Fyrsti þáttur Hringborðsins í umsjá þeirra Boga Ágústssonar fréttamanns, Styrmis Gunnarssonar fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og Þórhildar Þorleifsdóttur leikstjóra verður á dagskrá 8. desember. Það er óvanalegt að fólk sem komið er yfir sextugt sé ráðið til að stýra nýjum þáttum í sjónvarpinu. En í tilkynningu frá RÚV segir um þáttinn, að þar verði þjóðmálaumræðan skoðuð í stærra samhengi, með hliðsjón af samhengi sögunnar og reynslunnar. Um stjórnendurna segir: „ Þau hafa öll víðtæka og áralanga reynslu af þátttöku og umræðu um þjóðmál í gegnum frétta- og blaðamennsku og stjórnmál“.
Vilja tala við fólk sem man
Bogi Ágústsson sagði í samtali við Lifðu núna að þetta sé spennandi tilraun sem hafi vakið umtalsverð viðbrögð. Ætlunin sé að setja umræðuefnið í víðara samhengi en almennt tíðkist í umræðunni. Minni margra sem geri sig gildandi í þjóðmálaumræðunni til dæmis á samfélagsmiðlum virðist stundum ansi takmarkað. „Við vildum fá fólk sem hefur yfirsýn og hefur upplifað stór pólitísk tíðindi og man hvernig hlutirnir voru áður og geta lagt mat á þróunina. Fólk sem man til dæmis kvennafrídaginn 1975 en hefur ekki bara lesið um hann“, segir hann.
Grundvallaratriði verði í umræðunni
Styrmir Gunnarsson segist telja æskilegt að umræður í þættinum snúist fremur um grundvallarmál en dægurmál. „ Hvers konar grundvallarmál eru á dagskrá í dag? Til dæmis hin víðtæka eignaraðild lífeyrissjóða að mörgum stórum fyrirtækjum í landinu. Hvaða áhrif hefur það á atvinnulífið? Hvaða áhrif hefur það á fyrirtækin og stefnu þeirra í kjaramálum, svo að dæmi sé nefnt“, segir Styrmir. Hann segist vona að þátturinn geti orðið til að beina athyglinni að efni máls, í stað þeirrar áherslu á aukaatriði sem einkenni um of þjóðmðálaumræður í okkar landi.
Sérkennileg viðbrögð
Viðbrögðin við þættinum hafa verið góð þó einhverjum hafi fundist að hann ætti að vera vikulega. „Langflestir sem hafa brugðist við segjast ánægðir en ég er hissa á að margir hafa lýst skoðunum sem mér finnast sérkennilegar“, segir Bogi. „Það hafa verið notuð orð eins og „steingervingar,“ „risaeðlur,“ „frekar ferskt blóð“. Einn skrifaði á Facebook: „Það eru nokkur hjúkrunarheimili aldraðra í Reykjavík. Þar hefði eflaust mátt finna þáttastjórnendur fyrir RÚV.“ Annar skrifaði: „Hvar er unga fólkið?“. Bogi segir að það virðist hafa farið framhjá þeim sem þetta skrifa, það sem segir í tilkynningu RUV um þáttinn“.…… þjóðmálaumræðan verður skoðuð í stærra samhengi með hliðsjón af samhengi sögunnar og reynslunnar.“
Vilja hefja sig yfir rifrildi og þras
„Það mátti alveg búast við svona viðbrögðum“, segir Þórhildur, „rétt eins og flestir komnir yfir þrítugt þola ekki hraðfréttastrákana og nota ýmiss konar orð til að lýsa vanþóknun sinni og óánægju. Það erum við sem eigum að reyna að setja eitthvað í samhengi og hafa sögulega yfirsýn, en það semhengi má ekki bara vera á forsendum ,,þroskaðs“ fólks, heldur verður að leita eftir fjölbreytni og ólíkum lífsviðhorfum“ segir hún og bætir við að það þurfi að brjóta niður þá múra sem skipti fólki í hópa eftir aldri. „Þessi skipting er mikið undirstrikuð í fjölmiðlum, en mér finnst hún alls ekki alltaf halda í raunveruleikanum“, segir Þórhildur. Hún vildi ekki á þessu stigi nefna ákveðið umræðuefni í þættinum, sagði að það yrði sameiginleg ákvörðun umsjónarmanna og af nógu væri að taka. „Mér finnst mestu máli skipta að það náist málefnaleg umræða, þrátt fyrir mismunandi skoðanir og að við náum að hefja okkur yfir rifrildi og þras sem engu skilar“, sagði hún að lokum.