Jóhanna María Eyjólfsdóttir vígðist sem djákni í mars síðastliðnum og hélt þá lítið samsæti til að fagna áfanganum með sínum nánustu. Jóhanna María var alin upp á kaþólsku heimili í Vestmannaeyjum og hefur alltaf verið trúuð. Trúin var henni leiðarljós og styrkur þegar hún lenti í nokkrum erfiðum áföllum á mjög stuttum tíma. Á átta mánaða tímabili lést faðir hennar eftir erfið veikindi, amma hennar skömmu seinna og það sem var erfiðast af öllu var að fyrrverandi eiginmaður hennar til 20 ára og barnsfaðir svipti sig lífi. Einu og hálfu ári seinna var henni sagt upp störfum eftir samtals 16 ára starf hjá hinu opinbera. Hún fann ber í báðum brjóstum sínum og fór í tvo fleygskurði með stuttu millibili. Það þótti henni ekki eins erfitt því læknavísindin höfðu ráð við því áfalli, þó vissulega skapi þess háttar veikindi ákveðið óöryggi og minni á fallvaltleika lífsins. Svona áföll væru nóg til að buga marga en Jóhanna María leitaði leiða, fékk hjálp fyrir sig og drengina sína tvo, sem þá voru 7 og 15 ára, stóð upprétt en viðurkennir að þetta hafi allt tekið verulega á og sett sitt mark á hana til lífstíðar. Hún hélt smá tölu í samsætinu þegar hún fagnaði vígslunni þar sem hún sagði að hún hefði aldrei trúað því að nú, 52 ára gömul, væri hún að vígjast sem djákni. Hvatningin hafi verið einkum tvennt, annars vegar tvær uppsagnir og hins vegar ástin sem kom inn í líf hennar og breytti framtíðarplönunum.
Draumurinn var að verða fréttamaður
Þegar Jóhanna María útskrifaðist sem stúdent úr Verzló sótti hún um fjölmiðlanám í Bandaríkjunum því draumurinn var að verða fréttamaður. En þá um sumarið hitti hún Albert, ástina í lífi sínu, og hætti við að fara út. En af því að þá var fjölmiðlafræðin ekki kennd til BA hér á landi ákvað Jóhanna María að fara í sagnfræði í HÍ, því það væri fínn grunnur undir blaðamennskuna, og svo tók hún fjölmiðlafræði sem aukagrein hjá Sigrúnu Stefánsdóttur. Eftir það fór hún að vinna hjá RÚV og dróst þaðan fyrir tilviljun inn í pólitík. Hún fór síðan að starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. sem aðstoðarmaður ráðherra og starfaði í Menntamálaráðuneytinu í alls 8 ár. “Svo kom reiðarslagið,” segir Jóhanna María, “2014 var svokölluð hagræðing hjá Stjórnarráðinu í öllum ráðuneytum og tæplega 30 manns sagt upp og ég var annar tveggja starfsmanna sem fékk uppsögn í Menntamálaráðuneytinu,” segir hún. “Þetta var sannarlega eins og köld vatnsgusa. Ég hafði verið að vinna sem sérfræðingur og verkefnastjóri og var að leiða mjög mikilvæg verkefni eins og eineltisverkefni, heilsuræktar- og geðræktarverkefni í framhaldsskólum og var að sinna málum sem stóðu hjarta mínu nærri.” Þegar hún var pólitískur aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar var Jóhanna María meira í beinum stjórnmálum en þarna var hún komin á stað þar sem henni þótti hún sannarlega gera gagn. “Ég hafði verið talsvert frá vinnu vegna aðstæðna hjá mér en var komin inn aftur og vonaði auðvitað að ég gæti hellt mér út í þessi áhugaverðu verkefni sem ég hafði verið að vinna að en þá kom uppsögnin. Ég vil alls ekki setja sjálfa mig í fórnarlambshlutverkið því ég er ekki sú eina sem hef lent í viðlíka, en þetta var alveg svakalegt högg og að mér fannst, koma úr hörðustu átt. Ég áttaði mig fljótlega á að ég þyrfti að setja stefnuna annað og halda fókus, sjálfrar mín og strákanna minna vegna.”
Þáði alla hjálp
“Uppsögnin var þannig að ég var beðin um að fara strax heim og þar sem ég er að ganga niður Laugaveginn mætti ég fullorðinni vinkonu minni sem hefur verið mér mikill lærifaðir í lífinu. “Það fyrsta sem ég sagði við hana var: Það var verið að segja mér upp! “Hvað segirðu?” spyr hún vantrúuð og ég segi við hana setningu sem ég mundi svo síðar ekkert eftir að hafa sagt: “Já, en veistu, ég er bara að hugsa um að snúa vörn í sókn og fara að gera það sem mig hefur alltaf langað til að gera. Það er að fara í nám sem tengist því að vinna með fólki.” Þessi vinkona mín hefur oft rifjað þetta upp fyrir mér og ítrekað við mig hversu mikilvægt þetta hugarfar mitt hafi verið og að það hafi fleytt mér áfram í gegnum áfallið við starfsmissinn. Í staðinn fyrir að leita strax að annarri vinnu nýtti ég svigrúmið sem ég fékk eftir uppsögnina til að hugsa mig um og finna hvað mig langaði mest að gera. Sálfræði hefði legið beint við en mér þótti það of langt nám en þá rak ég augun í djáknanámið. Þá opnuðust augu mín og það var eins og ég hefði verið leidd áfram að þessum punkti. Ég gat nýtt mér alla mína reynslu og fyrra nám og af því ég var með grunnnám gat ég nánast farið beint í diplómanámið í djáknafræðinni. Ég tók eitt ár í uppeldis- og menntunarfræðum og djáknanámið, auk starfsþjálfunar á tveimur árum og þetta var ótrúlega áhugavert og fjölbreytt nám. Ég var að setjast aftur á skólabekk eftir rúm 20 ár og auðvitað var erfitt að byrja aftur en ég gat þetta sannarlega.”
