Eru helgar besti tími vikunnar? Já, segja sumir og byrja á mánudegi að telja dagana fram að næstu helgi. Hlakka til að gera vel við sig í mat og drykk, eiga stund til að slappa af og sinna fjölskyldunni. Aðrir eru ósammála og finnst helgarnar ekkert betri en aðrir dagar. Vilja frekar vera í vinnunni og sinna sínu. Ragnar Helgi Ólafsson rithöfundur og listamaður segir að það sé enginn munur á helgi og virkum dögum hjá sér. Hann gefur út bókina Bókasafn föður míns nú fyrir jólin en hún segir frá því þegar Ragnar Helgi þarf að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns og finna því stað á 21. öldinni. Í upphafi ætlar hann ekki að opna bækurnar og alls ekki að grúska en getur ekki hamið sig. Við það kvikna minningar, hugleiðingar um bækur, menninguna, missi, fallvaltleika hluta, um liðna tíð og framtíðina en ekki síður um samband föður og sonar. „Það er mikið að gera alla daga um þessar mundir við að lesa upp úr bókinni. Ég er að lesa upp í fyrirtækjum, stofnunum og á kaffihúsum. Maður er eins og þeytispjald út um allt,“ segir Rangar Helgi. „Þegar ég er að skrifa, skrifa ég jafnt um helgar sem virka daga. Ég skrifa líka mikið á nóttunni. Næturnar eru oft drjúgar og þá skiptir engu hvaða dagur er. Textinn flæðir bara fram þegar hann vill. Ef mann langar að gera sér dagamun með fjölskyldunni getur maður alveg eins gert það á þriðjudegi eða miðvikudegi. Dagurinn skiptir engu máli, það geta allir dagar verið sunnudagar ef maður snýr því þannig,“ segir Ragnar Helgi.
Bjarni Harðarson bókaútgefandi, bóksali og rithöfundur segir að það séu allt of margir föstudagar í mánuðinum. „Föstudögum er ofaukið. Einn föstudagur er ekki fyrr liðinn, en sá næst skellur á manni. Ég hef tekið eftir því að helgunum hefur fjölgað mikið eftir því sem maður eldist, þegar maður var yngri var maður alltaf að bíða eftir að það kæmi helgi en það er breytt. Það er undarlegt að enginn skuli hafa stungið upp á því að fækka helgum niður í eina í mánuði. Ég myndi kjósa þann sem legði það til. Mér finnst stundum eins og það sé enginn vinnufriður fyrir þessum helgum,“ segir Bjarni og hlær en bætir við að það geti nú svo sem verið gaman um helgar sérstaklega þegar barnabörnin hans þrjú koma í heimsókn og eru hjá honum. Bjarni og eiginkona hans Elín Gunnlaugsdóttir eiga bókaútgáfuna Sæmund og á vegum hennar koma út um 30 bækur fyrir jólin. Auk þess kemur út bókin Í Gullhreppum eftir Bjarna. Þar segir frá séra Þórði Reykjadal og hinu mikla veldi Skálholtsstaðar á 18. öld. Sagan af Þórði hefst í Kaupmannahöfn og berst síðan til Íslands. Þegar presturinn er kominn heim opnar hann hús sín fyrir farandi lýð flækinga og nýtur góðs af vinnu þeirra. Í sögunni birtist heimur samkynhneigðra, saumakerlingar, drottningar, dressugra skólapilta, iðrandi syndara og fleiri. Í bókinni birtist lesandanum Íslandssagan og þjóð hennar birtist okkur með kröm sinni og skemmtan, segir í bókarkynningu. „Það er í nógu að snúast við að kynna bækurnar sem við gefum út og lesa upp úr eigin bók,“ segir Bjarni. Honum finnst þetta hins vegar mjög skemmtilegur tími þó annasamur sé. „Mér finnast samskiptin við rithöfundana og þýðendurna mjög gefandi. Ég vinn ekki lengur í búðinni nema einhver starfsmaður forfallist. Eitt verk sé ég þó alveg um, en það er að flokka gömul bókasöfn sem við kaupum eða okkur áskotnast með öðrum hætti. Það finnst mér alveg óskaplega skemmtilegt og get alveg gleymt mér við þá iðju.“