyrir þig, ekki gefast upp. Settu þér þá lægra markmið. Þetta hvetur fólk til að ganga meira yfir daginn og ekki eingöngu innanhúss, því flestir vilja ná sínu markmiði.
Hættu að nota stóra matardiska
Of stórir skammtar af mat gera það að verkum að aukakílóin hlaðast upp. Það er nú ekki flóknara en það. Því miður hafa þeir sem núna eru komnir yfir sextugt alist upp við það að klára alltaf af diskinum, hvort sem þeir eru svangir eða ekki. „Hugsaðu þér börnin í Afríku sem fá ekkert að borða“. Þessi setning hafði sín áhrif og hefur enn.
Það er til lausn á þessu. Það er hægt að borða minna án þess að skilja eftir mat á diskinum. Þetta er spurning um að kaupa minni matardiska. Það hljómar einfalt og er dagsatt.
Það er margt hægt að segja um stærð matarskammta, en það hefur reynst vel í baráttunni við aukakílóin að minnka þá. Bara það eitt og sér, getur skilað töluverðu þyngdartapi yfir eitt ár.
Komdu sjónvarpinu fyrir kattarnef
Sjónvarpið er lífshættulegt. Í fyrsta lagi fær það okkur til að sitja á rassinum á sama stað þannig að við brennum engum hitaeiningum. Í öðru lagi sogar það að sér mat, alveg eins og ljós laða að sér flugur. Prófaðu að fá þér einungis eina salthnetu. Það er ekki gerlegt!
Besta lausnin er að losa sig algerlega við sjónvarpið. Ef það er ekki hægt skaltu heita því að borða aldrei fyrir framan sjónvarpið. Þú munt þakka þér það.
Á Covid tímabilinu vandist fólk því að halda sig heima. Það er skiljanlegt að margir hafi ekki enn komið sér í fulla virkni aftur. Framboðið á sjónvarpsefni sem hægt er að hámhorfa hefur aukist verulega. En einsettu þér að horfa einungis á sjónvarpið á ákveðnum tímum og slökktu þegar sá tími er liðinn.
Lokaðu hælaháu skóna inni í skáp
Allir vilja stundum vera smart og fara í hælaháa skó. En það er engin ástæða til að ganga um á þeim á virkum dögum. Fáðu þér þægilega gönguskó til daglegra nota. Reyndu að ganga eitthvað á hverjum degi. Hlustaðu á hljóðbók á meðan, eða njóttu umhverfisins. Það er líka þjóðráð að ganga með góðri vinkonu. Hvað sem þú gerir, settu það í forgang að hreyfa þig og vera virk. Enn og aftur, það hefur verið erfitt á Covid tímabilinu. Hefurðu skoðað leikfimiæfingarnar á netinu? Þar er að finna þúsundir myndbanda þannig að allir ættu að geta fundið þar æfingar við sitt hæfi – og þær er hægt að gera á stofugólfinu heima
Ekki glepjast af tilboðum og stórum pakkningum
Stórverslanir eru sniðugar við að fá fólk til að kaupa meiri mat en það þarf. Ekki láta glepjast af „tveir fyrir einn“ tilboðum, eða risapakkningum af sætindum. Þótt það geti sparað þér nokkrar krónur að kaupa stóra pakka af súkkulagði og lakkrís, svarar það ekki kostnaði miðað við áhrifn af þessu á þyngdina og sjálfsvirðinguna. Það er miklu betra að kaupa eitt dökkt gæðasúkkulaðistykki, en risastóran pakka af snakki á afslætti. Það eru svo margir sem kvarta yfir því að þeir eigi ekki nógu mikla peninga til að kaupa heilsuvörur. En ef þú skoðar hvað þeir henda miklum mat, kemur í ljós að vandamálið snýst frekar um að kaupa réttu vörurnar.
Losaðu þig við víðu sniðlausu fötin
Ef þér er alvara með að losna við aukakílóin eftir sextugt, ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Það er eitt að vera ánægður með sjálfan sig og líða vel í eigin skinni. Það er hins vegar allt annað að sleppa taumunum algerlega og leyfa sér að „fljóta“ smám saman út á braut óheilbrigðs lífernis.
Það er heldur ekki sniðugt að ganga í mjög teygjanlegum fatnaði með teygju í mittið. Fatnaði sem lagar sig auðveldlega að líkamanum og aukakílóunum, þannig að þú tekur ekki einu sinni eftir þeim þegar þau koma.
Hluti þess að halda sér heilbrigðum er að hugsa vel um útlitið – sjálfs sín vegna. Það er mikilvægara að kaupa sér nokkrar velsniðnar flíkur, en stöðugt stærri mussur og víð sniðlaus föt sem gera ekkert fyrir þig. Ef þú lítur vel út, eykur það sjálfstraustið, sem þarf til að koma sér í gott form.
Forðastu freistingarnar
Ef þú átt erfitt með að stjórna því hvað þú lætur ofan í þig, er ein leiðin að hætta að kaupa ruslfæði af öllu tagi og koma í veg fyrir að aðrir beri það inná heimilið. Að standast þá freistingu að fá sér eina sneið af súkkulaðiköku, getur verið ótrúlega erfitt, sérstaklega fyrir þá sem eru gefnir fyrir sætindi. Það er mun auðveldara að forðast freistingarnar en standast þær.
Segðu ruslfæðinu stríð á hendur og hleyptu því alls ekki inn fyrir dyr heima hjá þér. Ef þú býrð með öðrum greindu þeim frá þessum áformum þínum og biddu þau að sýna tillitssemi.
Fækkaðu máltíðum á veitingahúsum
Mörg okkar fóru lítið út á veitingastaði á meðan Covid tímabilið stóð sem hæst. Þegar því er lokið höfum við tekið upp fyrri lifnaðarhætti og förum meira út að borða.
Áhrifamikil breyting fyrir þá sem vilja léttast eftir sextugt er að hætta að borða úti á veitingastöðum og elda máltíðirnar í staðinn heima úr fersku hráefni. Það sparar ekki bara fé, heldur eykur það ánægjuna að skoða nýjar mataruppskriftir.
Ef þú ferð út að borða, skaltu biðja um box til að taka afganga með heim. Taktu svo helminginn af máltíðinni með þér heim og borðaðu hann síðar. Prófaðu, þetta virkar!
Örvaðu efnaskiptin með lyftingum
Hefur þér nokkurn tíma dottið í hug að stunda lyftingar? Ef ekki, er góð hugmyndi að prófa það núna. Styrktarþjálfun eykur vöðvamassann. Þegar hann eykst hefur það áhrif á efnaskiptin sem verða hraðari og gera það að verkum að líkaminn brennir flerir hitaeiningum , jafnvel eftir að æfingunum lýkur og þú ert komin í hvíld.
Lyftingar gera þig ekki kröftugri í vexti eða kubbslegri, en geta hjálpað þér að losna við síðustu kílóin sem vilja verða ansi þaulsetin.
Að léttast eftir sextugt er erfitt, en ekki ómögulegt. Það er hægt að missa kíló með því að gera fáar en áhrifamiklar breytingar á lífsháttum okkar.
Við þetta má bæta að það er auðveldara að taka breytingarnar í áföngum. Byrja á einni og ef það gengur vel að fara þá í næstu og þannig koll af kolli. Það er líka nauðsynlegt fyrir þá sem ætla að léttast að eiga góða vigt og vigta sig daglega. Það hjálpar fólki til að grípa í taumana áður en í óefni er komið.