Félagsfræðingar þekkja vel að flestir alast upp í nánari tengslum við móðurfjölskyldu sína en föðurfjölskyldu. Margt bendir til að það sé börnum mjög hollt að eiga í nánum samskiptum við afa sína og ömmur í báðar ættir. Nýlegar rannsóknir Háskólans í Utah í Bandaríkjunum varpa ljósi á hvers vegna það er svo algengt að föðurfjölskyldan verði útundan þegar kemur að samskiptum við barnabörnin.
Sonia Salari er félagsfræðingur við Háskólann í Utah kennir fjölskyldufræði og hún segist gjarnan spyrja nemendur sína í upphafi hvers árs hversu nánir þeir séu móðurafa sínum og -ömmu. Undantekningalaust fari margar hendur á loft en síðan spyrji hún um föðurfjölskylduna og þá séu ævinlega áberandi færri hendur á lofti. Vegna þessa hóf hún rannsókn á bæði á hversu mikið börn vissu um móður- og föðurfjölskyldur sínar og einnig hve náin samskipti þeirra við stórfjölskyldurnar væru.
Mun fleiri telja sig nánari móðurfjölskyldunni og vita meira um hana en hina greinina ættartrésins. Það kom einnig í ljós að flest börnin voru nánari móðurömmu sinni en móðurafa. Þetta gilti jafnvel þótt börnin byggju í næsta nágrenni við föðurafa og -ömmu sína en það var algengara en öfugt því konur fylgja oftar mönnum sínum og setjast að í þeirra heimabæ eða heimasveit en að þeir í þeirra. Karlmenn elta atvinnuna og á sínum heimaslóðum hafa þeir sambönd og miða iðulega menntun sína við það sem nýtast best þar. Rannsóknir hafa einnig sýnt að eldri kynslóðin er líklegri til að hafa nánari tengsl við börn dætra sinna en sona. Þetta segir okkur auðvitað að það eru konur sem sjá að mestu um að mynda og viðhalda tengslum innan fjölskyldna. Margt bendir þó til að þetta sé breytast því yngri karlar eru duglegri en hinir eldri við rækta sín tengsl.
En hverju skiptir að þekkja fjölskyldu sína vel, þekkja ættarsöguna og mynda þessi nánu tengsl? Flestum kemur án efa fyrst í hug mikilvægi þess að vita hvort einhverjir sjúkdómar liggi í ættinni og hvort fólk þurfi að passa heilsu sína á einhvern tiltekinn hátt. Það er hins vegar ekki allt. Rannsóknir hafa sýnt að kvíði og áföll breyta genamenginu og hafa áhrif á næstu kynslóðir. Það getur því skýrt margt hvað andlega heilsu varðar ef vitað er að erfið reynsla eða alvarleg áföll hafi sett mark sitt á líf forfeðranna.
Þroskast hraðar og betur þegar amma og afi eru til staðar
Náin samskipti við afa og ömmur skipta börn mjög miklu máli og nýleg þýsk rannsókn sýndi fram á að börn sem gott samband við afa sína og ömmur eru almennt fljótari til á mörgum sviðum og gengur mun betur í námi en hinum. Fjölskyldan er einnig bakland og sterk bönd innan stórfjölskyldna eru líkleg til að skila auknu sjálfstrausti, öryggistilfinningu og vissu um að maður tilheyri ákveðnum hópi. Allt þetta stuðlar að heilbrigðri sjálfsmynd og betri andlegri líðan.
Konur hafa í gegnum tíðina fengið það hlutverk innan fjölskyldunnar að mynda þessi tengsl og viðhalda þeim. Þær sjá um að bjóða í afmæli, mat og hringja til að grennslast fyrir um líðan ættingjanna. Það kemur einnig í þeirra hlut að sinna einhverjum sem er veikur eða þarf á stuðningi að halda. En á hinn bóginn kemur að hér á landi eru það oft karlar sem þekkja betur ættarsöguna, geta rakið ættina og hafa lagst í vinnu við að kanna líf forfeðranna. Konur geyma einnig sögur, þjóðsögur, ævintýri, vísur og lög og færa þá fjársjóði frá einni kynslóð til annarrar. Þær skila sömuleiðis áfram aðferðum sínum við barnauppeldi, huggun og umönnun.
Vísindamennirnir sem kannað hafa þessa hlutverkaskipan innan fjölskyldunnar og hvernig hreyfiafl hennar virka telja að konur myndi og viðhaldi samböndum og tengslum ekki síst vegna þess að verkaskipting inná heimilinu er iðulega ranglát. Konur vinna á bilinu 60-80% af heimilisverkunum jafnvel þótt makar þeirra vinni ábyrgðarminni störf en þær. Það er meginástæða þess að konurnar velja að nýta frítíma sinn fremur til að rækta sína fjölskyldu en fjölskyldu eiginmannsins. Niðurstöður rannsókna sýna einnig að þegar verkaskipting er jafnari eru samskiptin við báðar stórfjölskyldur einnig jafnari. Það Hafi afar og ömmur í föðurætt áhyggjur af því að þau sjái barnabörnin of sjaldan ættu þau að hvetja syni sína til að taka meiri þátt í heimilisverkunum og sinna börnum sínum betur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.