Gráum skilnuðum fer fjölgandi í hinum vestræna heimi. Undanfarinn aldarfjórðung hefur fjöldi þeirra sem skilja og orðnir eru 50 ára og eldri tvöfaldast í Bandaríkjunum. Talan hefur þrefaldast fyrir þá sem eru orðnir 65 ára og eldri. Skilnaðir eru oftast sárir ekki aðeins fyrir hjónin sem hafa ákveðið að ganga hvort sína leið, þeir taka á fyrir alla fjölskylduna og vinina. Það er ekki óalgengt að vinahópar tvístrist þegar hjón í hópnum skilja.
Fólk veit oft ekki hvað það á að segja við þann sem er skilinn eða er að skilja. Þrátt fyrir það langar fólk að gera eitthvað og láta þann sem á um sárt að binda finna að vinátta hans skipti máli. Það er hins vegar ekki sama hvað sagt er. Hér eru nokkrar setningar sem ætti að forðast að segja við þann sem stendur í skilnaði. „Ég held að þú sért að gera mistök,“ er eitthvað sem aldrei ætti að segja. Spyrjið frekar hvað hafi orðið þess valdandi að viðkomandi tók þessa ákvörðun, eða hvað hafi valdið skilnaðinum. Reynið síðan að setja ykkur í hans eða hennar spor og hlusta á hvað hann eða hún hefur að segja. Það felst ákveðinn áfellisdómur í því að segja fólki að það sé að gera mistök.
„Þú ert betur komin án hans eða hennar. Hann eða hún hefur aldrei átt þig skilið. Hann eða hún er skíthæll,“ eru dæmi um önnur slæm ummæli. Segðu frekar: Þú hlýtur að vera reið og sár. Í því felst enginn dómur um einn eða neinn og þeim sem þú ert að tala við finnst eins og þú sýnir smá skilning á ástandinu. Ef hjónin taka saman aftur þá þarftu heldur ekki að skammast þín fyrir það sem þú sagðir þegar þú fréttir af yfirvofandi skilnaði.
Ekki segja: „Þú hefur hegðað þér svo undarlega síðan hann eða hún fór frá þér.“ Það er betra að segja viðkomandi hafi upplifað svo margt nýtt upp á síðkastið. Spyrjið: Hvað er það skemmtilegasta sem hefur komið fyrir þig. Nýskilið fólk prófar allskonar nýja hluti. Það er að reyna að koma skikki á sitt nýja líf. Gefið fólki tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum.
„Eigum við að fara á uppáhaldsveitingastaðinn okkar um helgina?“ Það ætti að hugsa sig vel um áður en spurning af þessu tagi er borin fram. Það getur kallað fram sárar minningar hjá þeim sem er að skilja. Spurðu frekar hvað er það sem þig hefur alltaf langað að gera en hefur ekki haft tök á. Kannski langar hann eða hana á námskeið farðu þá með honum. Kannski langar þann nýskilda að prófa nýjan veitingastað möguleikarnir eru óþrjótandi. Hjálpaðu honum að fóta sig í hinni nýju tilveru með því að gera eitthvað nýtt og spennandi með honum.
Að lokum ætti aldrei að segja við þann sem er að ganga í gegnum skilnað: Ég er viss um að þú vilt vera í friði næstu vikurnar. Það er ömurlegt að segja eitthvað á þessa lund við fólk sem er kannski búið að vera í hjónabandi áratugum saman. Spurðu frekar hvernig get ég hjálpað þér að kynnast nýju fólki. Það er hægt að benda fólki á samtök sem vantar sjálfboðaliða, benda því á að fara að stunda fjallgöngur í félagi við aðra, fara dansnámskeið eða að bjóða því í heimsókn.