Á vef Landlæknisembættisins er að finna grein efrir Laufeyju Steingrímsdóttur prófessor í næringarfræði við HÍ, sem heitir Ekki gleyma D-vítamíninu – þú færð ekki nóg úr matnum. Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar fá allt of lítið af þessu mikilvæga vítamíni úr fæðunni og að styrkur D‐vítamíns í blóði þeirra sem hvorki taka lýsi né önnur fæðubótarefni er töluvert undir viðmiðunarmörkum. Laufey segir þetta sérstaklega áberandi að vetri til þegar sól er lágt á lofti og D‐vítamín nær ekki að myndast í húðinni. Íslendingar eru að verða meira meðvitaðir um þetta vegna nýrra rannsókna sem benda til þess að D‐vítamín gegni enn mikilvægara hlutverki fyrir heilsuna en áður var talið, og Laufey segir:
Það eru sem sagt ekki bara beinin sem þurfa á D‐vítamíni að halda, heldur fjöldi annarra vefja í líkamanum. Í ljósi þessarar nýju þekkingar á hlutverki og virkni D‐vítamíns hafa ráðleggingar um æskilegt magn af D‐vítamíni verið teknar til gagngerrar endurskoðunar víða um heim og nýjar ráðleggingar hafa sums staðar birst nú þegar. Bandaríkjamenn og Kanadamenn hafa þannig nýlega hækkað sínar ráðleggingar samkvæmt áliti sérfræðinefndar á vegum Institute of Medicine. Þar er nú fullorðnum og börnum frá tveggja ára aldri ráðlagt að taka 15 míkrógrömm eða 600 alþjóðaeiningar á dag en öldruðum 20 míkrógrömm á dag (800 AE). Ráðleggingar fyrir börn eru óbreyttar, 10 míkrógrömm á dag (400 AE). Hér á landi hefur Lýðheilsustöð ráðlagt 10 míkrógrömm fyrir alla að 60 ára aldri en 15 fyrir þá sem eru eldri“.
Laufey segir að á Norðurlöndum sé nú unnið að endurskoðun ráðlegginganna og íslenskir sérfræðingar taki virkan þátt í þeirri vinnu. Til að ná 10‐15 míkrógrömmum á dag sé bráðnauðsynlegt að taka vítamín eða lýsi, til dæmis eina barnaskeið af þorskalýsi og til að ná hærri skömmtum sé jafnvel þörf á að taka bæði lýsi og D‐vítamín. Venjulegt hollt fæði veiti engan veginn nægilegt magn því D‐vítamín sé aðeins í örfáum fæðutegundum, þá helst feitum fiski eins og síld, laxi eða silungi. Laufey segir jafnframt í greininni að komið hafi fram gagnrýni á bandarísku ráðleggingarnar og einnig hafi enn ekki komið nægilega skýrt í ljós að hærri skammtar tengist betri heilsu fyrir þorra fólks, og það sem meira er, að stærri skammtar geti ekki haft þveröfug áhrif á heilsutengda þætti á borð við krabbameinsáhættu, hjartasjúkdóma og útkomu meðgöngu. Það sé því ástæða til að fara varlega.
Ráðleggingum fyrir almenning er ætlað að fullnægja þörfum 98% heilbrigðra einstaklinga, og samkvæmt skilgreiningu verða þá ævinlega einhverjir sem þurfa meira. Fólk sem er mjög feitt þarf til dæmis gjarnan að að fá meira D‐vítamín til að ná æskilegum mörkum í blóði heldur en þeir grennri og eins er arfbundinn breytileiki í þörfum á D‐vítamíni eins og flestum öðrum mannlegum eiginleikum. Eins getur fólk sem er haldið ákveðnum sjúkdómum eða kvillum haft óvenjulegar þarfir og þurft mun hærri skammta en allur þorri fólks. Það á ekki aðeins við um D‐vítamín, heldur fleiri næringarefni á borð við járn og B12 vítamín, þar sem sumir sjúklingahópar þurfa miklu stærri skammta en aðrir. Þannig sérþarfir geta þó aldrei orðið til að ákvarða almennar næringarráðleggingar“.