Útivist snýst um að vera saman úti í skemmtilegum félagsskap og í boði er ótrúlegur fjöldi ferða þar sem fólk getur notið ævintýra. Eitt af því nýjasta sem Ferðafélag Íslands býður nú upp á núna er ,,FÍ Rannsóknarfjelag” og vekur mikla athygli en það eru styttri en fleiri ferðir.
Rannsóknarfjelagið
Sögustund er eitt af því sem fólk á öllum aldri hefur gaman að. Allir eiga einhverjar minningar um indæla stund þar sem góður sögumaður sagði skemmtilega sögu eða las góða bók. Þetta gat verið amma eða afi eða bara kennarinn. Og þegar hægt er að sameina sögustundina útiveru með skemmtilegu fólki eiga sér stað einhvers konar töfrar. Svo þegar næring kemur inn í viðburðinn verður hann líka að einhverju miklu meira. Þetta vita hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir en þau hafa um árabil starfað fyrir Ferðafélag Íslands. Sáu m.a. um verkefnið ,,Eitt fjall á viku” í nokkur ár en hafa nú tekið að sér að stýra verkefninu ,,FÍ Rannsóknarfjelag” ,,Mjög mikilvægt er að halda gamla rithættinum í heiti þessa verkefnis af því það vísar í sögurnar okkar sem eru við hvert fótmál ef vel er að gáð,” segir Páll Ásgeir og brosir. ,,Markmið gönguferðanna okkar er nefnilega ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið,” bætir hann við.
Miðjum aldri náð
Þau Páll og Rósa eru bæði komin á þennan skemmtilega miðja aldur og þykjast vita hvað þessi stóri miðaldra hópur, sem enn er vel hreyfanlegur, vill. ,,Við sjáum jafnaldra okkar, sem áður fóru á
Hvannadalshnjúk og fleiri stór fjöll, langa mikið til að halda áfram að lifa þessu lifandi lífi sem útivistin býður upp á. Þetta er mjög hreyfanlegt fólk þótt það kjósi að fara ekki lengur í mikið fjallaklifur. En útivistin er bara svo miklu meira en fjallaklifur,” segir Páll Ásgeir.
Gönguleiðir með sögu
,,Við veljum gönguleiðir þar sem er merkileg saga að segja frá og það er ansi víða. Svo er markmið okkar ekki bara að rannsaka og miðla af því sem við höfum þegar komist að heldur er hópurinn allur saman að rannsaka og segja frá. Þannig miðla allir af sínum viskubrunni og læra hver af öðrum,” segir Páll. ,,Margar af þessum göngum fela ekki endilega í sér fjallgöngu. Í fyrstu göngunni ætlum við að ganga í kringum fjall og kynna okkur söguna sem lifir þarna í landinu. Þetta heitir Lækjarbotnar og þar er fjall sem heitir Selfjall og við ætlum að ganga í kringum það. Þar leynast alls kyns sögur af forboðnum ástum, útilegumönnum, vegagerð á Íslandi og skátahreyfingunni svo dæmi sé tekið. Markmiðið er að fá til liðs við okkur fólk sem getur vel gengið en er kannski hætt að fara á Hnjúkinn. En vill samt halda í þessa skemmtilegu þætti sem útivistin felur í sér, þ.e. að fara út í náttúruna og skoða söguna sem lifir í henni, með skemmtilegu fólki og fræðast um leið. Við höfum ekki hugsað okkur að fara hratt yfir en við miðum við að fólk geti vel gengið því stundum göngum við langt.”
Mesti fjársjóðurinn fólginn í ferðalaginu
,,Það er svo miklu dýrmætara að gefa sér tíma í ferðalagið, þ.e. að gefa sér tíma til að setjast niður og borða nestið, skipast á sögum um reynslu sína og upplifun. Á þann hátt er Rannsóknarfjelagið saman í þessari rannsókn og allir hafa gaman af. Við Íslendingar eigum ekki mikið af sýnilegum fornminjum en sagan á bak við rústirnar eða hlöðnu veggina er svo mikils virði og hana ætlum við að segja.”
Hópur miðaldra hratt stækkandi
Við sjáum að hópur þeirra sem kominn er á miðjan aldur á Ísland fer hratt stækkandi eins og annars staðar. Þetta er hópurinn sem er á leiðinni inn í eftirlaunatímabilið og hefur sannarlega tamið sér annan lífsstíl en kynslóðin á undan. Þetta fólk er mjög áhugasamt um að halda áfram að stunda hreyfingu en vill ekki vera másandi aftast í hópnum í erfiðri fjallgöngu, enda engin ástæða til. Það er fyrir þetta fólk sem við ætlum að reka þetta Rannsóknarfjelag,” segir Páll Ásgeir fullur tilhlökkunar því hann veit sem er að í þessum ferðum verður fólk sem bæði er frótt og fróðleiksfúst. Hann, eins og aðrir, munu græða mikið á að hlusta á sögur annarra sem munu ganga með þeim. Yfir veturinn verða þessar ferðir dagsferðir um helgar og svo þegar kemur fram á vorið verða farnar kvöldgöngur eftir vinnu hjá þátttakendum.
Kökur á skottloki bragðast betur en aðrar
Gjald er tekið fyrir ferðir Rannsóknarfjelagsins og innifalið er leiðsögn og skipulag en fólk kemur með eigið nesti. ,,Við lærðum það í verkefninu ,,Eitt fjall á viku” að kökur af
skottloki bragðast betur en aðrar kökur. Einu sinni í mánuði komu allir með kökur eða eitthvað sem þeir vildu deila með öðrum og allir smökkuðu dýrindis nesti. Þá var einhver sem var á stórum bíl fenginn til að opna skottlokið og útbúið var hlaðborð. Þennan sið ætlum við að halda í hjá Rannsóknarfjelaginu því eitt af því sem sameinar okkur og tengir er að borða saman. Þá myndast óborganleg stemmning og allir fara glaðir heim,” segir Páll Ásgeir brosandi.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.