Vildi vinna á spítala
Jóhanna María hefur sjálf þurft að fást við veikindi ættingja og með þá reynslu þótti henni hún geta gert mikið gagn sem sjúkrahúsdjákni. “Ég var meðal annars í starfsþjálfun á líknardeild og geðdeild og hef séð þörfina fyrir aðstoð við þá sem lenda í hremmingum. En til að mega vinna sem sjúkrahúsdjákni þarf maður að bæta við sig eins árs sálgæslunámi erlendis. Ég stefndi til Bandaríkjanna í það nám en þá voru tekin af mér völdin og ég fann ber í brjósti mínu, fyrst í öðru og svo hinu og þá fann ég að mér var ætluð önnur leið. Sem betur fer fór það allt vel að lokum en ég er í stífu eftirliti. Ég er bjartsýn að eðlisfari og er tamt að hugsa á þá leið að hlutirnir gætu verið verri. Það er eiginleiki sem ég er afar þakklát fyrir og hefur fleytt mér langt í lífinu. Ég venti mínu kvæði í kross og þegar mér bauðst vinna á útfararstofu tók ég henni fegins hendi, enda dýrmæt reynsla. Þar vann ég í tæpt ár en fékk þá annað uppsagnarbréf á versta tíma. Ég neita því ekki að á þessum tímapunkti fannst mér nóg komið en það var þá sem þetta yndislega starf í Áskirkju kom upp í hendurnar á mér. Ég hafði verið innan um dauðann og sorgina alla daga og sá strax hversu tilbúin ég var til að takast á við eitthvað uppbyggilegt. Djáknastörfin liggja ekki á lausu í dag og hefðin fyrir að hafa djákna í kirkjum hérlendis er ekki löng. Ég var svo heppin að í Áskirkju er 20 ára hefð fyrir því að hafa djákna við hlið prests. Oft er djáknastarfið bara hlutastarf en ég var svo heppin að fá 75% starf.”
Starfar líka með unglingum
Og af því Jóhanna María er ekki í fullu starfi sem djákni og er ein með tvo syni sinnir hún auk þess hlutastarfi hjá Kópavogsbæ. “Ég vinn á vegum menntasviðs Kópavogsbæjar þar sem ég er í teymi með fjölskylduráðgjafa og við sinnum stuðningsþjónustu í grunnskólum bæjarins. Við sinnum öllum níu grunnskólunum og hittum nemendahópa sem geta nýtt sér fræðsluna og stuðninginn sem við bjóðum upp á. Þarna nýtist sálgæslan sem ég er búin að læra og auðvitað störf mín hjá ráðuneytinu líka. Svo var ég formaður og framkvæmdastjóri hjá Píeta-samtökunum með fram djáknanáminu og leiddi þar sjálfsvígsforvarnir. Ég vildi opna umræðuna um sjálfsvíg og deila reynslu minni sem aðstandandi og móðir drengja sem höfðu misst föður sinn úr sjálfsvígi.”
Nýtir alla reynslu sína
“Ég er þakklát fyrir að geta í dag nýtt samanlagða reynslu mína, bæði faglega og persónulega í þágu þeirra sem á þurfa að halda. Starfið mitt með nemendum er gífurlega gefandi því krakkar í dag glíma við flókið umhverfi og upplifa sumir mikinn kvíða og vonleysi. Við sjáum oft að einelti er mjög falið og grasserar víða. Krakkarnir eiga líka oft á tíðum erfitt með að koma auga á styrkleika sína, enda samanburðurinn við ímyndir á samfélagsmiðlum ekki hagstæður.”
Tengir kynslóðirnar
Jóhanna María sér um sunnudagaskólann í Áskirkju, hefur umsjón með eldri borgara starfinu auk þess að sinna fermingarfræðslu með sr. Sigurði Jónssyni. “Mér finnst ég vera að tengja kynslóðirnar í starfi mínu”, segir Jóhanna María og brosir. “Ég get nýtt mér það sem ég fæ út úr krökkunum í Kópavogi og fært það til eldra fólksins og svo get ég sannarlega nýtt mér það sem ég upplifi með eldra fólkinu þegar ég er með krökkunum.”
Finn vonleysi og depurð hjá eldra fólkinu
Jóhanna María segir að það hafi verið mjög áberandi að eldra fólkið upplifði áhyggjur og kvíða þegar þriðja bylgja Covid -19 skall á. “Ég finn mjög vel fyrir því að það er meiri heilsukvíði í gangi. Fólk upplifir meiri einmanaleika og finnst það öryggislaust. Við lærðum í vor hvar skóinn kreppir og nú verða vandamálin enn meira áberandi,” segir Jóhanna María sem vonar að hennar eigin áföll og upprisa geti nýst öðrum. Þau séu ekkert einsdæmi heldur séu alltaf til leiðir fyrir alla, sama hversu lífið virðist vonlaust.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.