Höfundarverk Hallgríms Helgasonar er einstaklega áhugavert hvort sem litið er til bóka hans eða myndverka. Um þessar mundir stendur yfir á Kjarvalsstöðum sýningin Usli en þar er sjónum beint að höfundarverki myndlistarmannsins Hallgríms. Í myndum hans má ekki síður greina samfélagsrýni, litríka sköpun, spennandi sögur og áhugavert umhverfi. Það er kannski ekki skrýtið að fólki finnist bækur Hallgríms myndrænar og skemmtilega teiknaðar því þannig vinnur hugur hans í myndlistinni líka.
Hallgrímur hefur þróað mjög persónulegan stíl í myndlistinni ekkert síður en á ritvellinum. Hann er óhræddur við að stíga fram. lýsa viðhorfum sínum til samtímaatburða og sögunnar og um leið neyða okkur til að velta vöngum og skoða málin frá öðrum sjónarhornum. Hann er fígúratífur málari, leikur sér með fantasíur en er samt alltaf jarðbundinn. Sunnudaginn 17. nóvember næstkomandi kl. 14.00 verður Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur og myndlistarmaður, með leiðsögn um sýninguna. Hún tók viðtal við Hallgrím sem birt var í sýningarskrá sýningarinnar og hefur skoðað myndlist hans.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur er Hallgrímur Helgason er áttundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafnsins á Kjarvalsstöðum. Þar segir að markmið sýningaraðarinnar er að fara yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans.
Það er hægt að fullyrða að einkar vel hefur tekist til í tilfelli Hallgríms og sýningin bæði skemmtileg, lifandi og eftirminnileg. Án ef verður ómetanlegt að njóta leiðsagnar Rögnu um sýninguna því hún á það sameiginlegt með Hallgrími að hafa bæði fengist við myndlist og ritstörf.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.