Tengdar greinar

Til taks

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Höfundarnir eru þrír, flugmennirnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, ásamt Júlíusi Ó. Einarssyni. Hér á eftir fer lítilsháttar efni úr bókinni:

Telja má Sikorsky HH-52A, sem hlaut einkennisstafina TF-GNA, fyrstu eiginlegu björgunarþyrluna sem Íslendingar eignuðust, en hún var sameign Slysavarnafélags Íslands og Landhelgisgæslu Íslands, þótt ríkissjóður væri eini skráði eigandi hennar. Hún var keypt notuð af bandarísku strandgæslunni árið 1972 og kom að góðum notum hjá hinum nýju eigendum. Hún var ekki aðeins mun stærri og öflugri en fyrirrennarinn, heldur var hún líka með ýmsum búnaði sem var ekki í TF-EIR. Þar á meðal var spil til hífinga, sem átti eftir að reynast mikilvægt björgunartæki. Af öðrum búnaði má nefna súrefnistæki, loftspelkur, álteppi, tvennar sjúkrabörur og tvær björgunarstroffur fyrir spil.

TF-GNA

Að öllum líkindum var fyrsta sjúkraflug TF-GNA farið föstudaginn 6. október 1972, þegar sjúklingur var sóttur í Dalasýslu og fluttur til Akraness, til aðhlynningar. Þriðjudaginn 13. nóvember 1973 var farið sjúkraflug frá Reykjavík áleiðis að togaranum Þorkeli mána sem var úti fyrir Vestmannaeyjum. Komið var við á lóð Borgarspítalans og sóttir tveir læknar; Ólafur Jónsson og Frosti Sigurjónsson, en Ólafur var frumkvöðull í stofnun læknavaktar vegna sjúkraflugs. Þyrlunni var snúið við í þessu tilfelli áður en til hífingar kom þar sem sjúklingurinn lést en aðkoma lækna að sjúkrafluginu átti eftir að aukast, enda mikill áhugi meðal þeirra og skilningur á mikilvægi þessa samstarfs. Í kjölfarið á sjúkraflugi til Þorlákshafnar vegna skipverja föstudaginn 15. febrúar 1974 var haldin fyrsta hífingaræfingin með lækna og fór hún fram á Sandskeiði með þátttöku læknanna Ólafs Ingibjörnssonar og nafna hans Jónssonar. Auk lækna var hjúkrunarfræðingur með í sjúkraflugi í einhver skipti, hið fyrsta var sunnudaginn 4. ágúst. Þá voru sóttir þrír sjúklingar með reykeitrun í Landmannalaugar, samkvæmt dagbók þyrlunnar. Með í för voru Ólafur Jónsson, læknir á Borgarspítalanum, og Lilja Harðardóttir hjúkrunarfræðingur. Reyndar sagði í fjölmiðlum að bíll hefði orðið fastur í á og allir fjórir, sem í honum voru, fengið kolsýringseitrun en þrír af þeim hefðu verið fluttir með þyrlunni.

Sunnudaginn 11. ágúst 1974 var farið í sjúkraflug frá Reykjavík og var Ólafur Ingibjörnsson læknir með í för ásamt hjúkrunarfræðingi. Flogið var yfir togarann Baldur EA 124 frá Dalvík þar sem tveir skipverjar höfðu slasast alvarlega. Læknir var látinn síga í fyrsta sinn úr þyrlunni um borð í skip í þessu tilfelli. Lagt var upp frá Reykjavík kl. 13:00 og Ólafur seig niður í togarann kl. 14:07. Rúmum hálftíma síðar var annar hinna slösuðu hífður um borð í þyrluna og læknirinn þar á eftir, og svo haldið til Reykjavíkur. Hinn sjómaðurinn er talinn hafa látist samstundis í slysinu og varð lík hans eftir um borð í skipinu.

TF-GNA eyðilagðist í nauðlendingu árið 1975 þegar verið var að flytja ljósastaura á skíðasvæði KR í suðausturhlíð Skálafells.

Ritstjórn október 11, 2024 07:00